Upplýsingalög

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 16:23:03 (3984)

1996-03-14 16:23:03# 120. lþ. 108.14 fundur 361. mál: #A upplýsingalög# frv. 50/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:23]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með að þetta frv. skuli vera fram komið. Það hefur lengi verið beðið eftir því að frv. af þessu tagi kæmi fram. Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. er alllangt um liðið síðan tillögur voru fyrst ræddar um þessi málefni á Alþingi og reyndar samþykkt að láta vinna verk ef þessu tagi. Ég fæ ekki betur séð en að hér sé um afar vandaða vinnu að ræða. Þetta er málefni sem snertir einstaklinga sem þurfa og vilja leita sér upplýsinga um ákveðin málefni, en þetta kemur líka inn á starfssvið ákveðinna stétta og hópa eins og t.d. sagnfræðinga og blaðamanna. Ég held að það sé ákaflega æskilegt og gott að það sé skilgreint í lögum hver réttur fólks til að afla sér upplýsinga er og hvað á að banna.

Það var aðeins eitt atriði í þessu frv. sem ég var að velta fyrir mér og það er þetta sem víkur að takmörkunum á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Sem sagnfræðingur hef ég oft orðið vör við það og rekist á það sjálf að það vakna spurningar varðandi ýmis gögn sem hafa veri innsigluð til áratuga og ekki verið hægt að komast í. Ég gæti þar t.d. nefnt gögn sem snerta heimsstyrjöldina síðari og þá rannsókn sem hér fór fram á einkahögum fólks, þ.e. úttekt á ,,ástandinu`` svokallaða og þeim stúlkum sem þar komu við sögu. Öll þau gögn hafa verið innsigluð og verða ekki opnuð fyrr en einhvern tíma á næstu öld, þ.e. einhver hluti þessara gagna. En hér eru settar reglur um þetta. Í 4.--6. gr. er skilgreint hvaða upplýsingar verði takmarkaðar og í 8. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Veita skal aðgang að öðrum gögnum sem 4.--6. gr. taka til þegar liðin eru þrjátíu ár frá því að gögn urðu til, að frátöldum upplýsingum er varða einkamálefni einstaklinga en aðgang að þeim skal fyrst veita að áttatíu árum liðnum frá því að þau urðu til.``

Nú er þetta auðvitað allt spurning um hvað er eðlilegt og rétt. Hvort 30 ár og 80 ár eru réttu tölurnar skal ósagt látið, ég ætla ekki að gera neina sérstaka athugasemd við það. En ég get nefnt það hér að ég hef stundum velt því fyrir mér hvort mönnum á að vera mögulegt að birta ýmis konar persónulegar upplýsingar um fólk þegar í mesta lagi eru kannski komnar tvær kynslóðir frá því að viðkomandi einstaklingur lést. Ég get nefnt sem dæmi ýmislegt sem fram kemur í ævisögu Jónasar frá Hriflu eftir Guðjón Friðriksson. Þar eru birtir langir kaflar úr bréfum og ýmsar persónulegar upplýsingar og maður veltir því stundum fyrir sér hvort satt megi ekki kyrrt liggja. En sú viðmiðun sem hér er að finna er eitthvað sem nefndin þarf að skoða og eðlilegt að hafa þetta í samræmi við það sem gengur og gerist hjá öðrum ríkjum. Almennt talað vil ég fagna þessu frv. og lýsi yfir stuðningi mínum við það. Ég vona að sú ákaflega önnum kafna allshn. gefi sér tíma til að vinna þetta mál. Ég get nefnt það einu sinni enn að það er ákveðið áhyggjuefni hvað hleðst gífurlega mikið starf á þá nefnd. Stjórn þingsins verður að fara að skoða hvort ekki er hægt að jafna vinnuálag eitthvað meira og betur en gert er, þannig að mál af þessu tagi sem ég tel ákaflega gott dagi ekki uppi vegna þess hve nefndin hefur gríðarlega mikið verk að vinna.