Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:44:58 (3163)

1996-02-19 18:44:58# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:44]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef fylgst með þessum umræðum eins og ég hef getað og fundist umræðan fara töluvert á ská við efnið en það er mikil tilhneiging í þingsölunum, hvaða mál sem koma upp, að koma alltaf að þessari veiðileyfagjaldshugmynd. Að vísu var hún ekki rædd þegar frv. um prestaköll kom, en ég held við flestöll önnur tilefni. (SvG: Hvað áttu við?) Ég lít þannig á að þetta frv. ríkisstjórnarinnar sé tiltölulega skýrt. Hugsunin þar á bak við er sú að takmarka á einu sviði aðild útlendinga að fiskvinnslu og útgerð. Að öðru leyti er verið að opna þetta og hafa þetta alveg frjálst samanber þá samninga sem við höfum gert.

Menn hafa eytt hér töluverðum tíma í að sýna færni sína í prósentureikningi en ég lít þannig á að það skipti ekki höfuðmáli hvaða prósentu menn fá út úr óbeinni aðild. Ég efa ekki að hv. þm. Ágúst Einarsson hafi reiknað rétt þegar hann komst upp í 62%. Það er að vísu hærri tala en við töldum að frv. fæli í sér þegar það var kynnt en ég fæ ekki séð þó þessar tölur hans séu réttar að það breyti miklu, alla vega ekki mínu viðhorfi, vegna þess að ég er honum sammála um að óbeina aðildin skiptir ekki höfuðmáli. Hún mætti mín vegna vera lægri en ég held að við eigum að takmarka þetta. Ég er þeirrar skoðunar að þó að það sé kannski tæknilega erfitt að fylgja því eftir --- ég tek undir að það getur verið erfitt að fylgja því eftir --- þá er það ekki óyfirstíganlegt. Það vefst ekki fyrir þeim mönnum sem ætla að fylgja því frv. sem komið er frá sjútvrh. um eftirlit með auðlindinni. Ef þeir treysta sér til að fylgja því frv. og þeim reglum sem þar eru settar upp þá ætti þeim ekki að verða skotaskuld að fylgjast með þessu svona öðru hvoru enda ekki meginmál hvort við kannski förum eitthvað aðeins yfir strikið tímabundið. Ég lít sem sagt þannig á að frv. ríkisstjórnarinnar sé raunsæisfrv. Það er verið að aðlaga þetta aðstæðum.

Við höfum vitað það um margra ára skeið að sumir fjárfestar hér á Íslandi eru með dálítilli útlendri aðild, ekki mikilli. Þeir hafa verið að fjárfesta og það hefur komið sjávarútveginum vel. En við höfum látið það viðgangast og enginn hefur haft af því stórar áhyggjur. Þetta frv. er til að tryggja það að þær fjárfestingar séu núna fullkomlega löglegar og það er vel. Ég sagði í fyrri ræðu minni, herra forseti, að í mínum huga mætti skipta sjávarútveginum í tvennt: Annars vegar í útgerð sem á aflaheimildir og hefur aðgang að auðlindinni og hins vegar í fiskvinnslu sem hefur engan aðgang að auðlindinni og engan rétt þar á. Í mínum huga er fiskvinnslan ekki þátttakandi í útgerð. Hún er að keppa á frjálsum markaði í frjálsri verðmyndun og hún er miklu nær því að vera undir almennum iðnaði að mínu viti. Ég gæti alveg fallist á það eins og ég sagði þá, herra forseti, að þar væri engin takmörkun á neinni fjárfestingu. Ég veit hins vegar að þessi tvö frv. sem fylgja með, bæði frá Þjóðvaka og frá flokksbræðrum mínum, ganga alveg öfugt við stefnu stjórnarinnar. Stefna stjórnarinnar er skýr. Hér er frv. um enga beina aðild að útgerðinni en þeir vilja beina aðild og ég er mótfallin þeim frv. báðum. Ég tel að þarna sé víglína sem við getum og eigum að verja.

Við höfum farið út í það eins og aðrar þjóðir að eiga mikil opin viðskipti og við erum hluti af Evrópu og Vesturheimi. Við erum með allt opið og það stefnir að því að fjármagnsmarkaðurinn verði frjáls. Hann er að verða það bráðum og það er vel. En þetta er víglína sem við getum varið og eigum að verja. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, herra forseti, lít ég þannig á að þetta sé eina auðlindin og við höfum ástæður til þess að verja hana vegna ýmissa hluta.

Í fyrsta lagi. Ég lít þannig á og tel mig geta rökstutt það að íslensk atvinnufyrirtæki eru mjög veik, alveg sama við hvað við berum saman. Það er miklu minna kapítal í íslenskum fyrirtækjum en hjá samkeppnisaðilum þeirra erlendis. Sökin er fyrst og fremst okkar Íslendinga vegna þess að það hefur gerst æ ofan í æ í Íslandssögunni á síðustu áratugum að menn hafa gleymt því boðorði Rómverjans að hinn góði hirðir rýir sauði sína en flær þá ekki. Hörmungarsaga íslenskra efnahagsmála er að í hvert sinn sem við höfum farið út af í þeim, hefur það fyrst og fremst komið niður á útflutningsframleiðslunni. Það hefur komið niður á útgerðinni og skilið hana eftir í sárum. Það hefur virkað á nýgræðinginn í iðnaðinum eins og frostnóttin á vorin virkar á gróðurinn. Það hefur drepið hann æ ofan í æ. Þetta eru slysasögur íslenskra efnahagsmála. Þess vegna eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki of veik. Þau eru of veik og það er ástæða til þess fyrir Íslendinga í framtíðinni að tryggja að útgerðin sé í þeirra höndum.

Menn hafa spurt mjög mikið í þessum umræðum: Hvað er Íslendingur og hvað er ekki Íslendingur. Ég lít þannig á sögu tuttugustu aldar, ég lít þannig á söguna okkar Íslendinga að það skipti höfuðmáli í sjálfstæðisbaráttunni að atvinnufyrirtækin og útgerðin komust í eigu Íslendinga. Það skipti höfuðmáli. Menn spyrja þá: Hver var munur á dönskum selstöðukaupmanni og Dananum Thor Jensen? Hann var danskur. Við vitum það. Hver var munurinn á þeim? Ég lít þannig á að það hafi verið höfuðmunur á þeim vegna þess að Thor Jensen leit á Ísland sem endastöð hagnaðar, svona ,,profitcenter``. Hann var Íslendingur í húð og hár. Hann leit á það sem rétt að vinna og starfa á Íslandi. Þess vegna varð hann Íslendingur en ekki danskur selstöðukaupmaður. Ég álít að barátta Íslendinga fyrir því að eiga sína útgerð, byggja upp sína fiskvinnslu og ná tökum á markaðnum hafi getað ráðið úrslitum um það að þessi þjóð er sjálfstæð en ekki nýlenda. Ég hef alla tíð trúað því og talið mig hafa fyrir því margar sannanir. Ég hef líka trú á því að þó að fallegar og góðar hafi verið ræðurnar á Alþingi 17. júní 1944 við lýðveldistökuna, þá hafi það ekki verið minna um vert að það ár héldu Íslendingar til Bandaríkjanna til að treysta þar íslenska markaðssetningu á íslenskum vörum. Það hafði gríðarleg áhrif og hefur haft gríðarleg áhrif á að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar. Án þess væru á því áhöld. Ef við lítum á erlenda aðila í sjávarútvegi og tökum fyrst og fremst þessa evrópsku, þá eru fjárlög þeirra og umsetning margföld og eigið fjármagn miðað við það sem okkur getur nokkurn tímann dreymt um að verði til á Íslandi, ég tala nú ekki um risa eins og Unilever eða Nestlé. Við höfum ekkert við þá að gera. Við erum bara mjög litlir og fátækir og smáir og eigum ekki að vera með þennan rembing heldur viðurkenna það. Við þurfum að vera í súrefniskassa eins og fyrirburður í samskiptum við erlent kapítal á þessu sviði. Og við skulum ekkert vera feimnir við að viðurkenna það. Það er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta er bara staðan og það er raunsætt mat okkar á stöðunni hverju sinni sem skiptir máli. Þess vegna er ég sannfærður um að ef við ætlum að fara að ganga núna fram með því að heimila þetta þá séu menn að fara offari. Enda hefur það komið fram í ræðum mjög margra að það er engin sérstök þörf fyrir það.

Ef við lítum á hvar íslenskt efnahagslíf blómstrar og hvar við náum árangri þá sjáum við að það er í öflun sjávarfangsins, útgerðinni. Þar höfum við hærra framleiðnistig en nokkur önnur þjóð. Þar höfum við náð meiri árangri en nokkur önnur þjóð. Við eigum líka flota sem er betri en nokkur önnur þjóð ræður yfir. Og þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í útgerðinni eru ekki önnur en fyrst og fremst offjárfesting. Við þyrftum heldur að minnka flotann og afköst hans en að auka hann þannig að þörfin fyrir að fá nýtt blóð, nýtt fjármagn er ekki til staðar í útgerðarfyrirtækjum. En hún er til staðar á öllum sviðum öðrum. Hún er til staðar í fiskvinnslunni.

Þó við höfum vissulega náð mjög góðum árangri á sumum sviðum þá höfum við ekki náð honum á nærri því öllum sviðum. Og ég er sannfærður um að með því að fá aukið fjármagn þar inn, yrði það efnahagslífinu mjög til góða. Ég er því reiðubúinn að ræða það í nefnd og ræða það við félaga mína að reyna að ná samkomulagi um þetta. Það er ekki rétt sem hefur komið hér fram að þessi umræða um skiptinguna sé löngu dauð. Þetta er umræða sem atvinnurekendur í sjávarútvegi eru reiðubúnir að íhuga og velta fyrir sér. Ég hef orðið var við það undanfarna daga.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns hefur það vakið athygli mína að það er ekki hægt að ræða þetta mál öðru vísi en hið heitt elskaða umræðuefni auðlindaskattur komi þar inn. Þar koma menn stanslaust með þennan sama áróður, sömu síbylju um að hann sé einhver lausn á forræði okkar yfir auðlindinni.

Í mjög vondri tillögu sem var flutt á haustdögum af Þjóðvaka er mjög góð greinargerð um auðlindaskatt. Þar er farið yfir þetta og það tíundað betur og skýrar en flestir aðrir hafa gert. Þar er m.a. bent á tekjuskattinn sem eina leið í þessu máli. Tekjuskatturinn sjálfur er hin eðlilega og sjálfsagða leið ef hagnaðarhlutdeild er einhvers staðar orðin óeðlileg. Þetta dæmi snýst allt um það hvort okkur takist að hafa stjórn á veiðunum. Ég er ekki að deila við hagfræðinga sem þar hafa sett upp hinar mestu kenningar. Við erum að ræða um það hvernig við ætlum að tryggja að hér sé jafnstöðuafli og hér sé sem næst því að vera hámarkshagnaður. Undir þeim kringumstæðum að við gætum náð því, hefur enginn mælt því í mót að við skyldum borga skatta. Skattar eru eðlilegur hlutur í nútímaþjóðfélagi. En þessi umræða um auðlindaskatt hefur löngu farið upp úr þeim farvegi. Nú koma menn hér hver á fætur öðrum. Rétt fyrir jólin kom Alþfl. með tillögu beint um að leggja skuli á svo og svo mörg hundruð milljónir, punktur. Það er verið að tala um beina skattheimtu án nokkurs samhengis við nokkuð annað. Skattur í þessum skilningi á útgerðina er og getur aldrei orðið annað en skattur á sjómenn, skattur á fiskvinnslufólk, skattur á landsbyggðina, skattur á sjávarpláss og útgerðarstaði þar sem lífið byggist á útgerð. Með þessari hugsun er mjög harkalega vegið að landsbyggðinni sem stendur nú hallari fæti en nokkurn tímann áður. Menn hafa ekki getað sett samasemmerki við það að við værum neitt nær því, hvort sem það eru 300 millj., 500 millj. eða 800 millj. kr. sem menn ætla til að stoppa með í eitthvert ríkisgat, að sýna fram á það að við séum þá nær því að hafa forræði yfir þessari auðlind. Af og frá, af og frá. Það er einmitt hitt að hin veika staða sjávarútvegsins er hin veika hlið á íslenskum efnahagsmálum af því að hún er aðalútflutningsgrein landsins.

[19:00]

Við þurfum að forðast það umfram allt á næstu mánuðum, missirum og árum að missa raungengið aftur upp þannig að rekstrarstaða útflutningsgreinanna versni. En beinn skattur hér og nú á útgerðina er ekkert annað en ávísun á það að veikja útflutninginn og veikja samkeppnisstöðu sjávarútvegsins og veikja gjaldmiðilinn til lengri tíma. Ég ætla ekki að fara út í þær kenningar þótt það sé kannski rétt, herra forseti, sem sumir hafa haldið fram og íslenskur iðnaður hefur tekið upp á sína arma. Það er þessi draumaþríliða um að lækka gengið, setja á auðlindaskatt. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á að það gangi ekki upp. Best er þar röksemdafærsla Ragnars Árnasonar prófessors sem sýnir að við stæðum fljótt aftur í sömu sporum þar sem raungengið teygist alltaf upp á ný. Það væri bara eitt efnahagsslysið í viðbót. Í mínum huga er öllu þessu tali um auðlindaskatt fyrst og fremst ætlað að hljóma vel af því að sumir trúa því að það sé líklegt til vinsælda. Aðrir tala eins og við séum hér með einhverja námupeninga og ekki þurfi annað en að sækja þá. Það eru engin rök í málinu þótt framsalsréttur kvótans orsaki peningastreymi milli aðila í sjávarútvegi vegna þess að þar er bara streymi milli aðila og það eru bara örfá kíló sem eru þar á markaði. Verðið fer eftir aðstæðum. Hér hefur verið bullandi sölumarkaður á fiski, alveg síðan við fórum að takmarka þorskveiðar. Það er eðlilegt að verðið fari upp úr öllu valdi. En þegar menn taka einstakt verð á þorski í leigu, 90--95 kr., margfalda það svo með 160 þúsund tonnum og fá þannig út einhverja auðlind, þá eru menn bara að bulla. Það á ekkert skylt við afkomu sjávarútvegsins. (Gripið fram í: Hvað er stór partur á handfæri?) Það er erfitt að segja til um það vegna þess að það er bæði verið að selja ákveðin kíló og ákveðin tonn. Svo eiga sér líka stað skipti á fisktegundum þar sem menn eru að hagræða. Þá nota þeir verðið á markaðnum, þ.e. hlutföllin milli tegunda, í skiptin. Í þriðja lagi eru menn líka að geyma aflaheimildir hver fyrir annan. Það er því erfitt að vita hvað það er mikið sem verið er að selja, en það er tiltölulega mjög lítið. Og í þessari umræðu allri gleyma menn því að margar tegundir eru alls ekki seldar. Ég veit t.d. til þess að þúsundir tonna af ufsa voru gefin eða nýttust ekki í upphafi síðasta fiskveiðiárs. Og hvað vilja þá snillingarnir segja að ufsinn kosti? Hann kostar ekki neitt.

Ég hef áður sagt að ég lít þannig á að það fari ekki á milli mála, bæði í landhelgislögunum og annars staðar, að forræðið yfir landhelginni og auðlindinni hér er Íslendinga. Það þarf enginn að deila um það og ég tel að öllum hafi verið það ljóst löngu áður en núgildandi lög um fiskveiðar voru sett. Þannig að þessi 1. gr. sem mönnum þykir svo gaman að vitna í, þessi sykurtoppur á frv. og lögunum, um að fiskarnir í sjónum séu sameign þjóðarinnar o.s.frv., hefur ekkert praktískt gildi. Það lá alltaf ljóst fyrir að hann heyrir undir íslenska lögsögu. Ég trúi því ekki öðru en að öllum sé ljóst að það getur verið lífsspursmál fyrir efnalegt sjálfstæði Íslands að veiðiréttindin verði örugglega áfram í höndum Íslendinga.