VES-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:54:53 (3489)

1996-02-29 18:54:53# 120. lþ. 99.9 fundur 339. mál: #A VES-þingið 1995# skýrsl, ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:54]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir mjög greinargóða framsögu fyrir þessari skýrslu og ítarlega lýsingu hans á stöðu mála innan Vestur-Evrópusambandsins.

Það vekur óneitanlega athygli þegar horft er til Vestur-Evrópusambandsins að Norðurlöndin hafa öll náð saman um þá niðurstöðu að gerast ekki fullgildur aðili að því. Það er kannski ekki rétt að bera upp þá spurningu við hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvort það hafi verið rætt á vettvangi Norðurlandasamvinnunnar að þrátt fyrir alla umræðuna um að þróa Vestur-Evrópusambandið sem veigamikinn hlekk í nýju öryggiskerfi í álfunni, er það engu að síður afstaða Norðurlandaríkjanna allra að treysta sér ekki til að vera þar fullgildir aðilar.

Það er skiljanlegt kannski að nokkru leyti með Ísland og Noreg sem ekki eru aðilar að Evrópusambandinu og það er kannski skiljanlegt með Finnland og Svíþjóð sem hafa að forminu til haft afstöðu hlutleysis. En mig langar til að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson til fróðleiks: Hver eru rökin af hálfu Dana fyrir því að vera ekki einu sinni aukaaðili sem þó Ísland og Noregur eru, heldur eingöngu áheyrnaraðili? Birtist það einhvern veginn í málflutningi þingmanna Dana á þessum vettvangi hvers vegna þeir hafa kosið að standa svo langt frá Vestur-Evrópusambandinu að þeir standi í raun og veru fjær en Ísland og Noregur?