Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:20:56 (3684)

1996-03-07 11:20:56# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:20]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta er að hér hefur komið fram að flutt er stjfrv., þ.e. frv. sem hlotið hefur fylgi allra ráðherra í hæstv. ríkisstjórn, en jafnframt hefur hæstv. menntmrh. tekið fram að það komi í sjálfu sér ekki í veg fyrir að einstakir þingmenn, þar á meðal ráðherrar, kunni að hafa aðrar skoðanir og beita sér fyrir flutningi mála sem ganga í aðra átt.

Þá hefur það líka komið fram að hæstv. fjmrh. hefur kynnt samtökum opinberra starfsmanna eða fulltrúum þeirra frumvörp sem ganga í þveröfuga átt við það frv. sem hér er rætt. Ég sé ekki, virðulegi forseti, hvernig hægt er að halda þessari umræðu áfram í fjarveru hæstv. fjmrh. því að hann hlýtur að þurfa að svara þeirri spurningu hvort hann hyggst þá nýta sér þann rétt, sem hann vissulega hefur og hæstv. menntmrh. gat um sjálfur í sinni ræðu, hvort hann ætli sér að flytja þingmál á Alþingi, annaðhvort stjfrv. eða frv. í eigin nafni, sem gengur þvert á þau réttindi sem þetta frv. sem hér er til umræðu á að tryggja.

Það væri líka ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann ætlaði að taka ábyrgð á slíkum vinnubrögðum að flutt yrðu tvö frumvörp um réttindamál opinberra starfsmanna sem ganga hvort í sína áttina.

Herra forseti. Ég fer þess á leit að umræðunni verði frestað um stund þar til a.m.k. annaðhvort fjmrh. eða hæstv. forsrh. getur verið viðstaddur og tekið af þau tvímæli sem hæstv. menntmrh. getur ekki.

(Forseti (RA): Forseti vill láta þess getið að hæstv. forsrh. mun vera veikur og er því ekki væntanlegur hingað í dag. En ég skil orð hv. þm. á þann veg að hann óski eftir nærveru hæstv. fjmrh. og verður þá þeim skilaboðum komið til hans.)