Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:21:11 (4067)

1996-03-19 18:21:11# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:21]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Jafnréttislögin gilda að sjálfsögðu. (SJS: Að sjálfsögðu.) Samkvæmt þeim er óheimilt að mismuna fólki í launum. Ég tel að eins og þetta blasir við í 9. gr. þá sé einmitt verið að reyna --- Það á að setja reglur sem tryggja að konur og karlar hafi sömu möguleika á að fá viðbótarlaun. Ég er til í það með þingmanninum að skoða þetta mjög rækilega. Það á auðvitað að bæta því við að þetta á allt að vera sýnilegt og gagnsætt sem þarna er samið um. Höfundar frv. telja sig vera að bæta hér úr vegna þess að það segir í athugasemd um 9. gr., með leyfi forseta:

,,Ákvarðanir um launauppbætur af þessu tagi hafa hins vegar verið ósamræmdar og tilviljanakenndar og því m.a. haldið fram að konur hafi ekki haft sömu möguleika til að fá uppbætur á laun og karlar. Af þessum sökum er í 3. mgr. lagt til að ákvarðanir um slík viðbótarlaun skuli fara eftir reglum sem fjármálaráðherra setur þar sem m.a. skuli kveðið á um það að karlar og konur hafi sömu möguleika á að fá slík viðbótarlaun.``

Miðað við það ástand sem nú ríkir er þetta þó til bóta. Það er vissulega rétt sem fram kom í máli hv. þm. að launamunur kynjanna hefur, m.a. hjá ríkinu, byggst á þessum svokölluðu aukagreiðslum. Þrátt fyrir það er líka til staðar ákveðinn munur sem er ekki hægt að skýra með neinu öðru en kynferði, engu öðru. Við skulum skoða þetta mál nánar. En aðalatriðið finnst mér vera að launakerfi ríkisins sé skýrt og skiljanlegt og að það sé réttlátt.