Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:29:09 (3689)

1996-03-07 11:29:09# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:29]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vona nú að það séu fleiri hæstv. ráðherrar frískir en sá eini sem er við þessa umræðu. Hæstv. ráðherra sagði að hann vildi forðast það að þessar umræður yrðu ómálefnalegar. En jafnvel þó að þeir hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. væru viðstaddir umræðuna þá er ekki endilega víst að þær yrðu ómálefnalegar vegna þess að það er ekki þar með sagt að þeir tækju til máls.

En ég sé ekki hvernig hægt er að halda þessari umræðu áfram, virðulegi forseti, þegar svo háttar til að tveir hæstv. ráðherrar hafa lent í mótsögn hvor við annan, annars vegar hæstv. menntmrh. sem gert hefur heiðurssamkomulag við grunnskólakennara og flytur hér mál til að standa við það heiðursmannasamkomulag og hins vegar hæstv. fjmrh. sem hefur boðað flutning frumvarpa sem ganga í allt aðra átt og gera þetta heiðursmannasamkomulag hæstv. menntmrh. við grunnskólakennara að engu. Þeim spurningum sem verða lagðar fram um þetta mál getur hæstv. menntmrh. ekki svarað. Hann getur ekki svarað þeim vegna þess að þau mál, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, eru ekki á hans forræði og hann hefur ekkert um þau mál að segja nema sem almennur ráðherra í ríkisstjórn. Hins vegar hefur hæstv. fjmrh., eins og hér hefur komið fram, kynnt sem sinn vilja allt aðra hluti og virðist kynna það í nafni sömu ríkisstjórnar og hæstv. menntmrh. situr í. Ég tel því að það sé ekkert óeðlilegt að fara þess á leit að umræðan fari ekki fram fyrr en þessir tveir hæstv. ráðherrar eða a.m.k. annar þeirra, fjmrh. og forsrh., flokksbræður hv. menntmrh., geta verið hér viðstaddir til þess að þingheimur geti gengið úr skugga um hvort það heiðursmannasamkomulag hæstv. menntmrh. og grunnskólakennara á að standa eða hvort hæstv. fjmrh. ætlar að afnema það með atbeina hæstv. forsrh.