Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 17:47:23 (3098)

1996-02-15 17:47:23# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[17:47]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það séu engar nýjar fréttir að erlendir aðilar hafa haft hér aðgang að fiskmörkuðum. Erlendir aðilar hafa verið hér í samstarfi og samvinnu við fiskverkendur og hafa þar af leiðandi haft þennan óbeina aðgang. Það eru ekki nýjar fréttir og ég held að hv. þm. geti tekið undir það með mér.

Varðandi 49% hlutann í fjárfestingu erlendra aðila þá er um óbeina fjárfestingu að ræða. Frv. gerir beinlínis ráð fyrir því að í þriðju kynslóð fyrirtækja megi erlenda, óbeina fjárfestingin fara allt upp í 49%. Frv. gerir beinlínis ráð fyrir því.

Varðandi það að ekki sé hægt að samþykkja þetta fyrr en samþykkt hafi verið frumvörp um virkjunarrétt fallvatna og eignarhald á auðlindum í jörðu, þá er ég hv. þm. ekki sammála í þeim efnum. Einfaldlega vegna þess að þó svo að þetta frv. sé ekki komið í gegn, þá hafa þessar samningsskuldbindingar okkar gagnvart EES í raun og veru tekið gildi frá 1. janúar 1996.