Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 16:05:25 (2972)

1996-02-13 16:05:25# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[16:05]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er mikið áhyggjuefni að dregið er úr framlögum til samgangna á landi sem nemur 915 millj. kr. samkvæmt þeirri ályktun sem hér er til umræðu. Áhrifin eru augljós. Fólk verður að bíða lengur eftir ýmsum langþráðum samgöngubótum á vegum, atvinnufyrirtækin á landsbyggðinni búa áfram við lakari kost og atvinnutækifærin verða færri en gert var ráð fyrir.

Ég ætla ekki beint að deila á samdrátt eða niðurskurð því að brýna nauðsyn ber til að draga úr skuldum ríkissjóðs. Ég hygg þó að til lengri tíma litið sé aðgerðin í heild vafasöm því bættar samgöngur skila sér oftast í verulega aukinni hagkvæmni og ýmsar samgönguaðgerðir eru mjög arðbærar.

Herra forseti. Mig langar að nálgast þetta mál á örlítið annan hátt og tala um það sem er að gerast í framkvæmdum. Ég tala þar út frá þáltill. sem undirritaður stóð að ásamt stuðningsmönnum úr öllum þingflokkum á Alþingi. Kveikjan er athugasemd um malbik og steypu sem ég las í Víkverja og er eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta:

Víkverji segir að malbikið virðist best undir hjólum en spyr um leið hvort það sé æskilegasti kosturinn þjóðhagslega séð. Um það eru skiptar skoðanir.

Eins og áður var getið lagði undirritaður fram tillögu um notkun steinsteypu í staðinn fyrir malbik. Þar eru lögð fram rök fyrir því að henni fylgi betri ending, minna viðhald, minni erlendur kostnaður, fleiri störf hérlendis við efnistöku og í sementsverksmiðju og steypustöðvum, minni eldsneytisnotkun, minni efnamengun vegna slitryks og minni kostnaðar við lýsingu þar eð steypan er ljós en malbikið dökkt. Víkverji rak augun í þessa tillögu. Ég vonast til þess að hún komi til afgreiðslu í vetur. Ég fagna því að formaður samgn. er hér viðstaddur því ég ætla að beina til hans orðum á eftir varðandi þessa þáltill. Í raun þyrfti að biðja um að hæstv. heilbrrh., hæstv. iðnrh. og jafnvel hæstv. forsrh. mættu til umræðunnar vegna þeirra mála sem ég ætla að ræða en ég læt mér nægja að vonast til þess að þessi mál komist á framfæri fyrir tilstilli hæstv. samgrh. og formanns samgn.

Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umræðuefni þær framkvæmdir sem eiga sér stað núna og furðuleg vinnubrögð í sambandi við þær. Þar á ég við Vestfjarðagöngin. Fyrir um fimm árum var boðin út verkframkvæmdin slitlagsgerð í þessum göngum. Þá komu tilboð um steinsteypu og malbik. Niðurstaðan var sú að tilboði malbiksaðilans var tekið án þess að ræða við steinsteypuaðilann þótt hans tilboð væri hagstæðara. Mér finnst ástæða til að gera þetta að umræðuefni. Ég tel illa að málum staðið þegar menn hafna íslenskum efnum sem eru jafnframt ódýrari og meira vinnuskapandi. Af þessari ástæðu vil ég vitna hér í grein sem birtist í Adressavisen í Þrándheimi 25. nóv. 1994. Fyrirsögnin er Ryk eykur fjölda dauðsfalla. Mér finnst ástæða til að greina frá efni hennar, með leyfi forseta. Þess vegna minntist ég á að hæstv. heilbrrh. þyrfti að vera hér. Fyrirsögn greinarinnar er heldur óhugnanleg. Að meginefni fjallar hún um þá hættu sem stafar af mengun frá malbiksryki. Að sögn Rannsóknarstofnunar ríkisins um þjóðarheilbrigði er asfaltrykið í Þrándheimi hættulegt heilsu gamalmenna og smábarna. Í greininni ráðleggur Hans Blystad, yfirlæknir í Þrándheimi, öldruðu og heilsutæpu fólk að halda sig innan dyra þá daga sem mest er af malbiksryki í andrúmsloftinu. Rykið veldur alvarlegum erfiðleikum hjá asmasjúklingum og öðrum þeim sem eiga við öndunarsjúkdóma að stríða.

Í þessari grein er vitnað í tölur frá SINTEF Bergteknikk sem sýna að 9--10% malbiksins sem losnar úr slitlaginu á ári verða að svifryki. Það þýðir að árlega losna um 1.000 tonn af malbiksryki á nagladekkjatímabilinu, en það er á svipuðum tíma þar og hér á Íslandi. Slit malbiks er því allt að 10.000 tonnum árlega í Þrándheimi. Það er vitnað til þess að í Væretunellen er malbiksslitið 700 kg á viku og þess vegna er komin fram krafa um að leggja niður nagladekkjaumferð á þessu svæði.

Ég held að það sé rétt að geta þess að menn eru að slást við sömu hluti hér í Reykjavík. Í þessari umræddu grein er rætt um að banna umferð um ákveðnar götur í Þrándheimi vegna ryks. Vegna reynslu minnar af áhrifum af saltburði á götur Reykjavíkur og upplausn tjöru og ryks tel ég mikla ástæðu til þess að tillagan sem liggur fyrir samgn. Alþingis um aukna notkun steinsteypu til slitlagsgerðar verði tekin til umfjöllunar í nefndinni og afgreidd frá Alþingi. Ef svo verður ekki má leiða að því líkur að þar sé hagsmunagæsla á ferðinni sem kemur í veg fyrir eðlilega umfjöllun og afgreiðslu tillögunnar.

Ég hef velt þessu fyrir mér í sambandi við notkun malbiks í Vestfjarðagöngum og þessi spurning kom reyndar upp í huga mér þegar fréttir bárust af flutningabíl sem kviknaði í á Hvalfjarðarleið 18. des. sl. Hvað gerðist við slíkar aðstæður í Vestfjarðagöngum með malbikinu og aðeins einni akrein? Björgunarmenn eða slökkviliðsmenn kæmust ekki einu sinni að bifreiðinni vegna þess að göngin eru einbreið og malbikið mundi sannanlega loga eins og gerðist á Hvalfjarðarleiðinni. Ég tel að menn hafi gleymt að taka þetta með í reikninginn þegar þeir ýttu út af borðinu tilboði sem var hagstæðara en malbikstilboðið varðandi slitlag í Vestfjarðagöngum. Það eru svona atriði sem ég tel að menn flaski á. Ég er ekki að ásaka hæstv. samgrh. eða formann hv. samgn. fyrir þeirra aðgerðir í málinu. Ég er bara að benda á hvernig verktakinn sem þarna á hlut að máli vinnur. Ég tel að það sé á ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar að svona lagað skuli gerast. Menn ættu að gæta betur að sér þegar svona verk eiga í hlut. Þarna var um að ræða tilboð um íslenska framleiðslu sem er betri eða a.m.k. jafngóð og það sem valið var. Jafnframt er hún ódýrari og skapar fleiri störf. Þarna hefur mönnum skjátlast alvarlega við framkvæmd um mála.

[16:15]

Ég gæti haldið lengi áfram, herra forseti, og rætt þessi mál út frá umferðaröryggi í veggöngum. Það er kannski ástæða til að menn skoðuðu þessi mál ítarlega og vel vegna þeirrar umræðu sem kom áðan upp varðandi Spöl.

Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu. Ég ætla að eiga möguleika á að koma í síðari umferð. Að lokum, herra forseti, vil ég beina spurningum til hv. form. samgn. og hæstv. samgrh. Til form. samgn. er spurningin þessi: Ég óska eindregið eftir svari við því hvort hann ætli að afgreiða umrædda þáltill. frá hv. nefnd nú á þessu ári. Þetta er í þriðja sinn sem mælt er fyrir þeirri tillögu með stuðningi þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi og fyrrv. samgn. hafði ekki döngun í sér til að klára að afgreiða ályktunina. Ég bið því um svar við því úr þessum stóli frá hv. formanni hvort svo muni verða að ályktunin verði afgreidd í vetur.

Í öðru lagi skora ég á hæstv. samgrh. að hann beiti sér fyrir notkun íslenskra efna við slitlagsgerð á vegi á Íslandi og að rækilega verði upplýst hvers vegna aðalverktaki Vestfjarðaganganna tekur erlent heilsuskaðandi efni fram yfir íslenska steypu. Hún hefur mikið meiri atvinnusköpun í för með sér og er jafnframt ódýrari samkvæmt tilboði í verkframkvæmdir í Vestfjarðagöngum og samkvæmt því tilboði sem ég hef undir höndum.