Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:13:40 (3129)

1996-02-19 16:13:40# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lofaði þá góðu umræðu sem um þetta mál hefur orðið hér á hinu háa Alþingi. Hv. þm. spyr jafnframt hvernig ég geti staðið að samþykkt stjfrv. ef það frv. sem ég stend að nær ekki fram að ganga? Því er til að svara að frv. okkar fjórmenninganna gengur lengra en frv. ríkisstjórnarinnar. Við vildum varpa fram þeirri spurningu hvort sú skoðun sé fyrir hendi meðal hv. þm. að það sé skynsamlegt og hættulaust að ganga lengra. Umræðan hefur verið góð og ýmis rök með og á móti hafa komið fram. Þetta var tilgangurinn með því að leggja frv. fram. Ég sé það sem hlutverk efh.- og viðskn. að vinna úr þeim rökum sem fram hafa komið og það væri ekki í fyrsta sinn sem frv. breyttist í meðförum hv. þingnefndar. Þetta var tilgangurinn með því að leggja frv. fram.

Bein aðild eða óbein er aðeins formsatriði eins og ég lýsti fyrr í umræðunni. Þar sýndi ég fram á það að frv. Þjóðvaka gekk í raun skemur en stjfrv. Dæmið sem ég nefndi var að ÚA hf. sem rekur nú fiskvinnslu og útgerð, stofnaði dótturfyrirtækið ÚA-rekstur hf. eða ehf. og seldi því 100% dótturfyrirtæki rekstur sinn og útgerð. Samkvæmt stjfrv. mega útlendingar eiga 25% í því fyrirtæki ÚA sem ekki rekur útgerð eða vinnslu, en eingöngu 20% samkvæmt frv. Þjóðvaka. Samkvæmt því frv. sem ég er flm. að, mættu þeir eiga 49%. Þetta er hugmynd okkar í hnotskurn.

[16:15]

Ég benti enn fremur á að erlent lánsfé, sem hefur verið notað ótæpilega, getur verið hættulegra en erlent áhættufé. Það sem ég held að sé mikilvægt í þessari umræðu er að þeir aðilar sem stunda fiskveiðar og vinnslu lúti íslenskum lögum og reglum um stjórn fiskveiða og greiði íslenska skatta. Það er meginmálið.