Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 17:52:02 (3100)

1996-02-15 17:52:02# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[17:52]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að taka af allan vafa um það þá er alveg klárt að samkvæmt þessu frv. er beinn aðgangur erlendra aðila að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum bannaður þannig að menn þurfa ekkert að velta því neitt frekar fyrir sér.

Á bls. 8 í því frv. sem hér er til umfjöllunar og er efnislega samhljóða frv. því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson í tíð fyrri ríkisstjórnar flutti hér sem viðskrh. að öðru leyti en því að í þessu frv. er tekið á orkumálunum, flugrekstrinum og öðru sem ekki var þar inni, þar segir, með leyfi forseta:

,,Í skilgreiningunni á íslenskum lögaðila undir íslenskum yfirráðum felst að erlendir aðilar mega ekki eiga meira en 49% hlutafjár eða stofnfjár...``

Þetta þýðir það, og frv. gerir ráð fyrir því, að þriðja kynslóð fyrirtækja geti ekki orðið með meiru erlendu eignarhaldi en 49%. (Gripið fram í.) Hv. þm., þarna er um óbeina eignaraðild að ræða og fyrra frv. gerði nákvæmlega ráð fyrir því sama þannig að í þessu er ekkert nýtt sem ríkisstjórninni eða stjórnarflokkunum er að koma á óvart, ekki fyrri ríkisstjórn heldur og vafalítið ekki Alþfl. heldur vegna þess að það hefur verið gert ráð fyrir því alla tíð að þriðja kynslóð fyrirtækja mætti hafa allt að 49% erlent eignarhald.