Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 10:53:20 (3677)

1996-03-07 10:53:20# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[10:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er langt síðan ég hef heyrt svona endemis málflutning frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hér liggur fyrir stjfrv. og það er ekki hægt að leggja slík frv. fram nema allir ráðherrar séu því sammála. Samt er hæstv. menntmrh. að boða það hér að það kunni að vera að aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands leggi fram frv. eða brtt. sem ganga á skjön við anda þessa frv. Það er auðvitað svo fráleitt að það tekur engu tali og það hefur aldrei tíðkast og það hefur aldrei gerst. Ef slíkt gerist þá liggur við líf ríkisstjórnar eins og hæstv. menntmrh. auðvitað veit.

Staðreyndin er þessi, eins og hæstv. menntmrh. staðfesti í svari sínu áðan, að það liggur fyrir sáttargjörð. Hún liggur fyrir í formi þeirra ákvæða um réttindi kennara og skólastjórnenda sem er að finna í frv. Hins vegar liggur það líka fyrir og ítrekað af hæstv. menntmrh. að hann er reiðubúinn til þess að brjóta þá sáttargjörð annaðhvort einn eða með ríkisstjórninni allri á næstu dögum með því að láta samþykkja frumvörp sem kippa til baka þeim réttindum sem hann er að lofa hér. Hann er nánast að halda því fram að þetta sé ekkert nema orðin tóm og ekkert nema virði þess pappírs sem þetta stendur á vegna þess að allt annað sé í bígerð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er það sem hann er að segja og það er ekki hægt að líta á þetta öðrum augum en þeim að þarna séu uppi blekkingar, að menn hafi verið teymdir á asnaeyrunum. Ég gerði mér satt að segja ekki grein fyrir því að þetta hefði verið ætlan manna fyrr en ég hlustaði á ræðu hæstv. menntmrh. áðan.