Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 10:35:54 (3674)

1996-03-07 10:35:54# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[10:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Frv. er flutt vegna þess að að því er stefnt að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna frá og með 1. ágúst nk. Í lögum nr. 66 frá 8. mars 1995, um grunnskóla, var ákveðið að sveitarfélögin tækju yfir rekstur grunnskólanna frá ríkinu og jafnframt að kennarar og skólastjórar grunnskóla yrðu starfsmenn sveitarfélaga í stað þess að vera ríkisstarfsmenn. Vegna þessa voru sett inn í 57. gr. grunnskólalaganna sérákvæði sem kváðu á um að Alþingi samþykkti fyrir 1. ágúst 1996:

a. breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggði öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla sem rétt höfðu átt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins aðild að sjóðnum,

b. lög um ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla sem tryggði þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda.

Einnig skyldi Alþingi hafa samþykkt breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þeirra auknu verkefna er sveitarfélög taka að sér samkvæmt lögum þessum, þ.e. grunnskólalögunum.

Varðandi síðasta þáttinn, kostnaðarþáttinn, vil ég geta þess að það liggja fyrir í drögum meginlínur samkomulags á milli sveitarfélaganna og ríkisins um þann þátt málsins þannig að í það stefnir að öllum þeim skilyrðum sem sett voru í gildistökuákvæði grunnskólalaganna verði fullnægt.

Frumforsenda flutnings grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga var að sættir tækjust með öllum aðilum um framkvæmd flutningsins og fyrirkomulag ráðningarréttinda kennara og skólastjóra hjá nýjum vinnuveitanda í framtíðinni. Til þess að undirbúa það mál skipaði ég nefnd 26. júní sl. til þess að gera tillögur að meðferð kjara- og réttindamála kennara og skólastjórnenda við grunnskóla við flutning hans frá ríki til sveitarfélaga. Í nefndinni sátu Guðmundur H. Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, sem jafnframt var formaður, Jón G. Kristjánsson, fulltrúi sveitarfélaganna, og Birgir Björn Sigurjónsson, fulltrúi kennarafélaganna. Þá starfaði Sigurður Helgason, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, með nefndinni sem fulltrúi menntamálaráðherra. Nefndin skilaði skýrslu um réttindamál grunnskólakennara við flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga 22. des. sl.

Í nefndarálitinu var lagt til að sett yrðu lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra grunnskóla sem reknir verða af sveitarfélögunum, sem yrðu fullkomlega hliðstæð lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því einu breyttu sem leiddi af nýjum rekstraraðilum. Lögin skyldu gilda jafnt um þá sem nú væru í starfi og þá sem síðar yrðu ráðnir. Þá lagði nefndin til að til viðbótar núverandi köflum laga nr. 38/1954 kæmu viðbótarkaflar sem leiddu af efnisákvæðum laga nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningum starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, og efnisákvæðum reglugerða um veikindaforföll og barnsburðarleyfi ríkisstarfsmanna, nr. 410 og 411 frá 1989. Einnig skyldi vera í lögunum kafli sem kvæði á um að ráðningar núverandi kennara og skólastjórnenda flyttust órofnar á milli aðila og héldu fullu gildi sínu. Allir kennarar og skólastjórnendur skyldu halda stöðum sínum eins og verið hefði hjá ríki. Biðlaunaréttur stofnaðist ekki við flutninginn, enda hefði löggjafinn að fullu tryggt óbreytt réttindi. Jafnframt áttu að vera ákvæði þess efnis að öll réttindi sem bundin voru starfsaldri eða þjónustualdri, svo sem með tilliti til veikindaréttar, barnsburðarleyfis eða annarra réttinda sem tengjast starfsaldri, héldu að fullu gildi sínu hjá nýjum vinnuveitanda.

Frumvarpið er byggt á því samkomulagi sem náðist milli þessara aðila og birt er í skýrslu nefndarinnar. Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38/1954, auk þess sem starfsmönnum er áfram tryggður sá réttur sem þeir nú njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989 og 411/1989.

Í bréfi verkefnisstjórnar um flutning grunnskólans til menntamálaráðherra, dags. 1. febrúar sl., sem birtist sem fylgiskjal I með frumvarpinu, kemur fram að verkefnisstjórnin sé sammála um efni frumvarpsins. Jafnframt kemur fram að verkefnisstjórnin hafi orðið ásátt um að undirbúningur lagasetningar, sem tryggi óskert lífeyrisréttindi kennara og skólastjórnenda við flutninginn, fari fram í tengslum við gerð tillagna að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá var verkefnisstjórnin einnig sammála um breytingu á lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 48/1986, hvað varðar ráðningu grunnskólakennara og skólastjórnenda í grunnskólum eingöngu. Varðandi samkomulag verkefnisstjórnarinnar um að efnisákvæði reglugerða um veikindaforföll og barnsburðarleyfi ríkisstarfsmanna, nr. 410 og 411 frá 1989, verði lögfest vísast til 37. gr. frumvarps þessa, sem og fylgiskjala III og IV með frumvarpinu, en þar eru þessar reglugerðir birtar.

Það kom fram í öllum undirbúningi að þessu máli á lokastigum að unnið væri að því á vegum ríkisstjórnarinnar að endurskoða lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, og að ríkisstjórnin hygðist leggja fram frv. til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna á vorþingi 1996. Ef það frumvarp nær fram að ganga er ríkisstjórnin reiðubúin til að breyta lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarps þessa um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla, ef ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða hvorum tveggja.

Herra forseti. Þetta eru meginatriði þess máls sem hér er um að ræða. Frv. er eins og fram hefur komið endurspeglun á lögum sem nú eru í gildi um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og niðurstaðan í þeim samningaviðræðum sem fóru fram á milli sveitarfélaganna með aðild ríkisvaldsins var að þannig skyldi frá málum gengið að þessi réttindi fylgdu kennurunum óskert frá ríkinu til sveitarfélaganna. Um það er engin spurning þegar menn lesa frv. að þannig er um hnúta búið og frá málum gengið að augljós réttur kennara er tryggður með skýrum hætti.

Það er rétt að taka fram í þessu samhengi þegar menn velta fyrir sér þessari efnislegu niðurstöðu að það var einnig meginstefið í starfi réttindanefndarinnar þar sem þetta sögulega samkomulag náðist að réttindanefndin lagði til grundvallar að draga eins og hægt væri úr þeirri röskun sem yrði við flutninginn. Þó aðilar geti eftir atvikum verið sammála um að þörf sé ýmissa breytinga á starfsmannahaldi grunnskóla, þá eigi flutningurinn í sjálfu sér ekki að leiða til grundvallarbreytinga á högum kennara og skólastjórnenda. Nefndin hafði það sjónarmið að leiðarljósi, og það er það sjónarmið sem liggur að baki þessu frv., að kennarar eigi hvorki að vera betur né verr settir eftir að þeir flytja frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Eins og við vitum hafa síðan þeir atburðir gerst eftir að þetta samkomulag var gert og frá þessu máli gengið með þessum hætti að kennarar hafa vegna ágreinings við ríkisvaldið um breytingar á lögunum frá 1954 og vegna umræðna um breytingar á lífeyrissjóðslögum opinberra starfsmanna og annarri löggjöf lýst sig óbundna af þessu samkomulagi. Er það þeirra ákvörðun sem þeir hafa leitast við að rökstyðja eins og kunnugt er. Ég lít hins vegar þannig á að það sé skylda okkar sem hér störfum og skylda mín sem menntmrh. að vinna að framkvæmd grunnskólalaganna og fullnægja þeim skilyrðum sem sett voru í gildistökuákvæði laganna til þess að grunnskólinn flyttist til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996. Með því samkomulagi sem tókst í réttindanefndinni og síðan í verkefnisstjórninni var mikilvægum áfanga náð á þeirri braut sem mér finnst að eigi ekki að eyðileggja vegna deilna um önnur atriði. Menn hljóta þegar þeir fjalla um skólamál og mál eins og þetta að líta á efni þess máls og velta fyrir sér hvaða leiðir eru best færar til þess að ná því markmiði sem Alþingi samþykkti með grunnskólalögunum fyrir rúmu ári og á grundvelli þeirrar miklu vinnu sem unnin hefur verið vegna grunnskólans og til þess að grunnskólinn fái þetta nýja rekstrarform sem Alþingi samþykkti einróma á sínum tíma með þeim skilyrðum sem fram hafa komið og tíunduð hafa verið og verið er að fullnægja hvert af öðru. Ég tel að það sé mjög óskynsamlegt að stofna framtíð grunnskólans í óvissu vegna ágreinings á milli stéttarfélaga kennara og ríkisvaldsins um önnur málefni sem ekki snerta grunnskólann beint og ráða engum úrslitum í raun og veru um það mál miðað við þær forsendur sem lagðar eru hér í þessu frv.

[10:45]

Ég ítreka að um þetta frv. hefur náðst góð sátt og í meðförum ríkisstjórnarflokkanna virtu menn þá sátt og stóðu þannig að afgreiðslu málsins innan þingflokkanna að menn tóku að sér, ef þannig má að orði komast, að standa við samninginn og flytja frv. óbreytt og stuðla að því að það næði fram að ganga á Alþingi með hliðsjón af þeim forsendum sem fyrir liggja. Ég tel að á bak við það búi sá eindregni vilji hjá þingmönnum, sem ég hef orðið var við að eru ekki aðeins í röðum stjórnarflokkanna heldur einnig stjórnarandstæðinga, að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996.

Gífurlega mikil vinna hefur verið unnin á undanförnum mánuðum til þess að það markmið náist og línur lagðar með það í huga að svo gerist. Ég held að þeir menn sem vilja leggja stein í götu þess séu ekki með hagsmuni skólans í huga heldur aðra hagsmuni og raunar eru þær deilur, sem uppi eru vegna annarra atriða og menn vilja nýta til þess að leggja stein í götu þessa máls, alls ekki um skólamál og ganga alls ekki út á það að tryggja snurðulausa starfsemi grunnskólans heldur út á allt önnur atriði. Ég legg því ríka áherslu á það að menn hafi hagsmuni skólans og þeirra sem þar starfa og þeirra sem þar nema í huga þegar um þetta mál er fjallað og leggi það til grundvallar þegar þeir meta það og meta nauðsyn þess að frv. nái fram að ganga. Um þetta var samkomulag. Því samkomulagi hefur ekki með nokkru móti verið raskað og deilur um önnur atriði verður að leysa á þeim vettvangi þar sem unnt er að leysa þær. Það er ekki innan veggja skólanna og ekki í þágu heilbrigðs skólastarfs að láta þær deilur verða til þess að tefja fyrir þessu.

Eins og ég sagði hafa farið fram viðræður undanfarna daga á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um kostnaðarþáttinn. Í framhaldi af því að kostnaðarnefnd skilaði áliti sínu 13. febrúar sl. var ákveðið að setja niður viðræðuhóp á milli ríkisins og sveitarfélaganna um þann þátt og ég hef rökstuddar vonir um það að þar náist jafngott samkomulag og náðist um réttindamálin og þar með verði unnt að flytja grunnskólann frá ríkinu til sveitarfélaganna á þeim forsendum sem lög mæla fyrir um og okkur ber skylda til að starfa eftir.

Ég legg síðan til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.