Aukastörf dómara

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 16:03:15 (3924)

1996-03-13 16:03:15# 120. lþ. 107.91 fundur 222#B aukastörf dómara# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[16:03]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að ítreka að gildandi lagareglur kveða á um að það þurfi að leita samþykkis þess stjórnvalds sem skipað hefur í stöðu ef viðkomandi starfsmaður sækir um að fá að vinna aukastörf annars staðar en hjá ríkinu eða reka einkafyrirtæki. En lögin kveða ekki á um að það þurfi slíkt samþykki ef um er að ræða aukastörf hjá ríkinu.

Ég get alveg fallist á að það kunni að vera rétt að setja sérreglur um dómara, ekki síst vegna þess eins og ég sagði áðan að það liggur í eðli máls að heimildir til aukastarfa þeirra hljóta að vera þrengri en annarra. Þess vegna er það m.a. hlutverk réttarfarsnefndar að taka það álitaefni til skoðunar við tillögugerð að nýjum dómstólalögum.

Varðandi vanhæfi manna til þess að kveða upp dóma er það að segja að þó að þeir hafi tekið þátt í að undirbúa lagafrumvörp leiðir það ekki af sjálfu sér að það leiði til vanhæfis við uppkvaðningu dóma. Það liggur í augum uppi að til mynda að þingmenn, sem uppfylla skilyrði til þess að vera dómarar, missa ekki það skilyrði fyrir það eitt að hafa verið þingmenn og sett lög. Þeir geta síðar orðið dómarar þrátt fyrir það. Sama er að segja um embættismenn sem vinna í ráðuneytum að undirbúningi laga að þeir geta ef þeir uppfylla önnur skilyrði síðar orðið dómarar. En það breytir ekki þeirri niðurstöðu að ég tel eðlilegt að um þessi mál sé fjallað og það er verið að gera á réttum og eðlilegum vettvangi eins og sakir standa.