Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:05:35 (3769)

1996-03-11 17:05:35# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir málefnalegar umræður. Ég vil líka þakka talsmönnum jafnaðarmannaflokkanna fyrir sitt innlegg þótt það væri með nokkuð öðrum hætti.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir spurði af hverju ekki hefði komið fram frv. um greiðsluaðlögun. Því er til að svara að ég skipaði nefnd til þess að semja frv. til laga um greiðsluaðlögun undir forustu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Þessi nefnd vann ágætt starf í sumar og fram til jóla. Niðurstaða hennar varð sú að það væri skynsamlegra að fenginni reynslu, eftir að hafa kannað reynslu nágrannaþjóðanna af greiðsluaðlögun, þá væri skynsamlegra sem fyrsta skref að semja tvö frv. Annað er það sem hér er til umræðu og hitt kemur til umræðu innan fárra daga um tekjuskatt og eignarskatt. Það er byltingarkennt frv., þar sem fjmrh. flytur frv. til þess að opna fyrir að hægt sé að semja um skattaskuldir, þ.e. aðrar en vörsluskatta. Það getur vel verið að einhvern tímann komi að því að það verði flutt frv. um greiðsluaðlögun en sú leið sem hér er opnuð verður reynd fyrst.

Hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, taldi mig auðmjúkan. Ég mundi nú kannski ekki lýsa sjálfum mér svoleiðis en ég er hógvær og af hjarta lítillátur. Það veit hv. þm. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir þetta um húsnæðismál og greiðsluerfiðleika, með leyfi forseta:

,,Að lánstími húsnæðislána frá Húsnæðisstofnun verði breytilegur þannig að í stað 25 ára eins og nú er verði hann á bilinu 15--40 ár. Sérstök áhersla verður lögð á að hjálpa ungu fólki til þess að eignast sína fyrstu íbúð. Þeim sem greiða af eldri fasteignaveðbréfum Húsnæðisstofnunar verður gefinn kostur á lengingu lána. Stuðlað verður að því að einstaklingar, sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum. Stefnt verður að því að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið.``

Þetta segir í stefnuyfirlýsingunni, herra forseti. Það hafa engin loforð verið svikin. Ég hef átt ágætt samstarf við ráðherra Sjálfstfl. og þingflokk Sjálfstfl. um þessi mál. Ég hef sett niður nefndir, ekki bara til að kanna eða gera úttektir, heldur til að leysa vandann. Við erum í óða önn að reyna að leysa þann vanda sem safnast hefur fyrir á undanförnum mörgum, mörgum árum sem Alþfl. hefur farið með ráðuneyti félagsmála.

Ég verð að segja að það gladdi mig í aðra röndina að hv. 13. þm. Reykv. skyldi taka með sínum hætti á þessu máli. Það sannar fyrir mér að ríkisstjórnin er áreiðanlega á réttri leið úr því að hv. 13. þm. Reykv. er svona óánægð með það sem verið er að gera. Því flest sem hv. þm. gerði í sinni ráðherratíð í húsnæðismálum og skuldamálum heimilanna snerist í höndunum á henni. Ég efast ekki um að hún hafi haft góðan vilja en það snerist allt einhvern veginn svo slysalega að eftir hana er bara rjúkandi rúst. Það verkaði öfugt. Hún stóð fyrir greiðsluerfiðleikalánum. Húsbréf upp á 4 milljarða voru gefin út. Vesalings skulduga fólkið, hvað gerði það við húsbréfin sín? Það seldi þau með 25% afföllum. Fékk 3 milljarða fyrir þá 4 milljarða sem það skuldbatt sig fyrir. Nú er þetta fólk í viðtölum við mig á hverjum miðvikudegi alveg hreint að kikna undan hjálpinni frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem náttúrlega var endemis hefndargjöf.

Mig langar til að fara hér örfáum orðum um það hvað verið er að gera í húsnæðismálum og skuldamálum heimilanna. Ég get ekki nema stiklað á mjög stóru. Mig langar fyrst að nefna húsnæðismál. Í sumar var hækkað lánshlutfall til kaupenda fyrstu íbúðar úr 65% í 70%. Þetta verður til þess að ungt fólk sem er að reyna að leita sér að þaki yfir höfuðið fer fremur í að kaupa á almennum markaði heldur en leita í félagslega kerfið. Fyrir jólin var lánstími húsbréfa gerður sveigjanlegur. Nú á fólk kost á 15, 25 eða 40 ára lánum. Það er ekki komin mikil reynsla á þetta. Markaðurinn er ekki búinn að taka við sér varðandi þessi 40 ára bréf. Það er því allt of snemmt að segja til um hvernig þau reynast og hvað þau verði mikið notuð í framtíðinni. Það er að koma, herra forseti, fyrir þingið frv. til laga um félagslegar íbúðir þar sem tekið er á erfiðleikum sveitarfélaga sem mörg hver hafa lent í miklum vandræðum út af félagslegum íbúðum sem þau hafa orðið að innleysa. Þetta frv. á að leysa bráðavanda þeirra út af þessum íbúðum. Það verður hér til umræðu á næstunni. Það er verið að reyna nýjar leiðir í félagsíbúðamálum í reynslusveitarfélagaverkefninu. Það eru fjögur reynslusveitarfélög sem óska eftir því að gera tilraunir í félagslega kerfinu og ég á von á að af því fáist dýrmæt reynsla. Það er unnið að löggjöf um félagslegar íbúðir. Það er komin í gang nefnd sem á að athuga ákvæðið um það að kanna kosti þess og galla að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið. Sú nefnd er hins vegar skammt á veg komin og ég vil ekki gefa mér neitt um hver verður niðurstaða hennar.

En það er rétt að ég hlaupi á fleiri atriðum sem við höfum verið að vinna að. Það er tekin til starfa ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna. Hún tók til starfa 23. febrúar sl. Um er að ræða samstarfsverkefni 16 stofnana undir forustu félmrn. Þessi ráðgjafarstofa er tilraunaverkefni til tveggja ára og þar munu starfa sex manns, sérfróðir starfsmenn, sem sinna einstaklingum í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Þessi aðstoð er veitt ókeypis og það er gert ráð fyrir að ráðgjafarstofan verði eins konar miðstöð fyrir fólk í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Þangað getur það komið og fengið bestu ráðgjöf um fjármál sín, hjálp til að semja um lengingu lána, hagræðingu lána o.s.frv. frá færustu sérfræðingum. Það mun vera einstætt fyrirkomulag að svo margar stofnanir komi að einu verki og kosti það. Þetta samstarfsverkefni er kostað af öllum aðilunum. Það er ekki bara sagt, ég skal koma með þér í þetta ef þú borgar. Það hefur verið gert ítarlegt samkomulag um aðgerðir vegna greiðsluvanda á milli lánastofnana og það var staðfest 2. febrúar. Á allra næstu dögum verður gengið frá reglugerð um skuldbreytingalán Húsnæðisstofnunar.

[17:15]

Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita sér fyrir flutningi sex lagafrumvarpa til viðbótar. Eitt þeirra erum við að ræða í dag. Öll fela þau í sér mikilvæg úrræði. Þrjú þessara frv. hafa hlotið afgreiðslu í ríkisstjórninni, tvö eru þegar komin fram og það þriðja kemur væntanlega hér fyrir vikulokin. Í fyrsta lagi eru þetta tvö frv. sem samin voru í nefnd hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, það frv. sem við ræðum í dag og þar að auki frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fjmrh. mun flytja strax og hann kemur heim. Efni þess frv. er að skapa svigrúm til að semja um skattaskuldir einstaklinga og aðrar skattaskuldir en vörsluskatta.

Þá liggur hér fyrir síðar á fundinum frv. til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Það frv. er samið í framhaldi af starfi nefndar undir forustu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og þar á að opna heimild fyrir stjórn stofnunarinnar til þess að semja um höfuðstól skuldar.

Þá eru í undirbúningi á vegum hæstv. viðskrh. þrjú frv. sem eru líka hluti af þessum pakka. Það er í fyrsta lagi að reglur um tryggingar vegna greiðslukortaviðskipta verði felldar inn í 8. kafla samkeppnislaga. Síðan er frv. til laga um innheimtustarfsemi og tilgangur þess er að tryggja hagsmuni skuldara gegn of hárri innheimtuþóknun. Og að lokum frv. til laga um þjónustukaup sem á að tryggja eðlilega hagsmuni neytenda.

Herra forseti. Takmarkið er að fækka gjaldþrotum sem mest. Og þegar þessi úrræði öll, ráðgjafarstofan, breytingar á Húsnæðisstofnun og þau lagafrv. sem ég var að enda við að nefna eru komin í gagnið, tel ég að við getum sagt í ríkisstjórninni að við höfum staðið vel að verki og gert það sem við lofuðum.