Umræða um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 13:39:57 (2925)

1996-02-13 13:39:57# 120. lþ. 89.91 fundur 189#B umræða um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[13:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil einnig taka undir ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, formanns sjútvn. Ekki síst vegna þess að það kom fram í gær að þingflokkur Sjálfstfl. hafði ekki sinnt þeirri sjálfsögðu kurteisisskyldu sinni gagnvart hæstv. viðskrh., sem flytur málið í nafni ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna, að segja honum frá því að það væri komin stjórnarandstaða í Sjálfstfl. sem væri eins og hann orðaði það sjálfur ,,í samkeppni við þingmenn stjórnarandstöðunnar um uppboð``.

En þau eru fleiri fádæmin sem eru að gerast nú um þessar mundir í samskiptum stjórnarflokkanna því ég heyrði það í útvarpinu fyrir röskum sólarhring að hæstv. samgrh. hefði tilkynnt það á kjördæmisráðsfundi Sjálfstfl. í Norðurl. e. að hætt væri við að skera niður flugmálaáætlun um helming af því sem fyrirhugað var til þess að framkvæma verulegar endurbætur á flugvellinum á Akureyri sem ekki er á flugmálaáætlun. Þetta kom líka fram, virðulegur forseti, þannig að það virðast vera orðnir fleiri stjórnarandstæðingar í Sjálfstfl. heldur bara minnihlutastjórn hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Það virðist vera kominn þriðji armurinn til sögunnar sem er farinn að höndla sem sjálfstæð ríkisstjórn án vitundar samþingmanna sinna og stuðningsmanna og samráðherra.