Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:24:45 (3148)

1996-02-19 17:24:45# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:24]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Umræður um erlenda eignaraðild í íslenskum atvinnurekstri hafa staðið yfir með hléum í nokkra daga. Það er ekki óeðlilegt þar sem hér er um mjög mikilvægt mál er að ræða sem þarf mikillar umræðu við. Málið er sérlega flókið, virtustu þingmenn á hinu háa Alþingi hafa mjög mismunandi skoðanir á því og geta fundið út endalaus dæmi sem virðast geta gengið í sömu átt og í mörgum tilfellum jafnvel þótt menn fari ólíkar leiðir.

Umræðan hófst að mínu viti með ýmsum útúrsnúningum stjórnarandstöðunnar varðandi það hvernig þetta mál hefði verið lagt fram af hálfu fjögurra stjórnarþingmanna Sjálfstfl. sem lögðu fram frv. um að heimila erlendum aðilum 49% eignaraðild í íslenskum sjávarútvegi. Þeirri umræðu er lokið og ég ætla ekki að orðlengja frekar tæknilega útfærslu á málinu. Aftur á móti var hér góð og gagnmerk umræða á fimmtudaginn um þetta mál. Þar lýsti hv. þm. Hjörleifur Guttormsson því yfir að mál okkar fjórmenninganna um 49% eignaraðild útlendinga í sjávarútvegi væri ekki nógu vel rökstutt og að hans mati mjög brothætt. Hv. þm. er ekki þekktur að því að vera með lítt rökstutt mál hér á þinginu. Ég tek því orð hans alvarlega og vil ítreka þau sjónarmið sem við höfum lagt til grundvallar okkar málatilbúnaði. Okkar rökstuðningur hefur fyrst og fremst beinst að því að það sé mun betra fyrir íslenskan sjávarútveg að fjárfesting sem að honum beinist sé inn í fyrirtækin sjálf, sjávarútvegsfyrirtækin sjálf, heldur en þau komi með einhverjum öðrum hætti óbeint í gegnum jafnvel þriðja eða fjórða lið. Við teljum að það geti haft mun heppilegri áhrif inni í fyrirtækinu sjálfu varðandi t.d. sölumöguleika og markaðssetningu þar sem þeir aðilar sem þar kæmu inn hefðu beinan hag af því að viðkomandi fyrirtæki næði árangri og sæju þann árangur beinlínis í fyrirtækinu. Við getum líka séð að með þeim árangri væri hægt, eins og við höfum bent á, að auka og bæta kjör fiskvinnslufólks sem að okkar mati hafa ekki verið nægilega góð og eru, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, verulega á eftir því sem gerist í nágrannalöndum okkar. Við höfum einnig bent á það sem margoft hefur komið fram í þessari umræðu að 51% eignaraðild Íslendinga er í sjálfu sér meirihlutaaðild og enginn getur efast um það. Ég tek undir þau orð hv. þm. Ágústs Einarssonar að yfir það ná íslensk lög að afla og aflaheimildum verði ekki ráðstafað annað en til Íslendinga þannig að við eigum ekki að þurfa að óttast að kvóti eða veiðiheimildir verði fluttar til erlendra aðila þar sem það er óheimilt samkvæmt lögum. Ég tel eigi að síður og minntist á það í framsögu minni að það sé nauðsynlegt og eðlilegt í ljósi þessarar umræðu að festa í stjórnarskránni að auðlindir sjávar í efnahagslögsögu Íslendinga séu sameign þjóðarinnar.

Varðandi stjfrv. það sem hér liggur fyrir hefur verið bent á mörg dæmi um það hvernig útlendingar geti í raun eignast óbein yfirráð og það full yfirráð yfir íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég vil bæta hér við einu dæmi sem ég tel raunhæft þótt öll slík dæmi séu kannski óraunveruleg. Þau gætu eigi að síður komið upp.

[17:30]

Samkvæmt 1. gr. lagafrv. ríkisstjórnarinnar, lið b., undirlið i., er erlendum aðila heimilt að eignast 49,9% í fiskmarkaði. Þeir gætu jafnvel í gegnum eignarhaldsfélag eignast 100% í fiskmarkaði. Þessi fiskmarkaður gæti svo keypt upp fyrirtæki eins og Íslensk matvæli hf. sem gætu síðan eignast 49% í Íslenskum matvælum sem gætu keypt t.d. Granda 100%. Þetta þýðir það að útlendi aðilinn ætti 100% í fiskmarkaði meðan hann ætti ekkert opinberlega í Granda. Áhugi þessa útlenda aðila hlyti að beinast að því að fiskmarkaðurinn gengi best meðan hagur hans væri beinlínis ekki í því að fyrirtæki í fiskvinnslu og útgerð gæti gert annað en að standa undir eigin rekstri. Ég held eins og mörg önnur dæmi hafa sýnt að óbein eignaraðild geti þýtt að fjármunir muni geta runnið úr sjávarútveginum beinlínis til annarra fyrirtækja sem er að mínu viti óhagkvæmt og gæti að mörgu leyti dregið úr sóknarmætti sjávarútvegsfyrirtækja. Það flækir líka allt ákvörðunarferli í sjávarútveginum ef útlendir aðilar næðu samningum við einhverja Íslendinga sem ættu lítinn hlut í útgerðarfyrirtæki. Þeir gætu samið um það að færa til fjármuni og öll ákvarðanataka, sem yrði til framtíðar fyrir viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki, þyrfti að ganga í gegnum tvo, þrjá og jafnvel fjóra liði sem yrði þunglamalegri í þessu sjávarútvegsfyrirtæki langt umfram það sem nú er. Bein eignaraðild mundi aftur á móti ekki gera það því að hún mundi þá eiga sér stað innan fyrirtækisins þar sem erlendi aðilinn væri væntanlega einn af stjórnarmönnum.

Aftur á móti get ég tekið undir að það þarf að fara varlega í öllum þessum atriðum. Þess vegna tel ég ef erlent fyrirtæki í sömu grein, t.d. í sjávarútvegi, vill fjárfesta með þessum hætti, hvort sem er beint eða óbeint, væri hægt að hafa ákvæði í lögum um það að ef slík staða kæmi upp þyrfti sérstakt leyfi viðskrh. til að slík tenging yrði leyfð. Ég held að það væri fyrst og fremst spurning um þá varúðarreglu að hringar, sem eru í sjávarútvegi annars staðar, gætu ekki náð yfirráðum yfir stórum og öflugum sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi.

Varðandi það atriði að óbein fjárfesting gæti torveldað alla ákvarðanatöku í sjávarútvegsfyrirtæki vegna þess að það þarf að fara í gegnum mörg fyrirtæki bendi ég á að í dag erum við að tala um að breyta Pósti og síma í hlutafélag vegna þess að þar eru ákvarðanir taldar vera mjög erfiðar og framtíðarskipulagning mjög þung vegna þess að öll áætlun þeirra byggist á lögum, við skulum segja fjárlögum frá Alþingi. Það er sem sagt Alþingi, ráðherra, Póstur og sími en með hlutafélagaforminu verður það ráðherra og stjórn Pósts og síma sem verður skipuð af ráðherra. Með þessari óbeinu eignaraðild tel ég að ferli ákvarðanatöku í sjávarútvegsfyrirtækjum yrði mun flóknara en með beinni eignaraðild.

Herra forseti. Ég vil gjarnan svara í örstuttu máli öðrum atriðum sem hafa komið fram. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson talaði um hvort að við gætum stutt stjfrv. Það hefur þegar komið fram að við teljum að stjfrv. gangi þó lengra en núgildandi lög og forsrh. hefur lýst yfir að stjfrv. njóti stuðnings og ég hef lýst því yfir að ég styðji það. Ég hef einnig sagt að sú umræða sem þarf að fara um öll þessi frv. hlýtur að taka verulegan tíma og þar sem stjfrv. nýtur stuðnings hlýtur það að verða mun fljótara í gegnum nefnd en okkar frv. þannig að ég geri ráð fyrir því að í umræðunni verði einhverjar breytingar væntanlegar á stjfrv., a.m.k. vona ég það en ef svo ekki verður þá mun umræðan halda áfram á sama vettvangi síðar.