Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 18:18:50 (3103)

1996-02-15 18:18:50# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[18:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi málflutningur hv. þm. dæmir sig í raun sjálfur. Hann fellur um sjálfan sig. Mér er ekki reiði í hug, alls ekki, miklu frekar hryggð yfir því að hér á Alþingi skuli vegist á með þeim hætti sem hv. þm. reynir að gera. Hér kemur hv. þm. og fer að eigna Alþfl. frumburðarrétt að tillögum varðandi eignarrétt yfir auðlindum. Ég hef ekki lagst í sögulega skoðun þess máls. Ég vil aðeins rifja það upp að í tíð fyrrv. ríkisstjórnar 1971--1973 undirbjó Magnús Kjartansson mál varðandi þjóðareign á háhita og flutti þau mál hér ítrekað og mér er kunnugt um að eftir það tók Alþfl. þau efni upp. Hvort Alþfl. á sjöunda áratugnum stóð að tillöguflutningi hef ég ekki athugað sértaklega og vil ekki fullyrða neitt um hér.

Ástæðurnar fyrir óbeinni eignaraðild í fyrirtækjum á Íslandi, svo maður aðeins nefni það, eru af ýmsum toga og eru runnar upp á þeim tíma þegar verulegar þrengingar voru hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi og brugðið var á það ráð að leita eftir því að lánardrottnar, þá olíufélög fyrst og fremst, gerðust hluthafar eða breyttu hluta af skuldunum í hlutafé í fyrirtækjunum. Það er þannig sem þetta er til komið. Það er hvorki til þess að draga fjöður yfir eða til þess að fara að efna til sérstakra svigurmæla eða að það sé stefna einhvers flokks, í þessu tilfelli Alþb., að standa þannig að máli, það er mjög langt frá því.