1996-03-23 01:38:51# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[25:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er talsvert dapurlegt að koma hingað og þurfa að taka til máls undir stjórn forseta sem ég hef enga trú á því að geti stjórnað þessum fundi með þeim hætti sem sæmir virðingu þingsins. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi það að hann hefði í 13 ára þingsögu sinni aldrei orðið vitni að því sem hérna gerðist áðan. Ég verð að segja, herra forseti, að ég hef verið hér einungis í nokkur ár, en ég hef aldrei orðið var við það áður að forseti hafnaði þeirri lögmætu beiðni þingmanna stjórnarandstöðunnar eða þingmanna yfirleitt að fá að ræða um fundarstjórn forseta. Ef sá forseti sem nú er á forsetastóli þolir ekki gagnrýni og beitir ofbeldi eins og hann gerði áðan til þess að skjóta sér undan henni, þá segi ég bara eitt: Þá þarf þingið og sérstaklega sá forseti sem situr núna á stóli að endurskoða hug sinn til þess hvort hann telji rétt að halda áfram þeirri virðingarstöðu eða hvort þingið vill yfir höfuð hafa hann. En það vill svo til eins og forseti sagði áðan, að í húsinu er annar forseti, Ólafur G. Einarsson. Eins og núv. forseti vísar til, þá er það hann sem virðist hafa öll völd og það er við hæfi.

(Forseti (GÁ): Vegna ummæla hv. þm. vill forseti segja að hann hefur rakið það hvers vegna hann hleypti hv. þm. ekki að til þess að ræða um fundarstjórn forseta. Það var vegna þess að hann hafði gefið öðrum hv. þm. orðið, en ég finn að þetta hefur sært hv. þm. og biður forseti hann velvirðingar á því og biður hann nú um að halda sína málefnalegu ræðu eins og hér hafa margar verið fluttar.)

Herra forseti. Eins og þingheimur veit, hefur núv. forseti hjarta úr gulli eins og fram hefur komið í ónefndum útvarpsþætti og auðvitað er það með þessum hætti sem forseti á að bregðast við gagnrýni en nú skulum við ekki ræða það frekar.

Herra forseti. Við erum komin til þess að ræða a.m.k. fram undir morgun það frv. sem hér liggur frammi til laga um breyting á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Eins og menn hafa séð er talsvert dregið af hæstv. félmrh. Hann hefur setið hérna á fimmtándu klukkustund og satt að segja þegar mér verður litið til þessa ágæta hæstv. félmrh., velti ég fyrir mér hvort við í liði stjórnarandstöðunnar séum ekki að gerast brotleg með einhverjum hætti við dýraverndunarlögin?

Menn hafa í umræðunni furðað sig á því að jafnágætur maður og hæstv. félmrh. skuli enda láta hafa sig í það að leggja fram frv. enda hefur komið fram í umræðunni að hann er ekki alveg klár á hvað það merkir þegar hann er skorinn til hjartans og nýrnanna; sem er í algerri andstöðu við alla verkalýðshreyfinguna í landinu og sem engin sérstök þörf er á að leggja fram.

Ég verð að segja, herra forseti, að það kemur mér mjög á óvart að það skuli einmitt vera þessi hæstv. félmrh., þessi meðlimur Framsfl. sem gerir þetta. Það var einmitt hv. þm. Páll Pétursson sem á síðasta kjörtímabili var merkisberi félagshyggjunar í Framsfl. Og það var hann ásamt ýmsum öðrum þingmönnum, eins og hv. þm. Guðna Ágústssyni, sem tóku undir óskir og kröfur félagshyggjufólksins í landinu og sem oft og tíðum gagnrýndi fyrri ríkisstjórn með réttu fyrir það að hún því miður í sumum efnum fór of langt frá þeim markmiðum sem ýmsir aðilar sem voru af þeirri ríkisstjórn hefðu viljað fylgja. En nú er það sem sagt einn af arftökum Jónasar frá Hriflu sem leyfir sér að koma hingað og leggja fram frv. sem veldur því að öll verkalýðshreyfingin í landinu er að rísa upp til mótmæla og eins og fram hefur komið er það sennilega helsta afrek hæstv. félmrh. að honum hefur tekist að sameina þá sem elduðu grátt silfur innan verkalýðshreyfingarinnar og honum hefur tekist líka að gera stjórnarandstöðuna, sem var nú samhent fyrir, enn samhentari.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í kvöld bregður hæstv. félmrh. sér í ýmissa kvikinda líki. Ég hafði gaman af því þegar hann var að ræða sitt ágæta frv. að það kom í ljós að hann var ekki meira en svo viss á því hvað í því stóð. Þegar hann lenti í svolitlum ólgusjó fyrr í kvöld og var ásakaður um það að frv. kynni að brjóta í bága við ákvæði félagsmálasáttmála Evrópuráðsins, þá sagði hann: ,,Það er ekki komið í ljós. Það er ekki búið að samþykkja frv. Þetta er laust í sniðum.`` Og bætti síðan við: ,,Þetta eru nú bara orð á blaði.`` Er það svo, herra forseti, að frv. sem hæstv. félmrh. leggur fram, er ekki meira virði í hans eigin augum og er svo laust að það eru bara orð á blaði?

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hefði talið að hæstv. félmrh. ætti að hafa meiri sóma fyrir sinni vinnu og ætti ekki að leggja fram frv. nema hann hefði fulla sannfæringu fyrir því að það sem hann væri að gera væri af hinu góða og væri rétt. En mér fannst vanta dálítið á það að þessi hæstv. ráðherra, sem er yfirleitt fullur af sannfæringu og vekur aðdáun margra fyrir að fylgja henni, var ekki sterkari á svellinu en svo að maður fann það að víða skorti nokkuð upp á að hann tryði því sjálfur að þetta frv. væri af hinu góða. Ég held nefnilega, herra forseti, að hæstv. félmrh. sé viljandi að bregða sér í gervi akneytisins sem dregur ækið. Hann er að sýna það og sanna fyrir Sjálfstfl. að Framsfl. sé víst þess virði að starfa með og hann sérstaklega sem átti eins og við munum eftir erfitt uppdráttar þegar kom að því að stofna þessa ríkisstjórn. Það stóðu deilur um það innan Framsfl. hvort hann eða vösk, ung þingkona af Suðurnesjum yrði tekin inn í ríkisstjórnina. Það fór samt sem áður svo að það var hæstv. félmrh. sem varð fyrir valinu og nú þarf hann að sýna herrunum á heimilinu að hann sé verðugur þessa embættis. Hann er verðugur þess að það er brugðið á hann fjötrunum og hann er látinn draga vagninn alveg eins og við getum bent á svo margt annað í fari ríkisstjórnarinnar sem sýnir það aftur og aftur að það er Framsfl. sem hleypur á foraðið í hvert einasta skipti sem herrann á heimilinu, Sjálfstfl., kallar. Og það er kannski hvergi sem það hefur birst jafnámátlega og í þessari umræðu.

Hvað er það sem stendur upp úr þessari umræðu innan stjórnarliðsins? Það sem stendur upp úr er að hér hefur nákvæmlega enginn framsóknarmaður talað utan hæstv. félmrh. Það hefur enginn í flokki félagshyggjunnar treyst sér til þess að koma hingað upp og halda ræðu til stuðnings hæstv. félmrh. Það segir auðvitað sína sögu, herra forseti. Sú saga er þó sögð háværari og skýrari röddu innan Sjálfstfl. vegna þess að það hafa fjórir sjálfstæðismenn tjáð sig um efni frv. og þrír af þessum sjálfstæðismönnum hafa farið gegn stefnu hæstv. félmrh. eins og hún birtist í frv. Einn sá sem þekkir þessi mál best, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, kallaði frv. hæstv. félmrh. beinlínis óskapnað. Hann sagði að það væri ekki mark á því takandi. Hann sagði að það væri einskis nýtt og það er dómurinn sem sá stjórnarþingmanna sem gerst þekkir til þessara mála fellir um frv. hæstv. félmrh.

Ég verð að segja, herra forseti, að það kemur mér á óvart að jafnskynsamur og glöggur maður og hæstv. ráðherra er skuli a.m.k. ekki taka mark á sínu eigin liði. Það hafa einungis fjórir óbreyttir stjórnarliðar utan ríkisstjórnarinnar tjáð sig um málið og þrír þeirra hafa farið gegn því. Tekur hann ekki mark á því? Tekur hann ekki mark á gagnrýni þagnarinnar sem felst í því að enginn þingmaður hefur tjáð sig til fylgis við þetta frv. og sá hv. þm. sem nú gengur um salina, hv. þm. Guðni Ágústsson, var á dögum fyrri æstastur framsóknarmanna í andófi gegn öllum hugmyndum í þessa veru. Og fyrri ríkisstjórn, sem bæði hæstv. félmrh. og hv. þm. Guðni Ágústsson átöldu harðlega fyrir frjálshyggju og fyrir hægrimennsku, kom ekki einu sinni til hugar að leggja fram frv. af þessu tagi.

[25:45]

En, herra forseti, það er ekki efnið í sjálfu sér sem við þurfum að deila á hérna. Jafnvel þó að menn væru sammála um efni frv., þá er það samt sem áður skýlaus réttur verkalýðshreyfingarinnar að fá að véla um sín eigin mál. Um það snýst deilan. Það er frelsi verkalýðshreyfingarinnar til þess að fara með sín mál eftir samráð við atvinnurekendur. Það er líka dapurlegt að horfa upp á það hér, herra forseti, að þegar maður skoðar frv. og les greinargerðina, sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á, kemur eitt í ljós. Þá kemur það glögglega fram að meginefni frv., þeir ásteytingssteinar sem hafa orðið þess valdandi að hér eru úfar með þingheimi í kvöld, voru aldrei ræddir til hlítar af þeim hópi sem var settur niður af félmrn. til að fara ofan í þessi mál.

Það kemur fram, herra forseti, á bls. 8 að helstu atriðin, þ.e. boðun vinnustöðvana, hlutverk ríkissáttasemjara, miðlunartillögur og fyrirkomulag um atkvæðagreiðslur voru hlutir sem voru aldrei ræddir af hópnum. Með öðrum orðum er ekki hægt fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og halda því fram að það hafi verið komið í ljós að ekki væri sátt um málið. Málið hafði einfaldlega ekki fengist rætt. Það voru örfáar vikur eða mánuðir sem fengust til að ræða þessi mikilvægu mál. En samt kemur ráðherrann hér og hagar sér eins og hann sé búin að vera ráðherra allt sitt líf. Auðvitað kann það að vera, herra forseti, að svo mjög hafi þessi ágæti ráðherra þráð dóm ráðherrans, þráð ráðherrastólinn, að allt annað þurrkist út þegar hann loksins verður þessarar ánægju aðnjótandi að fá að setjast í hinn hæga sess valdsins. Þá gleymir hann því að hann var líka til áður en hann varð ráðherra og nú finnst honum skyndilega þegar hann er búinn að vera ráðherra í sex eða sjö mánuði, og það er ekki komin niðurstaða í málinu, að málið gangi einfaldlega ekki lengur og það verði að hrinda því til lykta eins og hann hefur gert. Þess vegna kippir hann því út úr samráði verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda og fær einhverja ágæta menn, að því er hann telur, til þess að skrifa frv. Það væri gott og blessað ef ekki hefði komið í ljós að í frv. er einungis tekin afstaða með öðrum aðilanna sem eiga aðild að vinnumarkaðnum. Það er tekin afstaða með atvinnurekendunum og það er ekkert í frv. sem veldur því að settar séu þyngri kvaðir á atvinnurekendur. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar eru settar grimmúðugar reglur um atkvæðagareiðslur innan Vinnuveitendasambandsins? (Félmrh.: Hvarvetna.) Alls ekki, hæstv. ráðherra, alls ekki. (Gripið fram í.) Og hefði þá hæstv. ráðherra fyrir löngu verið búinn að sýna fram á það því að þetta er eitt af því sem þingheimur hefur verið að kalla eftir. Og óneitanlega er það dapurlegt að það skuli ekki bara vera Framsfl. heldur einmitt þessi merkisberi félagshyggjunnar innan Framsfl., maðurinn sem með vissum hætti tók upp og hnýtti þráðinn þar sem hann var slitinn fyrir nokkrum áratugum, af mönnum eins og Jónasi frá Hriflu, mönnum, sem töldu að verkafólk á Íslandi ætti samleið með íbúunum á landsbyggðinni, með bændafólki Íslands, maðurinn sem vildi búa til sérstaka stjórn verkafólks og bænda; stjórn hinna vinnandi handa. Það var hv. þm., Páll Pétursson, sem löngum var kyndilberi þessarar hyggju innan Framsfl. en nú er það allt í einu hann sem er orðinn 18 barna faðir í álfheimum, verður umskiptingur þegar hann sest í stól ráðherra og á þá ósk heitasta að fá að sanna það fyrir Sjálfstfl. að hann sé betri en allir aðrir til þess að koma þeim málum í höfn sem Sjálfstfl. leggur ekki í sjálfur.

Herra forseti. Það væri hægt að fara yfir þetta frv. lið fyrir lið og finna að því. Sumt í frv. er jákvætt. Sumu hef ég tiltölulega mikla samúð með. En ég er þeirrar skoðunar að mál af þessu tagi muni aldrei gagnast neinum ef ekki er fyllileg sátt um það á milli þeirra tveggja aðila sem eiga að notast við þetta gagn, þ.e. atvinnurekendanna og verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðshreyfingin logar stafna á milli út af þeim griðrofum sem hæstv. félmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur staðið fyrir. Hér innan þingsins hefðu menn verið reiðubúnir til þess að fara í þetta mál og rannsaka það og reyna að bæta það og hv. félmn. hefur bæði burði, gott fólk og tíma til þess að fara í málið og bæta alla þá agnúa sem er hægt að finna á vinnu hæstv. félmrh. Það er einfaldlega ekki málið. Málið er það að svona samskiptareglur verða aldrei til, herra forseti, nema sátt sé um vinnuna.

Það var hæstv. félmrh. sem sagði, herra forseti, að hann vildi stjórna umferðinni á vinnumarkaðnum. Það má vel vera að einhvers staðar blundi í honum lítil lögga, innst í sál hans, en ég endurtek, herra forseti, það sem ég sagði fyrr í dag: Þrátt fyrir upphaflegan ásetning, þrátt fyrir góðan vilja, hefur hann í rauninni orðið að lifandi umferðarslysi í þessu máli og hann hefur ónýtt þetta mál.