1996-03-23 00:07:55# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[24:07]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það hefur komið geysilega margt fram í þessari umræðu og ég tel ástæðu til að fara yfir nokkra þætti málsins. Ég vil í fyrsta lagi ítreka það sem ég sagði hér fyrr í dag, þ.e. um hvað málið raunverulega snýst. Það snýst um það hvort samskiptareglur á vinnumarkaði skuli vera settar í samráði við aðila vinnumarkaðarins og unnið eftir þeim með þeim hætti eða hvort það eigi að festa slíkar samskiptaregur í lög. Um það snýst þetta mál. Þetta var í þeim farvegi að menn voru að reyna að setja upp samskiptareglur sem hugsanlega hefðu tekið svipaða mynd og þetta frv. Í einhverjum atriðum hefði niðurstaða málsins orðið í áttina að því. Hins vegar er það inngrip ríkisstjórnarinnar í þetta mál --- herra forseti, ég sé að hæstv. félmrh. er ekki hér í salnum. --- (Félmrh.: Ég er hér.) Fyrirgefðu, hann er kominn upp á palla og eru þá komnir nýir menn á palla miðað við það sem var hér fyrr í dag. En það er gott að hann heyrir mál mitt.

Það að ríkisstjórnin skyldi fara þá leið að leggja fram frv. og taka málið úr höndum aðila vinnumarkaðarins er einmitt það sem stjórnarandstaðan er einhuga í að fordæma. Slík vinnubrögð ganga ekki varðandi þennan málaflokk og þau lög sem menn hafa búið hér við um áratuga skeið. Menn hafa oft talað um að það þyrfti að endurmeta vissa þætti í þessari löggjöf og það er ótrúleg skammsýni að sýna slíka óþolinmæði. Þetta er í fyrsta sinn í 15--20 ár sem hillti undir samkomulag um nýjar samskiptareglur á vinnumarkaði. Ég hef fylgst með samningum á almennum vinnumarkaði í 20 ár og það hefur oft verið rætt um það bæði meðal verkalýðsfélaga og vinnuveitenda að reyna að móta nýjar reglur, reyna að fikra sig í átt til breyttra aðstæðna. Auðvitað þurfa menn að gera það, menn geta ekki búið alltaf við ramma sem er 60 ára gamall. Það hefur aldrei tekist að leiða fólk af þeim vettvangi til alvarlegrar umræðu fyrr en hæstv. fyrrv. félmrh., Guðmundur Árni Stefánsson, skipaði á sínum tíma þessa nefnd. Það kom málinu í réttan farveg og þótt óvenjulegt sé var verkið farið að bera árangur. Óþolinmæði ríkisstjórnarinnar var hins vegar slík að hún mátti ekki vera að því að bíða einhverjar vikur á meðan málið var að taka á sig skýrari mynd í þessum vinnuhópi. Hefði samkomulag náðst, hefðu samskiptareglur gilt án þess að til lagasetningar kæmi. En ríkisstjórnin kaus að koma málinu upp í loft með framlagningu þessa frv. Það er það sem er verst í þessu máli. Hins vegar eru efnisatriði frv. vitaskuld atriði sem á að taka til umræðu og voru til umræðu í þessum hópi sem ég vitnaði í áðan.

Þau gagnrýnisatriði sem Alþýðusambandið hefur dregið fram varða fyrst og fremst efnisþættina. Hvað hina formlegu afstöðu í málinu varðar eru menn einhuga. Þar er sérstaklega bent á að í frv. er hægt að semja sig frá sameiginlegri miðlunartillögu sem þýðir að í reynd er fótunum kippt undan viðræðuáætlun sem er einn af hornsteinunum bæði í þessu frv. og því uppleggi sem vinnuhópurinn lagði til. Þetta er vitaskuld ófær framsetning.

Sömuleiðis er gagnrýnt harðlega hið mikla vald sem sáttasemjara er falið við samningaviðræður og ástæða til að taka undir þá gagnrýni. Einnig er gagnrýnisvert að tengja inn í eina tillögu stéttarfélög sem eru með lausa samninga en eru ekki í neinni alvörukjaradeilu við sinn vinnuveitanda þannig að hægt sé að draga þau að borðinu gegn vilja þeirra til að fella þau inn í sameiginlega tillögu. Þetta orkar sömuleiðis tvímælis og hefur verið bent mjög ákveðið á það af hálfu Alþýðusambandsins.

Einnig hefur komið fram gagnrýni á vinnustaðafyrirkomulagið, reyndar ekki svo mikil í vinnuhópnum sem fjallaði lauslega um það heldur síðar eftir að frv. kom fram. Ég sé ástæðu til að gera það hér að nokkru umtalsefni eins og ég hef reyndar gert áður vegna þess að það er sú grein í frv. sem ég styð. Ég styð að það verði heimilað á stórum vinnustöðum ef um það næst samkomulag á milli launþega að stofna vinnustaðarfélag sem fari með samningsumboð.

Það er hægt að sjá fyrir sér vinnustaðarsamninga og þeir eru til hér á landi. Þeir eru hvað þekktastir í álverinu þar sem fjölmörg stéttarfélög koma að gerð sameiginlegs kjarasamnings. Þetta þekkist líka í ríkisverksmiðjunum og á nokkrum öðrum vinnustöðum. Hins vegar eru það hin hefðbundnu stéttarfélög sem koma að þeirri samningsgerð. Þar er ekki um að ræða vinnustaðarfélag í þeim skilningi að það fari með samningsréttinn, en það er einmitt það sem þessi grein frv. snýst um. Hún snýst sem sagt um það að heimila á stórum vinnustað að launþegar skipuleggi sig í eitt félag. Þetta þýðir að þeir sem áður voru t.d. í Dagsbrún, Verslunarmannafélaginu eða Rafiðnaðarsambandinu og ynnu hjá Eimskip væru í einu stéttarfélagi sem færi með samningsumboðið í þessum stóru félögum. Ég tel þetta fyrirkomulag vera til bóta og vil vekja sérstaklega athygli á því að þetta er ekki að rústa á neinn máta núverandi skipulagi. Þetta er viðbótarform við kjarasamningsgerð sem ætti einungis við tiltölulega lítinn hluta af vinnumarkaðnum, þ.e. hin stærri félög. Það má benda á að þetta er í hinni frægu stefnumörkun Alþýðusambandsins frá 1958. Þá var lögð til þessi leið. Síðan hefur sú leið ekki verið framkvæmd og það eru til margar tilvitnanir í forustumenn Alþýðusambandsins þar sem þeir kvarta einmitt yfir því að það hafi gengið hægt að þróa málin á þann hátt.

[24:15]

Kostirnir við þetta fyrirkomulag liggja í augum uppi. Þá munu ekki tíðkast hefðbundnar einstaklingsbundnar óskipulegar yfirborganir, yfirborganir sem við þekkjum að eru til í einstökum félögum sem koma fram í því að þeir sem eru hærra settir innan fyrirækja hafa tök á því að ná mun hærri launum en almennir launamenn í sama fyrirtæki. Þar er miðað við taxtalaun. Þá má sömuleiðis benda á að þetta fyrirkomulag opnar möguleika fyrir launþega í félögum sem hafa góðan rekstur og góðan afgang, að fá meira í sinn hlut. Það er að mínu mati kostur. Þetta þýðir hins vegar að vitaskuld gætum við haft hér í landinu mismunandi laun fyrir sömu vinnu. Og það er líka hlutur sem þarf að hugsa nokkuð um. Ég tel einmitt að það fyrirkomulag sem við búum við núna, að jafna launin alltaf niður á við án tillits til afkomu einstakra félaga, hafi ekki reynst launþegum happasæl leið. Ég tel því sjálfsagt að það verði tekið til alvarlegrar umræðu að fara þá leið sem lögð er til í frv. en legg áherslu á að þetta á einungis við mjög lítinn hluta, þetta eru nokkrir tugir fyrirtækja, stærstu fyrirtækin og að þetta gerist vitaskuld ekki nema launþegar sjálfir í viðkomandi fyrirtæki kjósa að hafa þennan háttinn á.

Vinnuveitendur hafa lagst gegn þessu fyrirkomulagi og ástæðan er einföld. Þetta dregur úr miðstýringarvaldi þeirra. Sömuleiðis hafa ýmsir forustumenn Alþýðusambandsins lagst gegn þessu fyrirkomulagi, e.t.v. vegna svipaðra hugleiðinga um miðstýringu. En þá vil ég geta þess að þetta er aðferðafræði sem í mjög mörgum stærri fyrirtækjum er rædd og menn kjósa að skoða vandlega.

Það ber líka að hafa í huga varðandi þennan þátt að við verðum að brjótast úr núverandi kerfi til að finna leiðir sem gætu bæði aukið framleiðni fyrirtækja og hækkað taxtalaun þannig að við þurfum ekki að búa hér við lengri vinnudag en önnur lönd. Ýmsu er ábótavant, herra forseti, í skipulagi á vinnumarkaði okkar og það er sjálfsagt að taka þau atriði til efnislegrar umfjöllunar þótt vitaskuld hefði verið betra að það hefði ekki borið að eins og ríkisstjórnin kaus að gera með framlagningu síns frv. Vitaskuld geta menn deilt um það hvort að talan varðandi vinnustaðarfélögin eigi að vera 250 eða einhver önnur. Það geta menn skoðað. Það hafa verið uppi hugmyndir um að lækka þessa tölu jafnvel niður í 100--150 eða jafnvel niður í 25. Ég ætla í sjálfu sér ekki að tjá mig um það. Ég tel rétt að fara af stað með þetta þannig að menn fái af þessu nokkra reynslu vegna þess og það er aðalatriðið í þessu máli að hér er ekki verið að lögbinda tiltekið form. Hér er verið að opna heimild fyrir launþega sjálfa til að skipuleggja sig á þennan hátt og það er aðalatriðið í þessu máli. Hér er ekki verið að hlutast til um að draga fram eitt form umfram önnur. Ég tel því rétt að sú hugsun sem kemur fram í frv. og hefur endurspeglast líka í máli hæstv. félmrh., að þessu ákvæði, ef að lögum verður, verði haldið inni.

Hins vegar breytir það því ekki að þó þessi efnisþáttur sé allrar skoðunar verður, er náttúrlega orðið erfitt að átta sig á hvað ríkisstjórnin vill í þessu máli ef maður hefur í huga orð hæstv. félmrh. áðan þar sem hann dró eitthvað í land varðandi ýmsa efnisþætti frv. en klikkti svo út með því að segja að þetta væru nú bara hugleiðingar á blaði eða orð á blaði. Ég man ekki hvernig hann orðaði það. Ég veit ekki hvort að þessi orð þýða að þau gefi þessu frv. ekki mikið vægi. Ég efast samt um að svo sé því hann hefur gefið sterklega til kynna að hann hyggist knýja fram lögfestingu frv. núna á vorþingi.

Mér finnst hins vegar vera vont í þessu máli að það skyldi ekki hafa verið beðið með frv. þannig að vinnuhópurinn hefði getað fengið ráðrúm til að skoða nánar þessa þætti. Og vitaskuld hefði Alþingi getað tekið þetta til eðlilegrar meðhöndlunar eftir páskaleyfi án þess að nokkur vandkvæði hefðu hlotist af því, því að sjálfsögðu verður meiri hluti á Alþingi að ráða ef menn vilja endilega knýja fram þessa löggjöf. En það að knýja hana svona fram í andstöðu við verkalýðshreyfinguna er ekki góð stefna eins og ég held að hér hafi verið ágætlega lýst af hálfu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem dró einmitt upp þær hættur sem þessi málsmeðferð hefur og getur haft í för með sér.

Það má einnig benda á það sem hefur komið fram í umræðunni að líklega stangast ákvæði frv. á við alþjóðlega samninga, hugsanlega aðra löggjöf hérlendis, en hér hafa verið færð mjög sterk rök fyrir því og vitnað til bréfs fráfarandi ríkisstjórnar. Ég vil ítreka það sem hefur komið fram í umræðunni að það bréf er dómsgagn. Það er lagt fram á alþjóðlegum vettvangi í dómsmáli þannig að það hefur réttarstöðu á alþjóðavettvangi. Og auðvitað verður að skoða það mjög vandlega hvort hér er verið að leggja upp með löggjöf sem hugsanlega kostar dóm á íslensk stjórnvöld í útlöndum. Það hafa verið gefnar yfirlýsingar um að þessi þáttur verði sérstaklega skoðaður þótt e.t.v. hefðu þær yfirlýsingar mátt vera ótvíræðari. Þær hefðu þó a.m.k. verið fullkomið tilefni til þess að draga frv. til baka og skoða það nánar í stað þess að fara þá leið sem hér er vörðuð.

En meginatriðið varðandi frv. er samt þó það að verið er einhliða að ganga erinda vinnuveitenda í lagasetningu á samskiptareglum. Það er ekki á neinn hátt dregið úr miðstýringu á vinnuveitendahlið, hins aðilans við samningsgerðina eins og hefði þurft að gera í þessu frv. Því hefur þessi ríkisstjórn engan gaum gefið. Það er augljóst hverra hagsmuni hún er að verja í þessum málaflokki og e.t.v. endurspeglast þarna mjög rækilega stefna ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan stendur einhuga gegn. Að því leytinu er frv. æskilegt vegna þess að það skerpir pólitískar línur í landinu og eins og margoft hefur verið drepið á, hefur stjórnarandstaðan sameinast í þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á frv., bæði efnisþættina sem hafa verið gerðir nokkuð að umtalsefni og ekki hvað síst þá lögleysu, vil ég kalla, að ætla sér að fara inn í þessa löggjöf með þessum hætti og setja einhliða lög um samskiptareglur á vinnumarkaði eins og ríkisstjórnin hefur stefnt að.

Það hafa komið fram í umræðunni fjölmörg atriði en hæstv. félmrh. hefur ekki svarað miklu. Hann viðurkenndi reyndar í umræðu áðan að hann væri nú kannski e.t.v. ekki nógu vel lesinn í málinu og vitaskuld er það ámælisvert þegar verið er að leggja hér upp með stóran málaflokk að ekki sé hægt að fá skýrari svör við fjölmörgum af þeim athugasemdum og spurningum sem hafa komið fram í umræðunni. Ef ráðherra hefur ekki haft sjálfur nægan tíma til að svara fyrir málið, hefði vitaskuld verið sjálfgefið að hér væru þá fleiri fulltrúar bæði ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna sem hefðu komið til og útskýrt nánar hvað átt væri við með einstökum greinum frv. Það vantar svör við þeirri gagnrýni sem hér hefur verið borin fram bæði af hálfu stjórnarandstæðinga og ekki hvað síst af hálfu verkalýðshreyfingarinnar sem endurspeglast í ályktunum sem okkur hafa verið að berast síðustu daga. Auðvitað hangir þetta mál saman við atlögu ríkisstjórnarinnar að opinberum starfsmönnum. Þetta hangir allt saman. Starfsmannastefna ríkisstjórnarinnar gengur út á það eitt að þrengja möguleika verkalýðshreyfingarinnar til að mæta til kjarasamninga á jafnréttisgrundvelli. Það er það sem er vont í frv. Með framlagningu þessa frv. er einhliða tekin afstaða með öðrum aðilanum á vinnumarkaðnum á mjög ósvífinn hátt.

Áhyggjur mínar snúast einnig að því að ég óttast að þetta muni leiða til þess að við munum upplifa hér mikla sprengingu í næstu kjarasamningum og satt best að segja held ég að ríkisstjórnin hafi alls ekki áttað sig á því í hvers konar púðurtunnu hún var að kveikja þegar hún lagði fram þetta frv. og önnur sem hafa komið fram í tengslum við kjarasamninga.