Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:04:22 (4013)

1996-03-18 18:04:22# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:04]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst afar merkilegt það sem kom fram hjá hv. þm. varðandi biðlistana. Það væri kannski rétt að setja ákveðið hámark á hve lengi menn mættu vera á biðlista, t.d. þrjá til sex mánuði. Þetta er mjög göfug hugsun, en ég efa að það gangi upp. Það var reynt í Noregi að setja ákvæði inn í lög um hámarksbiðtíma á biðlista. Það var tekið út þar sem séð var fram á að margar skaðabótakröfur væru yfirvofandi ef stjórnvöld eða heilbrigðisyfirvöld gætu ekki uppfyllt reglurnar um biðtímann. Ég tel mjög varasamt við núverandi aðstæður að setja slíkt inn í lögin. Ég tek hins vegar undir spurningu hv. þm. um lagastoð fyrir þeim reglum sem nú eru notaðar um lok lífs og ýmsar stofnanir fara eftir. Þegar ég skoðaði tillögur siðaráðs landlæknis um leiðbeiningar um takmörkun og meðferð við lok lífs, viðurkenni ég að mér brá svolítið. Þar kemur fram í 5. lið að ef sjúklingur er ófær um að taka þátt í ákvörðun um takmörkun meðferðar skal heilbrigðisstarfsfólk leita samráðs við nánustu aðstandendur um ákvörðunina. Síðan kemur fram í 10. lið að ef ágreiningur er á milli heilbrigðisstarfsfólks og aðstendenda, á að leita álits þverfaglegrar siðanefndar sjúkrahúss eða landlæknis. Ef reglurnar verða á þessum nótum, erum við að mínu mati komin út á mjög hála braut. Ég vildi nota tækifærið til að benda hv. þm. á þetta.