Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:34:37 (4073)

1996-03-19 18:34:37# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að líkja mér við Krist eins og hæstv. fjmrh. taldi sjálftekið hlutverk eins af félögum mínum í stjórnarandstöðunni í ræðu sinni áðan. Ég ætla ekki heldur að halda því fram að hæstv. fjmrh. hafi steypt á sig þyrnikórónu frelsarans en eins og hann hefur talað í dag, einkum fyrri part dags, þá er hann farinn að minna ískyggilega mikið á Stefán sem var fyrsti píslarvotturinn og var grýttur til bana árið 34 e. Kr. Það er eins og hæstv. fjmrh. líti á sig sem einhvers konar fórnarlamb hér í dag. Hann kemur og er hvumpinn og það er bersýnilegt að honum finnst menn vera vondir við sig. Nú er það svo að hæstv. ráðherra hefur margar ástæður til að vera glaður og reifur í bragði. Ég gæti af skyndingu talið upp þrjár ástæður. Í fyrsta lagi hefur hæstv. ráðherra sjálfur haldið því fram að fram undan sé mikið góðæri hjá Íslendingum og rakið það eins og vera bera að nokkru leyti til fyrrverandi ríkisstjórnar. Hæstv. ráðherra hefur líka veðurfarslegar ástæður til að vera glaður og reifur því það er skyndilega komið vor á miðjum vetri. Í þriðja lagi, og það er nú kannski ríkasta ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra á að vera kátur, er hann nýlega kominn frá því að flatmaga á ströndum fjarri Íslandi þar sem sólin bakaði hann í heitum geislum dag eftir dag. Samt kemur hæstv. ráðherra hér og er dapur í bragði. Hann er fórnarlambið eins og fram hefur komið í þessum umræðum. Og líkast til, þegar öllum steinum er velt við og allt er grannt skoðað, er það svo að hæstv. ráðherra er að vissu marki fórnarlamb. En hæstv. fjmrh. er ekki fórnarlamb stjórnarandstöðunnar þótt hann hafi kvartað undan málflutningi hennar hér í dag. Hann hefur m.a. haldið því fram að hann hafi verið uppnefndur, kallaður ljótum nöfnum og jafnvel nefndur til böðulsverka. En hæstv. ráðherra er hins vegar fórnarlamb sinnar eigin ríkisstjórnar, síns eigin forsrh. Ef ég mætti ráða hæstv. ráðherra heilt þá held ég að hann ætti að taka undir með þeim sem halda því fram að hann fari fram með nokkru offorsi því maður sem fer fram með offorsi er að minnsta kosti sjálfráður sinna gerða. Hann lætur a.m.k. stjórnast af sínum eigin vilja. Staðreyndin er nefnilega sú, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur ekki lengur völdin í þessum málum. Það verður að horfa á þetta mál sem við erum að ræða í dag í samhengi við önnur mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram eða boðað að komi fram á næstu dögum. Eitt af þessum málum, herra forseti, er frv. um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Það er ekki hægt að slíta það frá þessu máli sem við erum að ræða hér. Eins og allir vita hefur hæstv. forsrh. tekið völdin af hæstv. fjmrh. Hann hefur lýst því yfir, þrátt fyrir heitstrengingar hæstv. fjmrh., að frv. sem skerði réttindi opinberra starfsmanna í lífeyrismálum verði ekki lagt fram á þessu þingi. Þetta tel ég óskaplega mikilvægt og það er líka mikilvægt fyrir hið viðkvæma sálarlíf hæstv. fjmrh. vegna þess að það gerir hann að fórnarlambi hæstv. forsrh. Þess vegna skil ég það þegar allt er skoðað, herra forseti, að það kann að vera nokkuð til í því að hæstv. fjmrh. sé fórnarlamb og hann kann að hafa efni og ástæður til þess að vera hvumpinn í dag þrátt fyrir allt. Það er nefnilega búið að taka af honum völdin í mikilvægum málum sem þessum efnum tengjast.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að yfirlýsingin sem hæstv. forsrh. gaf þegar hann, fyrir hönd ráðherrans, tók til baka frv. um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna varðar líka það frv. sem við erum að tala um. Eins og hæstv. fjmrh. hefur væntanlega lesið í ræðu hæstv. forsrh. gaf hæstv. forsrh. út yfirlýsingu um að það yrði ekki hróflað við áunnum réttindum opinberra starfsmanna. Ég held að það sé óumdeilt og ég held að það megi meira að segja sjá það skrifað skýrum stöfum í upplýsinga- og áróðursriti hæstv. fjmrh. að það er hróflað við áunnum réttindum í þessu frv. sem við ræðum hér í dag. Það tel ég reyndar, herra forseti, gefa tilefni til að ætla að einhvern tímann á næstunni muni þetta frv. verða dregið til baka eins og hitt frv. Og ef menn vilja fara að leita, mætti auðvitað spyrja hver örlög frv. um breytingar á vinnulöggjöfinni sem hæstv. ríkisstjórn ætlaði líka að fram verða. Þetta mál var svo illa grundað í upphafi að eitt af öðru eru mál ríkisstjórnarinnar sem þessu tengjast að falla. Og ég segi það, herra forseti, ég tel að yfirlýsing hæstv. forsrh. sl. fimmtudag sé þess efnis að það er ekki hægt annað en að taka þetta frv. til baka eða breyta því í veigamiklum efnum. Það er alveg ljóst að það er hróflað við áunnum réttindum. Ég nefni biðlaun, ég nefni samningsrétt, ég nefni verkfallsrétt, ég gæti nefnt fleira. Þar með er alveg ljóst að fyrirætlunin sem birtist í frv. hæstv. fjmrh. er í andstöðu við þá yfirlýsingu sem forsrh. hefur síðar gefið. Orð forsrh. eru dýr, þau eru jafndýr gulli og þau munu standa.

Ég hef aldrei, herra forseti, orðið þess áskynja að orð hæstv. forsrh. hafi ekki gildi umfram orð einstakra ráðherra í núverandi hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna tel ég að ef hæstv. forsrh. ætlar að vera merkur sinna orða, verði hann að hlutast til um að ýmsum meginatriðum í þessu frv. verði breytt, því kippt til baka eða það verði einfaldlega svæft svefninum langa í nefnd.

Herra forseti. Það hefur komið fram að það virðist ekki vera fullkominn skilningur milli hæstv. forsrh. og fjmrh. um efni sem tengjast þessum réttindamálum. Í umræðum sl. fimmtudag lýsti hæstv. forsrh. því skorinort yfir að menn yrðu ekki bótalaust sviptir réttindum sem þeir hefðu áunnið sér. Í þeirri umræðu var það túlkað svo að hæstv. ráðherra myndi sjá til þess að frv. yrði ekki lagt fram. Hæstv. forsrh. mótmælti því ekki og hafði þó öll tök til þess í umræðunni. Þessa þögn hans gagnvart fullyrðingum stjórnarandstöðunnar ber að túlka og er ekki hægt að túlka með öðru móti en svo að hæstv. forsrh. hafi verið að taka af tvímæli um það að lífeyrisréttindafrumvarpið yrði ekki lagt fram í þeirri mynd sem við höfum séð það.

Nú ber svo við, herra forseti, að hæstv. fjmrh. lýsir því yfir að frv. verði eigi að síður lagt fram. Hins vegar sé það svo að það hafi aldrei verið ætlunin að hreyfa við neinum réttindum sem menn hefðu nú þegar. Ég minni á að skömmu eftir að drög að því frv. komu í umferð beittu samtök opinberra starfsmanna sér fyrir því að tryggingastærðfræðingur reiknaði út hversu mikil skerðing fylgdi frv. Það kom í ljós að skerðingin var 4--11%. Aðstoðarmaður hæstv. fjmrh. sagði í samtali við ríkissjónvarpið og ég held fleiri fjölmiðla að hann rengdi ekki þessa útreikninga tryggingastærðfræðingsins en hins vegar hefði fjmrn. ákveðið að láta þetta mál til sérstakrar skoðunar hjá öðrum aðila. Ég held að þegar upp er staðið noti tryggingastærðfræðingarnir sams konar aðferðir og ráðgjafi hæstv. fjmrh. Þegar hann hefur lokið sínum reikningum mun niðurstaðan verða hin sama.

Herra forseti. Er hér ekki farið vitlaust að hlutunum? Átti hæstv. fjmrh. ekki að fara þá leið að láta sína stærðfræðinga reikna þetta út áður en hann lagði fram það frv.? Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. ráðherra hefur sagt núna allra síðustu daga að það hafi aldrei staðið til að skerða réttindin svo nokkru næmi. Hafi það verið ætlunin, tel ég að hann hafi átt að ganga úr skugga um það með því að láta reikna dæmið út áður. Það var bersýnilega ekki gert.

Herra forseti. Ég tel líka nauðsynlegt að rifja það upp að hæstv. fjmrh. hafði frumkvæði að því í þessari umræðu að ræða svolítið um það mál sem við ræddum hér fyrr í vikunni og tengist réttindum kennara. Það var hæstv. fjmrh. sem dró það mál inn í umræðuna og þess vegna tel ég rétt að drepa aðeins á það líka. Hæstv. fjmrh. sagði að það hefði verið staðið við allt sem kennurum var lofað. Þá má spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig stendur þá á því að samtök kennara drógu sína fulltrúa út úr þeim nefndum sem eru að véla um flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaga? Ég held, herra forseti, að svarið liggi í því að það var ekki staðið við allt það sem kennurum var sagt. Þegar við samþykktum lögin um flutning grunnskólans í fyrra var í fyrsta lagi samþykkt ákvæði í lögin sem sagði að ekki skyldi hróflað við lífeyrisréttindum þeirra og í öðru lagi var líka efnislega samþykkt að ekki skyldi hróflað við þeim réttindum sem er að finna í lögunum nr. 38/1954. Þetta var tekið skýrt fram í grg. og þetta var líka tekið skýrt fram í ræðu hæstv. menntmrh. en á öllu þessu máli var einn hængur. Hann var sá að hæstv. menntmrh. lýsti því yfir bæði í ræðunni og í grg. að við tilteknar aðstæður kynni hann og ríkisstjórnin að hlutast til um að kennarar yrðu e.t.v. sviptir þeim réttindum sem þeim var lofað. Þessar tilteknu aðstæður voru þær, herra forseti, að ef sveitarfélögin, sem voru einn þeirra þriggja aðila sem að málinu komu, óskuðu eftir því þá yrði það gert. Með þessum hætti tókst ríkisstjórninni um tíma að klúðra þessu máli þótt samtök sveitarfélaga reyndu að lýsa því yfir að þau hygðust ekki gera þetta. En ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að drepa á þetta hér vegna þess að ég er ósammála hæstv. fjmrh. um að það hafi verið staðið við allt það sem kennurum var lofað. Þarna var opin glufa, þarna var ákveðinn veikur hlekkur sem kennarar gagnrýndu eðlilega mjög harkalega. Það þurfi sem sagt hæstv. forsrh. til að grípa fram fyrir hendur hæstv. fjmrh. til að þetta samningaferli færi aftur af stað.

Herra forseti. Hér er síðan til umræðu frv. um breytt lög sem varða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég segi það, herra forseti, og vísa til þess sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði fyrr í dag, en það finnst mér vera lykilsetningin í öllu því sem hefur verið sagt í dag. Opinberir starfsmenn eru reiðbúnir til þess að ræða öll þessi atriði en það verður að semja um þau. Mér finnst það sanngjörn krafa, herra forseti, ég get ekki sagt annað.

Ég er þeirrar skoðunar að margt í þessu frv. sé jákvætt, annað ekki. Sumt er þess eðlis að það beinlínis hreyfir við og hnikar til kjörum og réttindum opinberra starfsmanna, annað skiptir ekki máli varðandi bein kjör og ýmislegt af því er jákvætt.

Ég tel t.d., herra forseti, það sem varðar aukið svigrúm yfirmanna stofnunarinnar jákvætt. Mig greinir að því leyti á við marga aðra talsmenn stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað í dag að ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ágætt mál. Ég minni líka á að það eru ekki allir opinberir starfsmenn sem eru á móti þessu ákvæði. Ég man ekki betur en að á ráðstefnu sem borgin hélt 12. júní 1995 hafi framkvæmdastjóri BHMR, Birgir Björn Sigurjónsson, tekið undir að það ætti að auka sjálfstæði og svigrúm stofnana borgarinnar með þeim hætti að það væri hægt að ráða menn á kjörum umfram samningsbundin kjör og réttindi. Ég tel það mikilvægt. Ég hef áður í þessum stól drepið á það að ég tel að það sem hæstv. fjmrh. er að gera varðandi stofnanir ríkisins sé af hinu góða.

[18:45]

Við höfum áður rætt örlítið samruna stofnana og ég tel að það sé afskaplega mikilvægt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að fækka stofnunum ríkisins. Það á að skeyta þeim saman og gefa yfirmönnum meira svigrúm til að keppa við almenna markaðinn um gott starfsfólk. Það þýðir að þeir eiga að hafa ákveðinn slaka til að veita mönnum hlunnindi eða laun umfram það sem gerist í kjarasamningum í dag. Ég er líka þeirrar skoðunar, herra forseti, að partur af þessari uppstokkun stofnanastrúktúrsins okkar felist í því að setja stjórnir yfir allar stofnanir og sér í lagi þær sem hafa með einhvers konar eftirlitshlutverk að gera og það held ég að komi að nokkru leyti til móts við gagnrýni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann orðaði það svo að stofnanirnar eða ráðuneytin væru of veik til að geta haft eftirlit með stofnununum. Ég er sammála því og ég tel þess vegna að yfir þeim eigi að vera pólitísk stjórn sem fylgir ráðherra. Þessu, herra forseti, er ég sammála.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að segja að ég er að verulegu leyti ósammála því sem kemur fram í þeim viðhorfum hæstv. fjmrh. sem eru t.d. birt hér í margnefndu fyrsta tölublaði upplýsingabréfs fjmrh., 4. árgangi, sem er í raun ekkert annað en áróðursrit fyrir stefnu fjmrn. í þessu máli. Ég tel það álitamál hvort ráðherrum sé leyfilegt að gefa út rándýrt upplýsingarit af þessu tagi sem í ýmsum efnum að því er ég tel er beinlínis villandi. Mér finnst það t.d. kúnstugt og villandi að þetta upplýsingarit tengist einungis frv. um réttindi og skyldur en það er hvergi talað um lífeyrisfrv. sem er auðvitað miklu veigameira og mikilu þyngra og skiptir meira máli. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort það þýði að þegar að því kemur að hæstv. fjmrh. stendur við þau orð sem hann hefur haft uppi í fjölmiðlum síðustu daga og leggur fram það frv. að þá verði aftur bruðlað svona með peninga skattborgara.

Herra forseti. Ég tel að hæstv. fjmrh. sé ekki með öll þessi frv. vegna þess að hann láti stjórnast af mannfyrirlitningu, mannvonsku eða níðingshætti eða vilji ná sér niðri á öllum. Ég held þvert á móti að hæstv. fjmrh. gangi það eitt til sem allir fjmrh. eiga að láta stjórna sínum gerðum, þ.e. hann vill fara með skattpeninga borgaranna með eins hagfelldum og hagkvæmum hætti og hann telur unnt. Ég er honum sammála um það markmið en það er ekki hægt að beita öllum ráðum til þess. Ég held t.d. að það sé miklu farsælla að fara þá leið að reyna að ná samningum um tiltekin atriði.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér upp í andsvari eftir að formaður BSRB hafði flutt sína miklu ræðu og vildi fá hann til að setja fram tölur til verðlagningar einstakra ákvæða sem formaður BSRB hafði talið upp og taldi að væru færð til skerðingar með frv. Herra forseti, ég tel að í því felist viss viðurkenning af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals um að þarna séu fémæt réttindi. Ég tók hans mál þannig. Ég er líka þeirrar skoðunar að þarna sé um að ræða fémæt réttindi og ég held að það sé ekki hægt að taka þau af nema eitthvað komi í staðinn. Það er það sem skiptir öllu máli. Það er hægt að fara hér vítt yfir sviðið, herra forseti, spyrja um ákveðna hluti og halda því fram að í sumum efnum sé verið að fara verulega á skjön við núverandi réttindi opinberra starfsmanna. Ég ætla ekki að gera það nema í örfáum greinum. Hins vegar bendi ég á að frv. virðist svo óskýrt að opinberir starfsmenn og a.m.k. við, þingmenn hins háa Alþingis, sem lesum frv. virðumst skilja ýmis mikilvæg efni þess öðruvísi en fjmrn. Ég nefni sem dæmi að svo virðist af orðanna hljóðan að fæðingarorlof skerðist. Ég bendi á að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur þráspurt um það í dag og virtist ekki mjög ánægð með svörin. Ég bendi líka á að réttur til svonefndra lausnarlauna og makalauna er skertur að því er mér virðist samkvæmt 30. gr. frv. Og svo mætti lengi telja. Ég nefni t.d. veikindarétt embættismanna. Nú kemur það fram í upplýsingariti hæstv. fjmrh. að þetta séu rangar fullyrðingar. Þá dreg ég a.m.k. þá ályktun að frv. sé ekki betur úr garði gert en svo að menn sem koma að því með sæmilega opnum huga skilja þetta ekki sama skilningi og hæstv. fjmrh. Ég sé að hann hristir höfuðið og er þessu bersýnilega ósammála. En svona er þetta. Ég vildi því gjarnan, herra forseti, ekki endilega hér í andsvörum en í ræðu síðar í dag eða kvöld, að hæstv. fjmrh. segið skýrt og skorinort hvort það er svo að réttur til lausnarlauna, makalauna og veikindaréttur embættismanna breytist ekki með þessu frv. Það er nauðsynlegt að það komi fram, herra forseti.

Það sem ég vildi helst gagnrýna varðandi málflutning hæstv. fjmrh. er að mér finnst að ákveðinni hulu blekkingar sé sveipað í kringum frv. og málið allt þegar hann leggur ofuráherslu á það í fjölmiðlum og í ræðum sínum hér og í þessu upplýsingariti að það sé ekki verið að hrófla að neinu leyti við réttindum sem hefur verið samið um í kjarasamningum.

Herra forseti. Ég hef átt sæti í ríkisstjórn með hæstv. fjmrh. og ég held að á því tímabili hafi það tvisvar gerst að lokið var samningum á almennum markaði. Og ég held að a.m.k. í annað skiptið hafi ríkisstjórnin gengist undir það jarðarmen að ganga frá ákveðnum hlutum. Það var ekki partur af kjarasamningum. Það er svo margt held ég, herra forseti, sem hægt er að segja að sé ekki partur af kjarasamningum. En þá finnst mér að hæstv. fjmrh. beiti blekkingum að því leytinu til að auðvitað veit hann það manna best að umhverfið sem samningar opinberra starfsmanna er gert í er allt öðruvísi en tíðkast á frjálsum launamarkaði. Opinberir starfsmenn þiggja hlunnindi og réttindi sem eru bundin í lögum á meðan slíkt tíðkast í miklu minni mæli á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta er mergurinn málsins. Þess vegna hafa opinberir starfsmenn skorið upp þessa herör. Og menn verða að hugsa til enda þær röksemdir sem hæstv. fjmrh. hefur í sínum málflutngi beitt gegn óskum opinberra starfsmanna um hærri laun á síðustu árum. Það eru ekki mörg ár síðan opinberir starfsmenn fóru í harða baráttu til að ná jafnstöðu við almenna markaðinn. Þeir töldu nauðsynlegt að laun þeirra hækkuðu vegna þess að verulegur munur væri á þeim og launum fyrir samsvarandi störf á frjálsum vinnumarkaði. Hver voru þá svör stjórnvalda? Þau voru á þá lund, herra forseti, að það væri ekki réttmætt af opinberum starfsmönnum að krefjast nákvæmlega sömu launa og tíðkuðust á almennum vinnumarkaði vegna þess að starfsmenn innan opinbera geirans nytu ákveðinna fríðinda sem væru ígildi launa. Ég er sammála þessu að verulegu leyti, herra forseti. En af sjálfu leiðir að hægt er að gagnálykta að þegar á að einhverju leyti að skerða þessi réttindi þá er það ekki hægt öðruvísi en að það sé greitt í einhvers konar mynd. Þetta eru fémæt réttindi sem hafa áunnist, kannski ekki á grundvelli sérhvers einstaklings en a.m.k. í gegnum baráttu samtakanna í áratugi. Og það er ekki hægt að hnika þessum réttindum til nema það verði greitt með einhverjum hætti, herra forseti.

Herra forseti. Er það svo að áunnin réttindi séu skert? Það er spurning sem nauðsynlegt er að svara. Hvers vegna? Vegna þeirra orða hæstv. forsrh. sem féllu hér sl. fimmtudag. Þá sagði hæstv. forsrh., með leyfi herra forseta: ,,Þá verður jafnframt að gæta að hinu sem ég hafði áður lýst yfir að ekki væri verið að svipta menn bótalaust rétti sem þeir hefðu áunnið sér.`` Þetta, herra forseti, er önnur lykilsetning þessarar umræðu. Þetta er mælistikan sem menn þurfa að leggja á þetta frv. Er það svo að í því sé að finna eitthvað sem má færa heim um áunnin réttindi? Ef niðurstaðan er já, þýðir það einfaldlega að það er ekki hægt að gera það án þess að brjóta þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf hér sl. fimmtudag, nema ríkisstjórnin fallist á að greiða það með einhverjum hætti. Þetta er lykillinn að lausn þessa máls. Ég held, herra forseti, að ef við reynum að líta hlutlaust á þetta mál og gefum okkur að efinn í þeim efnum sem ég nefndi hér áðan sé þeim megin sem hæstv. fjmrh. er, þá eru samt sem áður önnur mál hér sem ég get að svo stöddu og án frekari skýringar með engu móti fallist á að sé ekki skerðing á áunnum réttindum. Þá er fyrst til að taka, herra forseti, að biðlaun eru skert. Ef þetta frv. verður að lögum, munu þeir sem voru ráðnir fyrir gildistöku frv. njóta skertra biðlauna, þ.e. þeir sem hafa unnið lengur en í 15 ár höfðu áður 12 mánaða biðlaunarétt, hann fer núna samkvæmt bráðabirgðaákvæði niður í sex mánuði. Þeir sem hafa unnið skemur en 15 ár höfðu áður sex mánaða biðlaunarétt, hann fer núna niður í þriggja mánaða biðlaunarétt. Það er ekki hægt með góðu móti, herra forseti, að halda því fram að þarna sé ekki verið að skerða áunnin réttindi. Ég held að enginn sæmilega gefinn maður og sæmilega vel gerður maður sem vill koma hlutlaust og með sanngjörnum hug að þessu máli geti haldið öðru fram. Það er bókstaflega ekki hægt.

[19:00]

Menn geta deilt um hvert sé eðli biðlauna og menn hafa gert það. Eru það skaðabætur fyrir réttindi sem menn hafa áunnið sér eða er það einungis tímabundin hjálp á meðan menn eru að leita sér að annarri vinnu? Það er hægt að færa rök fyrir hvoru tveggja. Löggjafinn hefur ekki talað skýrt í þeim efnum og það hefur ekki fallið, svo mér sé kunnugt, dómur sem skilgreinir það til hlítar. En hvaða skoðun sem menn hafa á eðli biðlaunanna þá held ég að það sé alveg ljóst að það er verið að skerða áunnin réttindi vegna þess að það er verið að draga úr biðlaunaréttinum. Og það kemur alveg skýrt fram hér í þessu plaggi. Það er heldur nöturlegt hjá hinum vaska hæstv. fjmrh. að þegar hann er að deila á málflutning samtaka opinberra starfsmanna og kemur hér með lista, þá getur hann í engu hvort það sé rétt sem þeir hafa að segja um biðlaunaréttinn eða hvort það sé rangt.

Herra forseti. Fleira mætti nefna eins og samningsrétt og verkfallsrétt. Þetta eru réttindi sem ég held að sé ekki hægt með góðu móti annað en að segja að séu réttindi sem eru í eðli sínu fémæti. Og ef það á að skerða þau eða taka þau af þá er það ekki hægt nema fyrir þau komi einhvers konar bætur. Og því segi ég það, herra forseti, að allt það sem kemur fram eða flest það sem kemur fram í frv. er þess eðlis að það er íhugunarvirði. Og það er meira en einnar messu virði að fara í gegnum allt þetta frv. og rökræða hvern einasta þátt sem þar er lagður til. En fjölmargir þeirra eru þess eðlis að það er ekki hægt að hnika við þeim, tel ég, án þess að opinberir starfsmenn séu hafðir með í ráðum og án þess að í sumum tilvikum sé þeim hreinlega bætt það. Þess vegna er ekki hægt að afgreiða þetta mál nema haft verði ríkara samráð en það sem nú hefur verið gert við opinbera starfsmenn.

Herra forseti. Það er margt fleira sem ég gæti um þetta rætt en ég ætla að láta máli mínu lokið að svo stöddu og áskil mér allan rétt til að halda áfram að eiga hér í rökræðu við hæstv. fjmrh. um þetta efni.