Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:38:08 (3138)

1996-02-19 16:38:08# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:38]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það verðfellir allverulega gagnrýni hv. þm. á ráðherra og ríkisstjórn þegar á daginn kemur að hann er ekki sjálfur tilbúinn til þess að taka afstöðu til þess sem hér er spurt um. Það fer í verra vegna þess að sýnt hefur verið fram á það í umræðunni að ef stjfrv., sem hv. þm. hlýtur að taka afstöðu til, verður að lögum, (Gripið fram í: Hann styður það þá.) við skulum gera ráð fyrir því, ef það verður að lögum, er orðið upplýst í umræðunni og yfirlýst af hæstv. iðnrh. og viðskrh. að rétt sé með farið, að erlendir eignaraðilar geta með 49% eignaraðild í eignarhaldsfélagi tryggt sér alveg afdráttarlaust fullt forræði yfir útgerðarfyrirtæki með veiðiheimildir á Íslandsmiðum. Spurningin er ekki um prósentur beinnar eignaraðildar og það skiptir ekki meginmáli hver munurinn er að forminu til á óbeinni og beinni eignaraðild vegna þess að þetta mál snýst um forræði. Getur erlendur aðili í skjóli þessara laga tryggt sér fullkomlega löglega forræði yfir sjávarútvegsfyrirtækjum og þar með veiðiheimildum og einnig forræði yfir ráðstöfun þess afla? Svarið við þessu er að óbreyttu já ef hv. þm. ætlar að styðja núverandi stjfrv.

Ef hann tekur hins vegar mark á því sem hann sjálfur sagði að fyrst verði að tryggja virkt eignarráð þjóðarinnar yfir auðlindinni verður hv. þm. að gera það upp við sig hvernig það verði gert. Það er ekki unnt að gera nema með tvennum hætti. Annars vegar með því að innheimta veiðileyfagjald eða auðlindaskatt af fyrirtækjum í útgerð og svo hins vegar að setja lög sem kveða á um það að öllum afla af Íslandsmiðum skuli landað á Íslandi. Þar dugar reyndar ekki að þau fari um fiskmarkaði vegna þess að erlendur aðili getur komið inn á fiskmarkað að óbreyttum lögum og keypt upp allan fisk en má hins vegar ekki vinna hann hér á landi heldur yrði að flytja hann óunninn úr landi. Þetta eru spurningarnar sem við verðum að svara og hv. þm. hafði viturleg orð um það að fara skyldi að gát. Því miður er tíminn útrunninn. Við höfum ekki tíma til þess að bíða eftir því að hv. þm. eða stjórnarmeirihlutinn geri þetta upp við sig. Þetta er mál sem verður að ráða til lykta.