Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 10:57:01 (3679)

1996-03-07 10:57:01# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[10:57]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þessi málflutningur hæstv. menntmrh. er vægast sagt furðulegur. Við stöndum frammi fyrir því á hinu háa Alþingi að búið er að leggja fram tvö frv. Annars vegar um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og hins vegar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hæstv. menntmrh. segir þessi mál algjörlega óskyld. Það er búið að gera samkomuleg sem kennarar hafa reyndar sagt sig frá en nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hvernig sér hann það ganga upp að kennarar, sem færast yfir til grunnskólans og eru flestir félagar félagar í Kennarasambandi Íslands, hluti þeirra er í Hinu íslenska kennarafélagi, hafi óbreytt réttindi frá því sem nú er meðan hinir félagarnir í HÍK og KÍ verða sviptir þeim réttindum sem er að finna í frv. ríkisstjórnarinnar um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Heldur hæstv. menntmrh. virkilega að þetta gangi upp? Trúir hann því að menn sætti sig við það að félagsmenn í stéttarfélögunum hafi mismunandi réttindi? Fyrir utan það að hér er um einhliða árás ríkisvaldsins að ræða, í mörgum atriðum mjög umdeilanleg. Og önnur spurning til hæstv. menntmrh.: Trúir hann því að sveitarfélögin taki við grunnskólanum við þessar kringumstæður? Það var búið að gera ákveðið samkomulag sem ríkisstjórnin setti í algjört uppnám og ég veit það frá tveimur stærstu sveitarfélögum landsins, þar sem ég hef átt þess kost að ræða við sveitarstjórnarmenn, að þeir eru að sjálfsögðu ekki tilbúnir að taka við grunnskólunum við þessar aðstæður með samninga kennara í uppnámi. Maður spyr bara: Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega hér á hinu háa Alþingi? Væri ekki nær að fá einhvern botn í þessi mál áður en lengra verður haldið?