Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:33:29 (3725)

1996-03-07 16:33:29# 120. lþ. 103.8 fundur 367. mál: #A innflutningur dýra# (gjald fyrir einangrun) frv. 40/1996, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér yfir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 54 frá 1990 sem er 367. mál þingsins og flutt á þskj. 644. Frv. felur í sér tvíþættar breytingar á lögum um innflutning dýra.

Annars vegar er lagt til að aukið verði við 7. gr. laganna málsgrein sem fjallar um töku á gjaldi fyrir einangrun dýra og erfðaefnis í sóttvarnastöð.

Hins vegar er um að ræða breytingu sem leiðir af 4. gr. laga nr. 130/1994, um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í heildarsamtök bænda, þ.e. Bændasamtök Íslands.

Í 4. gr. nefndra laga nr. 130/1994 er kveðið á um að endurskoða skuli öll lagaákvæði þar sem vísað er til Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda.

Í 2. gr. þessa frv. er lagt til að Bændasamtök Íslands eða starfsmenn þess taki við hlutverki því sem starfsmönnum Búnaðarfélags Íslands er ætlað að hafa með höndum samkvæmt gildandi lögum. Þar er annars um að ræða það hlutverk ráðunauta Búnaðarfélags Íslands samkv. 12. gr. laganna að velja íslensk dýr sem tekin eru til blöndunar við innflutt búfjárkyn eða til að velja fósturmæður við hugsanlegan innflutning á fósturvísum. Gæta verður þess að verðmætir eiginleikar íslensks búfjárkyns tapist ekki við blöndun við innflutt kyn og er unnt með reglugerð að kveða á um að aðeins megi nota hið innflutta kyn til einblendingsræktar, telji ráðunautar Búnaðarfélags Íslands og/eða viðkomandi búfjárræktarnefnd ástæðu til.

Hins vegar er um að ræða ákvæði í 20. gr. sem tryggir aðild Búnaðarfélags Íslands að setningu reglugerðar á grundvelli laganna. Eðli málsins samkvæmt þykir rétt að Bændasamtök Íslands taki við því hlutverki sem Búnaðarfélag Íslands hafði með að gera samkvæmt lögunum.

Eins og ég sagði áður gerir frv. einnig ráð fyrir því að lögfest verði ákvæði 7. gr. laganna sem kveður á um gjaldtöku fyrir einangrun dýra og erfðaefnis í sóttvarnastöð. 1. gr. frv., ef að lögum verður, gerir ráð fyrir að eigendur dýra og erfðaefnis skuli greiða gjöld fyrir þjónustu sóttvarnastöðvar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fengnum tillögum yfirdýralæknis. Við ákvörðun um gjaldskrá ber að miða við að tekjur sóttvarnastöðvar standi undir útgjöldum hennar. Hér er því um að ræða svonefnt þjónustugjald en ekki skatt í merkingu stjórnarskrárinnar.

Innflutningur dýra og erfðaefnis er óheimill samkvæmt lögum nr. 54 frá 1990, en unnt er að veita undanþágur frá því banni. Séu dýr flutt til landsins samkvæmt sérstakri undanþágu þar um ber að einangra dýrin svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á sbr. 9. gr. laganna. Aðalreglan er sú að innflutt dýr verða ekki flutt úr sóttvarnastöð. Það á þó ekki við um heimilisdýr sem ekki eru af ætt hóf- eða klaufdýra. Unnt er að veita leyfi til að flytja slík dýr úr sóttvarnastöð en þó ekki fyrr en dýrin hafa verið svo lengi í einangrun að tryggt þyki, að mati yfirdýralæknis, að þau séu ekki haldin neinum smitsjúkdómum.

Í Hrísey var fyrir nokkrum árum byggð sérstök einangrunarstöð fyrir gæludýr sem flutt hafa verið til landsins samkv. ákvæðum laga nr. 54 frá 1990, og ég hef hér vitnað til. Hafa dýrin verið vistuð í stöðinni í tiltekinn tíma gegn greiðslu gjalds fyrir fóðrun og umhirðu á einangrunartímanum. Í núgildandi lög um innflutning dýra skortir heimild til slíkrar gjaldtöku. Umboðsmaður Alþingis beindi þeim tilmælum til landbrn. á síðasta ári að það beitti sér fyrir því að lögfest yrði lagaheimild til þeirrar gjaldtöku sem hér um ræðir og er frv. þetta flutt til að verða við þeim tilmælum og tryggja eðlilega framkvæmd málsins.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hæstv. landbn.