Skipasmíðaiðnaðurinn

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:43:32 (3901)

1996-03-13 14:43:32# 120. lþ. 106.5 fundur 349. mál: #A skipasmíðaiðnaðurinn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin og einnig hv. þm. fyrir þátttöku í umræðunum. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði nákvæmlega það sem ég vildi segja í þessu máli. Við erum ekki að tala um að það eigi að veita íslenskum skipasmíðaiðnaði einhverja sérstaka styrki. Við erum ekki að tala um neitt svoleiðis. Við erum ekki að tala um að það eigi að veita íslenskum skipasmíðaiðnaði betri aðstöðu en gengur og gerist með skipasmíðaiðnaðinn í öðrum löndum, við erum ekkert að tala um það. Við erum ekki að tala um neinar sérreglur. Við erum að tala um að skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi njóti sömu aðstæðna og skipasmíðaiðnaður gerir í samkeppnislöndunum á Evrópska efnahagssvæðinu, það er það sem við erum að tala um. Við erum að tala um upphæðir sem eru tiltölulega mjög lágar. Hæstv. iðnrh. nefndi áðan upphæðina frá árinu 1995 sem mig minnir að hafi verið 60 millj. (Iðnrh.: 1994.) 1994 segi ég. Hann nefndi upphæðina frá síðasta ári sem varð að lokum 17 millj. Ég er þeirrar skoðunar að ef reglurnar yrðu teknar upp eins og heitið var á sínum tíma varðandi skipasmíðaiðnaðinn hér á landi væru menn að tala um upphæðir í kringum 10 millj. kr. Ég tel málið vera þannig og ég tel að þetta snúist ekkert um það hvort að verkefnastaðan er góð eða vond. Hún er góð, þetta er að lagast en ég vil að greinin njóti sambærilegra skilyrða og annars staðar. Það er stundum talað um það til hvers stjórnvöld eigi að skipta sér af atvinnulífinu. Það er eitt sem stjórnvöld eiga að sinna í sambandi við atvinnulífið og það er að viðkomandi atvinnugreinar njóti sambærilega skilyrða og gerist í samkeppnisumhverfi atvinnugreinanna. Það á viðkomandi ráðherra, í þessu tilviki iðnrh., að passa. Það er skylda hans.