Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:30:32 (4019)

1996-03-18 18:30:32# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:30]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka ágæta umfjöllun um þetta frv. Það er rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að þau frumvörp sem hér eru til umræðu saman, um breytingar á læknalögum og réttindi sjúklinga, falla mjög vel saman.

Það eru mörg nýmæli í þessu frv. eins og fram hefur komið og vil ég þar fyrst nefna að þar er kveðið á um reglur um vísindarannsóknir, að sýni úr sjúklingi má ekki geyma nema með leyfi sjúklings og það er nýtt. Þar er kveðið á um samfellda meðferð, aðgang að upplýsingum fyrir sjúklinginn, breyttar reglur um sjúkraskrár, þagnarskyldu allra sem starfa að heilbrigðisþjónustu, skýringar á bið og að beina skuli sjúklingi þangað sem er styttri biðlisti. Ég vil koma inn á það sérstaklega vegna þess að hér hefur verið rætt mikið um biðlistana sem er vandamál. Menn verða að horfast í augu við það þótt það fækkaði á biðlistum árið 1995 samkvæmt tölum frá landlækni, bæði hvað varðar þvagfæraskurðlækningar, hjartaskurðlækningar og beinaaðgerðir svo að eitthvað sé nefnt. En það er samt ekki nægjanlegt.

Það er mjög mikið atriði að sérfræðingur sem veit af plássi fyrir sjúklinginn annars staðar beini honum þangað ef mikill og langur biðlisti er hjá honum. Það er kveðið sérstaklega á um það í þessu frv. að það er skylda lækninsins. Það er kveðið á um forsendur forgangsröðunar, reglur um innlögn og útskrift, reglur um að lina þjáningar, reglur um meðferð dauðvona sjúklinga og sérreglur um sjúk börn svo eitthvað sé nefnt.

Það komu fram nokkuð margar spurningar sem eðlilegt er. Hér er verið að fjalla um mjög viðkvæm siðfræðileg málefni sem eru oft og tíðum mjög flókin eins og hér hefur komið fram. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði hvort sjúklingur gæti verið að afsala sér bótakröfurétti með því að skrifa undir að hann sé tilbúinn að fara í ákveðna meðferð. Svarið við því er nei. Hann afsalar sér ekki bótarétti. En fari sjúklingur í mál, er þetta eðlilega gagn í málinu.

Hv. þm. talaði einnig um sjúkraskrár og það ákvæði að það er afturvirkt að sjúklingur geti fengið að sjá sínar sjúkraskrár. Þarna er verið að tryggja rétt sjúklingsins afturvirkt og það getur verið mjög þýðingarmikið fyrir hann. En það er með þetta eins og annað, þetta er stór siðferðileg spurning. Það er mat mitt að rétt sé að sjúklingurinn hafi þennan rétt.

Hv. formaður heilbr.- og trn. spurði margs. Fyrsta spurning hans var um ábyrgð sjúklings á eigin heilsu sbr. 21. gr. frv. Það eru auðvitað engin refsiákvæði varðandi 21. gr. En það er lykilatriði að sjúklingurinn sé tilbúinn til að fara að fyrirmælum læknis varðandi lyfjagjöf, mataræði, þjálfun, hreyfingu o.s.frv. ef lækning á að takast. Í því samhengi var bent á að við værum að tala um skyldur sjúklinga og þá væri þetta orðið frv. um réttindi og skyldur sjúklinga. Aðalatriðið er auðvitað það að meðferðin gagnist einstaklingnum.

Hv. þm. talaði líka um 24. gr., um dauðvona sjúklinga og rétt sjúklings til að deyja með reisn. Það er þannig að yfirleitt er meðferð ekki neydd upp á sjúklinginn ef hann vill alls ekki þiggja hana. En með þessu frv. er það réttur sjúklingsins um leið og hann þiggur ekki meðferð að hann fái nákvæmar skýringar á því hvað það þýðir fyrir hann að þiggja hana ekki. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði.

Hv. þm. gerði líka að umtalsefni 27. gr. um sjúk börn og mikilvægi þess að á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur fái barnið menntun við hæfi. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm., þessi grein kostar peninga. Við verðum að horfast í augu við að stærsta barnasjúkrahúsið okkar getur ekki fullnægt þessum kröfum í dag og það hlýtur að vera stefna okkar að þeim verði fullnægt.

Það kom fram fyrirspurn frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur hvort mikið væri um kvartanir vegna læknismeðferða. Það er nokkuð um kvartanir. En trúlega er lítið kvartað á Íslandi miðað við aðrar þjóðir.

Þá komum við að atriði sem hefur líka verið mjög til umfjöllunar, þ.e. umboðsmaður sjúklinga. Landlæknir er í dag umboðsmaður sjúklinga ásamt sérstakri þriggja manna kvörtunarnefnd. Ég tel það fullnægjandi. En ég veit að hv. þingmenn eru margir á annarri skoðun.

Ég tel að ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem hér hafa komið upp og þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mikilsverða mál.