Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 16:16:20 (4395)

1996-03-22 16:16:20# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[16:16]

Bryndís Hlöðversdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég lít svo á að það sem hér hefur verið til umræðu snerti vissulega fundarstörfin, störf þingsins. Þetta mál kom hér inn á borð ríkisstjórnarinnar í slíku offorsi og hraða að þingmenn gátu vart gefið sér tíma til að kynna sér það. Það er það sem við erum að ræða hér. Það hefur ýmislegt verið gert til að koma hreinlega í veg fyrir að hér fari fram lýðræðisleg umfjöllun um þetta mál. Hæstv. stjórnarþingmenn hafa varla látið svo lítið að láta sjá sig hér í þingsölum nema einn og einn og þá einna helst til þess að koma nú að varfærnislegum athugasemdum og efasemdum sínum um frv. Það er svo sem ágætt út af fyrir sig. (Gripið fram í.) En lýðræðisleg umræða hefur ekki verið tryggð um þetta mál. Hvers vegna liggur svona gífurlega mikið á? Ég vil þess vegna taka undir það sem hér hefur komið fram og taka undir orð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um það að hæstv. forsrh. svari því hvað hann ætlar að gera í þessu máli og hvort ekki sé kominn tími til að doka við.