Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:42:31 (3162)

1996-02-19 18:42:31# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:42]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi orkuna situr ekki á hv. þm. að núa okkur alþýðubandalagsmönnum því um nasir að við höfum ekki staðið vaktina í því efni. Við höfum flutt frumvörp í 11 ár á hverju einasta þingi. (Gripið fram í.) Það gerðist ekki mikið í síðustu ríkisstjórn í þessu máli. Við höfum flutt á hverju einasta þingi frv. um eignarrétt þjóðarinnar á orkulindunum og það hefur tekist af tiltölulega mjög litlum hópi þingmanna með mjög sterka stöðu í Framsfl. og Sjálfstfl. að stoppa það að eignarhald þjóðarinnar á orkulindunum verði staðfest. Það er stóralvarlegur hlutur þar sem þeim þingmönnum hefur tekist að spilla fyrir í þessum efnum þó að því sé nú lýst yfir af þessari ríkisstjórn eins og reyndar síðustu líka að það væri alveg að koma frv. en það er ekki komið enn þá. Hvenær kemur það? Ég veit það ekki. (Gripið fram í: Frv. kom fram í dag.) Frv. okkar eru löngu komin fram, þau komu fram í haust, þau komu fram í október eins og er venja, við höfum flutt þau í október sl. 11 ár, en það hefur ekki vakið mikla lukku sums staðar.

Varðandi sjávarútvegsauðlindina. Bankastjóri var einu sinni í Seðlabankanum og þegar hann var spurður að því hvaðan peningarnir væru sem seðlabankahúsið er byggt fyrir þá sagði hann þetta: Verður til í bankanum sjálfum. Þá sagði ég að mér þætti gaman að vita hvernig þessi sjálfsgetnaður peninganna, sem bankastjórinn væri að lýsa, gengi fyrir sig, hvernig þau kvikindi æxluðust. En auðvitað mundi skattur eða veiðileyfagjald einhvers staðar koma niður. Hann verður ekki til þess að allt verði óbreytt. Auðvitað eru hlutirnir ekki þannig. Auðvitað mundi það breyta skiptunum í þjóðfélaginu gagnvart veiðum og vinnslu og gagnvart sjávarútvegi og eyðslunni að öðru leyti í þjóðfélaginu þannig að þessir hlutir eru ekki svona einfaldir. Tími minn er því miður búinn og ég vil segja að lokum: Ég er tilbúinn að ræða þetta mál, ég segi það alveg eins og er, en ég get ekki fest trú á svona fyrirkomulag. Það gengur ekki.