Alþjóðaþingmannasambandið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 19:13:09 (3493)

1996-02-29 19:13:09# 120. lþ. 99.10 fundur 340. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 1995# skýrsl, ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[19:13]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig með þennan lið í þingsköpunum, andsvar, að það er ekkert sjálfgefið að hann sé alltaf notaður til þess að andmæla því sem fram kemur hjá hv. þingmönnum, heldur er hann vettvangur fyrir styttri innskot.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. þm. Geir Haarde fyrir hans skýrslu. Ég vil einnig þakka honum fyrir það starf sem hann hefur unnið á þessum vettvangi. Það er ekki mjög algengt að íslenskir þingmenn í jafnvíðtæku alþjóðlegu starfi og hér um ræðir séu valdir til forustustarfa um árabil. Það hefur hins vegar orðið raunin varðandi hv. þm. Geir Haarde. Mér er kunnugt um það af samtölum sem ég hef átt við marga þingmenn sem ég hef hitt víða um veröldina og starfa á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins að þeir þekkja mjög vel til þeirrara starfa og tengja það við Ísland. Hróður Íslands hefur því verið aukinn sérstaklega á þessum vettvangi og víðar í krafti þeirra starfa sem hv. þm. Geir Haarde hefur unnið þar.

Það er kannski ekki almennt til siðs á Alþingi að menn fjalli um mál með þeim hætti sem ég geri nú, en mér finnst þau verk sem hv. þm. hefur unnið innan Alþjóðaþingmannasambandsins og sá trúnaður sem honum hefur verið veittur þar vera með þeim hætti að það beri að veita því sérstaka athygli á Alþingi og þakka fyrir það fyrir hönd þingsins.