Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 11:46:26 (3409)

1996-02-29 11:46:26# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:46]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði þeirrar spurningar hvort við værum að halda dauðahaldi í Norðurlandasamstarfið sem eitthvað sem ekki ætti framtíð fyrir sér. Ég má til með að bregðast við þessu vegna þess að ég tel að aldrei hafi verið eins mikil nauðsyn á því að að efla norrænu samvinnuna og leggja mikla áherslu á hana og einmitt núna vegna þeirrar breytingar að tvö af Norðurlöndunum hafa gengið í Evrópusambandið. Ég nefni sérstaklega í því sambandi að Danir, sem hafa verið lengst Norðurlandaþjóðanna í Evrópusambandinu, leggja alveg sérstaka áherslu nú um stundir á norræna samstarfið og þeir hafa t.d. barist gegn því með okkur Íslendingum og öðrum að verða við kröfu Svía um niðurskurð. Þetta er mjög mikilvægt að komi fram í umræðunni. Hvað varðar þá staðreynd að á kvennaráðstefnunni í Kína var nánast ekkert norrænt samstarf tel ég að þar hafi hreinlega verið um mistök að ræða. Þar var líka unnið þvert á það sem utanríkisráðherrar Norðurlandanna og forsætisráðherrar höfðu gefið yfirlýsingar um. Þessi mál hafa verið tekin upp sérstaklega á norrænum vettvangi bæði innan embættismannakerfisins og einnig á þingum Norðurlandaráðs og það er fullur vilji til þess að menn gæti þess í framtíðinni að um fullt norrænt samstarf verði að ræða í alþjóðlegu samhengi.