Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 18:22:56 (3106)

1996-02-15 18:22:56# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[18:22]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Orðaskipti hv. þm. sem hér hafa talað, þeirra Sighvats Björgvinssonar og Hjörleifs Guttormssonar, hafa staðfest það sem áður var vitað að þessir tveir flokkar Alþfl. og Alþb. eru sammála um nauðsyn þess að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum í jörðu á landi. Á sínum tíma í EES-samningum var gerð tímabundin undanþága frá almennum fjárfestingarrétti á EES-svæðinu. Nú er sá fyrirvari runninn út. Hér með er það svo að erlendir aðilar geta keypt fyrirtæki sem nýta orkuauðlindir okkar án þess að íslenska þjóðin fái nokkuð í sinn hlut af þeirri auðlindauppsprettu, þeirri auðlindarentu. Þetta liggur fyrir. Við erum sammála um það að þetta frv. eigi helst ekki að taka gildi nema tryggt verði að orkunýtingarrétturinn skili þjóðinni arði af auðlindinni. Þá er eftir ein spurning. Hvað með sjávarútvegsauðlindina? Það var settur fyrirvari, algjör og ótímabundinn, í EES-samningunum.

Þessar umræður hafa leitt í ljós í fyrsta lagi að lög sem sett voru halda ekki og eru ekki framkvæmd og það er ekki reynt að framkvæma þau. Í annan stað að ef þetta stjfrv. verður að lögum þá er búið að sýna fram á það og staðfesta af iðnrh. að með óbeinni eignaraðild geta erlendir aðilar náð úrslitatökum, stjórnandi forræði í fyrirtækjum sem gera út á Íslandsmið án þess að íslenska þjóðin fái nokkru um það ráðið eða fái arð af þeirri auðlind. Þá er eftir ein spurning sem ég bið hv. þm. Hjörleif Guttormsson að svara. Ef þetta eru staðreyndir mála, ef þetta er svo, er hann reiðubúinn að svara hér og nú þeirri spurningu: Breytir það einhverju um viðhorf hans gagnvart auðlindagjaldi eða veiðileyfagjaldi? Er hann ekki jafnsannfærður um að það sé nauðsynlegt að koma því á að því er varðar sjávarútvegsauðlindina eins og það þarf að því er varðar orkulindirnar?