Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 16:11:33 (2888)

1996-02-12 16:11:33# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[16:11]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég reyndi að draga aðeins fram í máli mínu söguna varðandi þetta mál. Þetta snýst ekki aðeins um hagstjórn og skynsamlega efnahagsstefnu, heldur er líka mikil saga fólgin í afstöðu manna gagnvart útlendingum í íslenskum sjávarútvegi. Að vísu rökstuddi ég málið með því að reyna að komast út úr tilfinningaróti fortíðarinnar varðandi söguna vegna þess að hér væri ekki um að ræða neina hættulega hluti. Þrátt fyrir það tel ég að við eigum að breyta þessu hægt og rólega. Þess vegna er lögð til 20% eignaraðild. Það er til þess að aðilar í sjávarútvegi og þjóðin sjálf venjist við það starfsumhverfi og sjái, sem ég er sannfærður um, að það er engin hætta fólgin í þessu. Ég tel að það sé nauðsynlegt að breyta þessu eins og ég lagði til, 20% fyrst. Ég get alveg séð fyrir mér að þessi eignaraðild verði stighækkandi þegar fram líða stundir. En ég geri mér fulla grein fyrir því að málið er þannig vaxið að það er mjög auðvelt að koma með yfirborðskennd rök gegn þessu og spila á tilfinningar manna varðandi söguna og það að útlendingar komi hér inn, rifja upp deilur um landhelgisstríð og brigsla mönnum jafnvel um landráð þegar þeir koma fram með þessa tillögu. Þessi umræða hefur oft verið í slíkum farvegi.

Það er þess vegna, herra forseti, sem við leggjum til að það sé farið rólega í þetta.Við venjumst því að búa við takmarkaða eignaraðild. Það má vel vera að það verði hægt að hækka hana síðar. Sjálfur held ég að svo verði. Hugsanleg verður það þannig að við verðum ekki með neinar takmarkanir á eignaraðild útlendinga, hvorki í sjávarútvegi né öðrum atvinnugreinum þegar fram líða stundir hér á landi. Það má vel vera að hlutirnir þróist í þá átt. Ég ætla ekki að fullyrða um það á þessu stigi málsins en ég tel rétt að við opnum þessi mál með gætni.