Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 21:02:04 (4434)

1996-03-22 21:02:04# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[21:02]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ber skynbragð mjög á vinnureglur eða starfsreglur á vinnumarkaði. Mér finnst athyglisvert að heyra hjá honum þessa gagnrýni á málsmeðferð ríkisstjórnarinnar. Að vísu ræddi hann ekki eingöngu um það að styrkja aðila á vinnumarkaði, verkalýðsfélög og vinnuveitendur, heldur talaði fyrir miðstýringu sem átti að leysa allt. Ég er algerlega ósammála hv. þm. um það efni en látum það vera. Það sem ég vil spyrja hann um er í framhaldi af því sem hann segir um málsmeðferð: Hvernig vill hv. þm. að staðið verði að því að koma aftur á trausti milli ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar? Hann veit sennilega betur en flestir aðrir þingmenn hvað hér er í húfi, hvaða frið er búið að segja í sundur. Það er ekki einungis gagnvart stéttarfélögum á almennum markaði. Það er líka gagnvart opinberum starfsmönnum. Ég vil fá skýringu hv. þm. á þessari atburðarás sem ríkisstjórn hans stendur fyrir og ég vil fá að vita hvernig hann ætlar að efla traustið aftur. Vill hann gera það sem við lögðum til? Hann vill ekki draga frv. til baka. En hefði hann viljað að 1. umr. hefði verið frestað og málið skoðað betur, þ.e. vísað aftur í vinnuhópinn? Hvernig vill hv. þm. að það verði gert þannig að það ríki friður um þessi mál því að ég held að þingmaðurinn viti mjög vel að svona vinnubrögð ganga ekki. Þau hafa sagt í sundur ekki einungis frið núna á vormánuðum heldur stefnt í stórhættu samskiptum við næstu kjarasamninga. Ég vil fá að vita frá hv. þm.: Hvernig ætlar hann að ráðleggja sinni ríkisstjórn að koma þessum málum í betri farveg?