Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:18:57 (3145)

1996-02-19 17:18:57# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:18]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka á síðari spurningu hv. þm. Það er laukrétt hjá honum að 49% eignarhlutur í eignarhaldsfélaginu sem var í mínu dæmi og er alveg sambærilegt við það dæmi er menn reiknuðu fyrst út 49% óbeina eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjunum. 51% geta ráðið því þannig að það þarf ekki að vera að þessi 49% fari áfram upp í gegnum félögin. Á því byggðist sá reikningur. Það sem ég hef verið að draga fram varðandi 49% hlutinn er að hann hann er í reynd og í öllum venjulegum viðskiptum ráðandi. Það þekkjast eiginlega engin dæmi þess að 51% sameinist á þann hátt að 49% fari ekki með eignarhlut. Í sjálfu sér er dæmið alveg rétt reiknað en byggt á þeirri forsendu, eins og hv. þm. bendir réttilega á, að þessi minni hluti verður að fá að njóta sín í framhaldi málsins. Það má segja að einmitt þetta dæmi sýni raunverulega hversu umræðan um þessa óbeinu eignaraðild er vonlítil.

Hann spurði einnig hvað þingmenn Þjóðvaka hugsi sér varðandi óbeina eignaraðild. Við erum ekki með í okkar frv. tillögur um takmarkanir á því, einfaldlega vegna þess og það kemur mjög skýrt fram í grg. að þetta er í reynd óframkvæmanlegt, bæði eftirlitið og svo þessi þáttur sem ég hef tekið á varðandi frv. ríkisstjórnarinnar. Að vísu vekjum við athygli á því að til greina geti komið að samanlögð bein og óbein eignaraðild í einstökum fyrirtækjum fari ekki yfir tiltekin mörk miðað við áramót. Við vekjum athygli á því í frv. en það er ekki gerð tillaga um það hér. Við lítum svo á að raunverulegt vald við þær aðstæður sem við erum að tala um í sjávarútvegsfyrirtækjunum felist í því ef erlendir aðilar koma að því með beinum hætti. Þar sé sú ákvörðun sem er tekin að reyna að beita áhrifum sínum varðandi þá þætti sem við erum hér að tala um. Þar skiptir óbein eignaraðild í sjálfu sér ekki máli. Þess vegna er í okkar frv. ekki lagt upp með takmarkanir á óbeinni eignaraðild. Hins vegar er vakin athygli á því að það er hægt að leggja það saman en þá lenda menn vitaskuld í sömu vandræðunum þegar menn koma í annan, þriðja og fjórða lið. Ég veit að hv. þm. er alveg ljós sú aðferðafræði.