Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:02:04 (3589)

1996-03-05 19:02:04# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:02]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ekki get ég fagnað framkomu þessa frv. Það er mörgum stjórnmálamönnum auðvelt að vera öllum viðhlæjandi öllum óskum og öllum hugmyndum. En það er ekki alltaf skynsamlegt. Það er oft hart að mínu mati en nauðsynlegt að þurfa að taka af skarið þegar um almenna hagsmuni er að ræða.

Öll almenn réttindi á Íslandi eru óháð kynvillu. Ég tel að þegar kemur að hugtakinu hjónavígsla, hvort sem orðið staðfesting er notað, staðfest samvist eða annað sem er illa skilgreint í mínu mati í því frv. sem hér um ræðir og segir nánast ekkert, þá kemur að sérstökum þáttum í samfélaginu þar sem að mínu mati verður að verja hag þeirra fjölmennari. Það verður að verja meiri hagsmuni fyrir minni.

Að mínu mati er engin spurning að samkynhneigt fólk eða kynvillt fólk, hvaða orð svo sem menn nota, er ekki síður hæfileikaríkt en annað fólk og geri ég í sjálfu sér engan mun þar á. En miðað við leikreglurnar sem við búum við, þá þurfum við að marka okkur ákveðnar línur þar sem horft er til allra átta og reynt er að koma í veg fyrir að daglegum árekstrum fjölgi í okkar samfélagi. En það tel ég gert með þeirri sérstöðu sem þetta frv. felur í sér með svokallaðri staðfestri samvist.

Allir eru háðir leikreglum án tillits til gáfna eða gengis enda mun löggjafinn seint geta tryggt hamingju með löggjöf. Það mun löggjafinn seint geta gert. Það hefur verið sagt í umræðunni að samkynhneigðir hafi verið ofsóttir á Íslandi og niðurlægðir. Ég held að það sé ekki rétt eins og það er sagt af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, ekkert frekar en margt annað fólk í okkar þjóðfélagi sem fer ekki hvunndagsleiðir daglega er ofsótt, bæði í ræðu og riti. (Gripið fram í: Það réttlætir það ekki.) Nei, það réttlætir það ekki en það réttlætir ekki að taka eigi fram fyrir hendurnar á almennum þáttum og skapa sérstöðu í málinu.

Það er mikilvægt að virða mannréttindi, sagði hv. þm. Kristín Halldórsdóttir. Það er ég fullkomlega sammála henni um. En þegar virða á mannréttindin þarf líka að gæta þess að virða almenna sjónarmiðið. Það er kannski talið hart að segja það, en það er mín sannfæring að kynvilla sé skekkja. Enginn er fullkominn og allir eru með einhverja skekkju á bakinu í sínu lífi. En hvar eru mörkin og hvar á að virða skekkjuna svo að farið sé út í aðra sálma sem kannski snúa frekar að heimspekilegum efnum?

Spurt var í umræðunni hvort kirkjan gæti staðið við þá yfirlýsingu sína sem getið er um í greinargerð. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Kirkjan gerir sér vitanlega grein fyrir því að prestar hennar eru ekki aðeins í þjónustu trúarlegs aðila, heldur einnig opinberir starfsmenn, sem hljóta að lúta lögum ríkisins og fyrirmælum. Hins vegar óskar kirkjan alls ekki eftir því og telur það mjög vafasamt að mælt verði fyrir því í lögum að heimild sé veitt til kirkjulegrar vígslu samkynhneigðra.``

Nú er ekki verið að tala um að ganga svo langt í þessu frv. en það er gengið í áttina. Hv. þarsíðasti ræðumaður, Kristín Halldórsdóttir, sagði líka að sjónarmið kirkjunnar væri gegnsýrt af kristilegum kærleika. Af hverju ætli hv. þm. sé að sletta þannig í grunn íslenskrar siðfræði sem byggist á trú kristinna manna? (ÖS: Og kærleika.) Kærleikurinn er teygjanlegt hugtak. Það veit hv. þm. Össur Skarphéðinsson kannski betur en margir aðrir. Leikreglurnar eru sóttar í þá trú sem við viðurkennum sem þjóðkirkja og þá vík ég aftur að þorra landsmanna, sóttar í hina helgu bók, Biblíuna. Það er óþarfi að leita eftir því í Gamla testamentinu. Það er hægt að fara í beinskeyttari tilvitnanir í Nýja testamentinu hvort sem menn eru þá að tala um Mattheusarguðspjall, Kórintubréf eða aðra þætti sem leggja áherslu á það hvað sé skekkja og hvað ekki í hinni almennu siðfræði sem við byggjum á.

Mig minnir að það hafi verið 1992 sem sérfræðingar í kynlífsspeki á Íslandi höfðu forgang um að stýra skoðanakönnun hérlendis varðandi fjölda þeirra sem teldu sig vera kynvilltir. Þetta var 1.500 manna úrtak, þar sem 7% töldu sig haldna kynvillu. Það að mínu mati er innan eðlilegra skekkjumarka sem er í hverjum og einum manni. Og af hverju ættum við þá að fara að setja sérstök lög um réttindi fjölda sem er innan eðlilegra skekkjumarka, ef hægt væri að nota það orð í raun og sann sem um er rætt?

Það hefur verið vikið að því í máli hv. þingmanna að þetta sé spurning um erfðir, spurning um réttindi. Þetta er líka spurning um tilfinningar. Það hlýtur ekki síst að vera spurning um tilfinningar þeirra sem eru samkynhneigðir ekkert síður en annarra þegna þjóðfélagsins. (ÖS: Þeir vilja þetta.) Menn vilja svo margt sem þeir geta ekki fengið. Það er nú lífsins gangur, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það kemur að því að löggjafinn þarf að setja almennar reglur sem tryggja þennan almenna rétt og stuðla að því að hamingjan gangi sem best fram hjá sem flestum en ekki á kostnað lítils hóps sem gæti að mínu mati raskað æði mörgu. Víst er þetta mál feikilega flókið, hvort sem kemur að skólagöngu eða öðrum þáttum í daglegu lífi. Það vita allir. Og það er ástæðulaust að tala um þetta mál öðruvísi en beint og opinskátt. Það gera allir aðilar málsins hvorum megin borðsins sem þeir sitja og það er eðlilegast. Það er enginn einn heilagur sannleikur í þessu. En það er þó niðurstaða sem er löggjafinn. Hann byggir á kristinni trú og kristinni siðfræði sem er túlkuð á þann veg sem kemur fram til að mynda í bréfi forsvarsmanna kirkjunnar. Alþingismenn hljóta að þurfa að taka tillit til þess þegar kemur að niðurstöðu. Þeir eiga ekki að vera jábræður allra, heldur verða þeir að finna veg sem þjónar hagsmunum flestra.

Það er spurning um marga þætti þegar kemur að erfðum og réttindum. Fólk sem er í sambúð, samkynhneigt eða ekki, hefur önnur réttindi en fólk sem er í vígðri sambúð. Það er þá óháð því hvort samkynhneigð er þar að baki eða ekki. Hvað um réttindi fólks sem býr saman ævilangt af öðrum ástæðum? Við skulum taka systkin sem hafa búið saman ævilangt. Við skulum taka móður og son, föður og dóttur, feðga eða mæðgin sem búa saman ævilangt af einhverjum ástæðum, (Gripið fram í: Það er erfðaréttur á milli þeirra, Árni.) hafa dagað uppi. Það er ekki sami erfðaréttur hjá þeim gagnvart öðrum systkinum nema með gerð erfðaskrár. En þarna er líka veikleiki í réttindastöðu sem ástæða væri til að mínu mati að kanna ekkert síður en mannréttindi sem varða samkynhneigða. Ég get ekki séð hvernig það á að vera sérmál til að taka út úr þeirri flækju sem er svo víða í okkar hlutum er lúta að almennum mannréttindum, þ.e. réttindum til peninga, erfða eða fjárfestinga á einhverju stigi. Það er nefnilega erfitt að mínu mati að rugla þessu máli saman við þær tilfinningar sem liggja að baki og þá kröfu sem hægt er að gera hverjum einstaklingi til handa um réttindi þar að lútandi. Það er annað mál.

Það hefur verið vikið að ættleiðingum samkynhneigðra. Það er skýr og skorinorð túlkun frv. að réttur samkynhneigðra foreldra til að ala upp sín börn hafi ávallt verið óskoraður og hefði löggjöf um staðfesta samvist engin áhrif þar á. Ég hef fjallað um þessa spurningu um rétt samkynhneigðra til ættleiðingar út frá þeim grunni sem í mér býr, þ.e. brjóstvitinu einu og beru. En ástæða er til að staldra við. Það er nefnilega nákvæmlega út frá þeim póstum sem ég held að menn ættu að fjalla um þessi mál meira en gert er. Menn eru svolítið að tala til annarra án þess að hafa fullkomna sannfæringu um að menn séu að gera rétt. Það er mín meining.

Eins og ég sagði áðan er oft svolítið erfitt að standa gegn pressunni um nýjan rétt. Nú er ég ekki að tala um fjölmiðlapressuna sem veður uppi með móðursýkisköstum út og suður í okkar þjóðfélagi heldur þrýstinginn frá hagsmunaaðilum sem vilja sérréttindi. Ég tel að ósk samkynhneigðra sem fjallað er um í þessum lögum og gengur ugglaust mjög skammt að þeirra mati, sé krafa um sérréttindi. Ef samkynhneigt fólk á að fá réttindi til staðfestrar samvistar, sambúðar, eins konar vígslu framhjá kirkjunni, af hverju ættum við þá ekki að leyfa fjölkvæni eða barnagiftingar sem tíðkast víða um heim o.s.frv.? Það kemur ekkert samkynhneigð við en það kemur við sérréttindum. Það kemur við lífsstíl sem er úr takt við þann grundvöll sem við byggjum okkar leikreglur á. Ég held að menn eigi að fara mjög hægt í þessum efnum.

[19:15]

Það eru skiptar skoðanir um það hvort gengið sé of skammt eða of langt. En það er mín bjargföst skoðun að jafnvel með þessu skrefi sé gengið of langt. Ég held að vandinn í það fámennum hópi sé að það sé á kostnað heildarinnar að smíða nýjan ramma fyrir þann hóp sem hér um ræðir þó svo að það fólk allt eigi gott skilið eins og allir aðrir.

Það er mikilvægt í framgangi þessa máls að hugsa það til enda með tilliti til allra leikreglna sem við búum við í okkar þjóðfélagi. Hér er um svo viðkvæman og oft stóran þátt í fjölmiðlaumræðu að ræða að mér finnst að það þurfi að stemma eins og hægt er stigu við því að mál flæði út um allt, að við töpum áttum og hleypum einhverju af stað sem við sjáum ekki fyrir hvar endar. Það er mikilvægt að viðhalda almennu reglunni þó svo að aldrei geti allir verið sáttir við hana. Hvort það sé sanngjarnt að nota orðið skekkja um samkynhneigða eða ekki, skal ég ekki leggja neinn stóradóm á. En engu að síður er það skekkja í reyndinni í okkar kerfi eins og það er nú og þess vegna eru menn ugglaust að tala um að breyta því. Það er viðurkennd skekkja. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ástæða til að hjálpa til á þeim vettvangi á annan hátt en með slíkri lagasetningu sem hér um ræðir. Það eru ugglaust rök fyrir því að slíkt sé tekið upp á faglegri, beinskeyttari og opinskárri hátt en gert hefur verið hingað til þannig að menn geti áttað sig á til fulls hvar kreppir að, hvort sem það er á sviði kirkju, mennta eða annarra þátta. Ég tel að hér sé um skammtímalausn að ræða á vandamáli varðandi mannréttindi sem vissulega eru til staðar í þjóðfélaginu. Mér finnst þetta eins og að pissa í skóinn sinn að reyna að leysa þetta mál á þennan hátt.

Mikil upplausn veður víða yfir. Sumir fagna því og leggja jafnvel kapp á að geta nærst á upplausn hvort sem það er í stóru eða smáu, hvort sem það er hjá einstaklingi eða stórveldi eins og Sovétríkjunum. En upplausn, agaleysi og oft virðingarleysi vaða yfir nútímaþjóðfélög. Ég held að tilhliðrun í þeim efnum sem hér um ræðir í frv. sé ekki af hinu góða. Ég held að hún skapi fleiri vandamál en hún leysir. Vissulega leysir hún ákveðinn vanda en hún skapar fleiri að mínu mati en hún leysir og vekur fleiri spurningar en hægt er að svara.