Fjarnám

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 13:41:47 (3211)

1996-02-21 13:41:47# 120. lþ. 94.2 fundur 291. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[13:41]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það hafa orðið miklar breytingar í samfélaginu á allra síðustu árum, ekki síst á sviði menntamála. Í fyrsta lagi er miklu almennari þátttaka fólks í námi núna heldur en var fyrir aðeins örfáum árum síðan. Enn fremur er stóraukið framboð af endurmenntun af hvaða tagi sem er mjög víða í okkar samfélagi. Á sama tíma hefur orðið mikil bylting í fjarskiptum sem gerir það að verkum að núna er miklu auðveldara fyrir fólk að fá aðgang að upplýsingum heldur en var fyrir örfáum árum síðan.

Tæknilegir möguleikar til fjarnáms af hvaða tagi sem er eru þess vegna miklu meiri núna heldur en þeir voru fyrir örfáum árum síðan, hvað þá ef litið er yfir lengra tímabil. Þetta segir okkur það að skólakerfið þarf að fylgja þessu eftir mun meira heldur en gert hefur verið og hefur alla möguleika til þess að fylgja þessu eftir. Þetta er mjög mikilvægt fyrir það fólk sem býr í hinum dreifðu byggðum og vill og þarf einhverra hluta vegna að sækja sér aukna menntun til viðbótar þeirri sem það hafði eftir að hafa farið hefðbundnar leiðir í gegnum skólakerfi okkar.

Kennaraháskóli Íslands hefur boðið upp á slíkt fjarnám í einhverjum mæli m.a. vegna meistaraprófs að því mér hefur skilist og enn fremur hefur komið í ljós mjög mikil þörf á fjarnámi af þessu tagi í því að Kennaraháskólinn bauð upp á fyrir nokkrum árum og hefur boðið upp á undanfarin ár möguleika fyrir fólk sem eru svokallaðir leiðbeinendur í grunnskólum til að sækja sér réttindanám á vegum Kennaraháskólans. Engu að síður er það svo að því miður virðist mér að námsframboð í gegnum fjarnám sé um þessar mundir ákaflega fátæklegt og undan því er kvartað víða úti um landsbyggðina. Fjölskyldufólk, sem vill sækja sér aukna menntun á einhverju sviði, stendur frammi fyrir því að vilji það sækja sér þessa menntun þá þurfi það að flytjast búferlum, annars verði það af þessari menntun. Þarna gæti fjarnám skipt mjög miklu máli væri það til staðar á fleiri sviðum en það er í dag.

Augljóst sýnist líka að endurmenntun af hverju tagi hljóti að fara meira núna inn á svið fjarnámsins eða fjarmenntunar heldur en það hefur gert fram að þessu. Endurmenntunarstarf í landinu hefur stóraukist eins og ég nefndi hér í upphafi ekki síst á sviði Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og það hefur verið mjög myndarlega að því máli staðið að öllu leyti. Þar sýnist hins vegar vera kjörið tækifæri á því að efna til fjarnáms á öllum sviðum, m.a. vegna þess að hérna er verið að stíla inn á nám fólks sem þegar er búið að festa sig í starfi og á alls ekki hægt um vik með að koma suður til Reykjavíkur og sækja sitt nám ef það býr utan höfuðborgarsvæðisins.

Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. menntmrh. tveggja spurninga um þessi mál:

1. Hvaða skólar á háskólastigi bjóða nú upp á fjarnám?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir eflingu fjarnáms í skólum á háskólastigi?