Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:10:32 (4445)

1996-03-22 22:10:32# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get þá haldið áfram að hlæja að þessu góða svari hæstv. ráðherra. Ég sé það að hæstv. ráðherra er í kolröngu hlutverki. Maður eins og hann hefur bæði eðli og hæfileika til þess að verða t.d. sáttasemjari í þeim deilum sem nú ríkja innan þjóðkirkjunnar. Það ætti að fá hann til þess að leysa það mál. Hæstv. ráðherra segir: Ég er ekki búinn að brjóta neitt enn þá. En hann gerir því skóna að þetta frv. hans kunni að vera svo illa úr garði gert að ef það slysast til að verða samþykkt í þessum sal, verði hann e.t.v. búinn að brjóta alþjóðasamninga. Og honum er svo sem sama. Norður í Skagafirði þar sem menn rölta á eftir beljurössum að vori til og hausti líka, er þeim alveg sama þó að þeir brjóti einhverja alþjóðasamninga.

Herra forseti. Þetta svar hæstv. ráðherra leiddi í ljós að hann veit svo sem ekkert hvað stendur í þessu. Ég spurði tiltölulega einfaldrar spurningar af einlægni um vinnustaðarfélög. Og það kemur í ljós að það þarf tvo stjórnarandstæðinga til þess að leiða hæstv. ráðherra í gegnum svarið. Hann er hreint ekki alveg viss. Þótt stéttarfélag sem stofnað er innan fyrirtækis eða vinnustaðarfélag sem stofnað er innan fyrirtækis njóti ekki við stofnunina réttarstöðu stéttarfélags, tel ég að þau séu búin að fá obbann af þeirri réttarstöðu sem þarf til þegar viðkomandi stéttarfélög á félagssvæðinu eru búin að framselja samningsumboðið til trúnaðarmanna innan fyrirtækisins. Ráðherrann telur þetta jákvætt nýmæli. Ég er ekki viss um að ég sé sammála honum. En það er með mig eins og hæstv. ráðherra, ég er ekki svo kunnugur þessu frv. En allt sýnir þetta að honum hefði kannski verið nær að geyma frv. í eins og 2--3 mánuði og kannski lesa það heima sjálfur.