Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:11:40 (3168)

1996-02-19 19:11:40# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:11]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö til þrjú atriði í máli hv. þm. sem ég vil gera að umtalsefni og spyrja hann um. Það er í fyrsta lagi auðlindagjaldsumræðan. Kannski ber að fagna því að hann tók undir greinargerð okkar þjóðvakamanna, en hún getur ekki orðið aðalatriði í þessari umræðu. En hann lýsti því yfir að hann styddi frv. ríkisstjórnarinnar, sem hér er verið að fjalla um. Hann er á móti frv. okkar þjóðvakaþingmanna og frv. sjálfstæðisþingmannanna fjögurra. Klofningurinn innan Sjálfstfl. í þessu máli er vissulega athyglisverður. En hv. þm. ræddi líka um aðskilnað veiða og vinnslu sem ég tel dálítið erfiðan í framkvæmd. Ég vil spyrja hv. þm. tveggja spurninga: Styddi hann frv. okkar þjóðvakamanna ef þar væri talað um 20% beina fjárfestingu, ekki í sjávarútvegsfyrirtækjum heldur í vinnslufyrirtækjum í sjávarútvegi? Eða styddi hann frv. hinna fjögurra sjálfstæðisþingmanna ef því væri breytt þannig að þar væri gert ráð fyrir 49% beinni fjárfestingu í vinnslufyrirtækjum sjávarútvegsfyrirtækja?

Þar sem þetta er gömul umræða um aðskilnað veiða og vinnslu vil ég spyrja hann betur út í það hvernig hann hyggst framkvæma þann þátt. Með hvaða hætti geta fyrirtæki í reynd skipt sér þannig að útgerð sé öðrum megin og vinnsla hinum megin án þess að þetta verði svo samfléttað að eignaraðild í vinnslunni þýddi í reynd eignaraðild að útgerðinni? Þessa umræðu hafa menn gengið í gegnum áður. Hvaða nýjar tillögur hefur hann um aðskilnað ef menn færu að fikra sig yfir á þessa braut?