Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:07:47 (4053)

1996-03-19 16:07:47# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:07]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að skilja orð hæstv. fjmrh. á annan veg en að hann viðurkenni nú að honum hafi orðið á mistök að setja saman frv. um lífeyrisréttindi sem fól í sér skerðingu á áunnum réttindum þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherrans um að svo væri ekki. (Fjmrh.: Þetta eru frumvarpsdrög.) Þetta eru frumvarpsdrög, það er alveg rétt, en það breytir ekki því að yfirlýsingin var engin drög. Því var lýst yfir fullum fetum að frumvarpsdrögin fælu ekki í sér neina skerðingu á áunnum réttindum. Nú skilst mér að það liggi fyrir viðurkenning, ég skil orð hæstv. fjmrh. á þann veg að það hafi aldrei verið meiningin og sé svo --- sem ég held að sé rétt --- þá er frv. mistök.

Í annan stað er alveg óhjákvæmilegt að koma í veg fyrir að fjmrh. hætti að leggja út málflutning minn á annan veg en hann er. Það er misskilningur hjá honum að afnám æviráðningar sem varðar fáeina forréttindamenn í kerfinu og takmarkanir afturvirkt á biðlaunaréttindi séu aðalatriði frv. Það er ekki aðalatriði þessa frv. Það eru leiðréttingar, sérstaklega afnám æviráðningarinnar. Aðalatriði þessa frv. er þetta: Ríkisstjórnin fer fram með frv. sem fela í sér einhliða skerðingu á áunnum réttindum og hún gerir það ekki með því að ganga til samninga um að bæta það upp í kjarasamningum. Það er aðalatriðið og þessu erum við andvígir. (Fjmrh.: Hvaða áunnin réttindi?) Hvaða áunnin réttindi? Eru það ekki réttindi allra opinberra starfsmanna að þeir hafa fyrirframgreidd laun en nú á að ákveða að þau verið eftirágreidd þrátt fyrir verðbólgu. Er það ekki dæmi um það? (Fjmrh.: Ekki núverandi starfsmönnum, það gildir ekki um þá.) Er ekki hæstv. fjmrh. farinn að verða eins og sumir aðrir sem hann kvartar undan. Hann er sífellt grípandi fram í. (Fjmrh.: Hv. þm. verður að lesa frv.) En hæstv. ráðherra hefur ræðutíma.