Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:59:48 (3765)

1996-03-11 16:59:48# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:59]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þær eru athyglisverðar ræðurnar sem talsmenn jafnaðarmannaflokkanna flytja við þessa umræðu. Mér er ekki alveg ljóst hvort búið er að sameina þá en það stendur þá alla vega fyrir dyrum, ekki ber mikið á milli.

Hv. 4. þm. Suðurl. orðaði það svo að hv. 13. þm. Reykv. hefði verið um hríð í stóli félmrh. Það var ekki nákvæmlega orðað því að ýmsum þótti sem það væri býsna löng hríð, ekki síst þeim sem áttu við mikinn vanda að etja í húsnæðismálum. Hvers vegna? Vegna þess að fulltrúar jafnaðarmanna sem ég hygg á þeim átta árum sem liðu áður en núv. hæstv. félmrh. tók við hafi ekki verið færri en fjórir, a.m.k. þrír sem sátu í stóli félmrh. Þeir gerðu ekkert annað eins og hv. 15. þm. Reykv. lýsti en að skipa nefndir. Þeir komu ekki neinu í verk eins og hv. 15. þm. Reykv. orðaði svo skilmerkilega. En þeir skipuðu nefndir. Það sem hefur gerst er það að nú er farið að koma málum í framkvæmd. Menn geta alveg endalaust deilt um það hér hvort hæstv. núv. félmrh. hefur beitt sér fyrir miklum umbótum á þessu sviði. En hann hefur beitt sér fyrir umbótum og hann hefur komið málum í framkvæmd sem ráðherrar jafnaðarmanna í átta ár gerðu ekki. Það er kjarni þessarar umræðu. Það er það sem fólkið í landinu veit.