Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:08:44 (4015)

1996-03-18 18:08:44# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:08]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri þessar ósamþykktu tillögur frá siðaráði landlæknis ekki að umræðuefni hér vegna þess að ég er í stjórnarflokki. Ég fæ þær ekki sem stjórnarliði. Ég komst yfir þessar upplýsingar með því að ræða við ritara okkar úti í Þórshamri. Ég bað hana að útvega það sem til var. Þessar tillögur fengum við sendar í gegnum faxtæki. Mér heyrist hins vegar að hæstv. ráðherra sé ekki búinn að sjá þessar tillögur en trúnaðurinn er ekki meiri en að þær eru sendar í faxi til ritara okkar í Þórshamri. Ég vænti þess að ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefði hringt í landlæknisembættið hefði hann sjálfsagt líka fengið þessar tillögur. Ég get ljósritað þær strax fyrir hann.