Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 12:16:23 (3056)

1996-02-15 12:16:23# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[12:16]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir að taka undir nokkrar af þeim ábendingum sem ég var með. Það er ekki tími til að fara yfir efnisatriði um það. Ég tek undir skoðun hans í lokin varðandi gildistökuna. Við þurfum að hugsa það mjög vandlega af því að hér er um að ræða mjög veigamikla kerfisbreytingu.

Hann vék að því að e.t.v. yrðu innan fimm til tíu ára tveggja ára fjárlög. Ég held að það sé skemmri tími í að við höfum fjögurra ára fjárlög. Það væri að mörgu leyti ágætt þegar menn hugsa fram á við í sambandi við stjórnarmyndun. Við kjósum hér á fjögurra ára fresti og e.t.v. ætti það að vera meginverkefni þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn að útbúa fjögurra ára fjárlög áður en menn setjast að verki. Ég held að það mundi einfalda ýmislegt, alveg sama hvaða flokkar eru í stjórn. Það eru til tæki í okkar umhverfi, til allrar hamingju, sem gera það að verkum að menn geta horft nokkuð nákvæmt fjögur ár fram í tímann. Ég bendi á að það eru fyrirtæki úti í heimi sem velta margfalt á við íslenska ríkið og þeir leika sér að því að gera áætlanir til fimm eða tíu ára, nákvæmar rekstraráætlanir. Tækin eru til staðar, þetta er spurning um pólitískan vilja og ég held að... (Fjmrh.: Ég er ekki viss um að stjórnarandstöðunni líki þetta.) Ef hæstv. fjmrh. vildi hlusta betur á stjórnarandstöðuna, þá er ég alveg viss um að þetta verk mundi sækjast betur, en ég lít svo á að þetta frv. sé þó alla vega skref í rétta átt.