1996-03-23 02:20:05# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GHH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[26:20]

Geir H. Haarde:

Virðulegi forseti. Menn hafa sýnt hver öðrum býsna mikla biðlund í þessu máli eins og kunnugt er. Það mun ekki standa á stjórnarliðinu að mæta til atkvæðagreiðslu. Ég varð ekki var við það að hv. 8. þm. Reykv. væri á þessu þingfundi fyrr í kvöld. Mér er kunnugt um að hann hafði öðrum störfum að gegna alveg eins og ýmsir aðrir þingmenn og ráðherrar. En ég vil frábiðja mér það sem mér heyrðist hv. þm. vera að gera í máli sínu að gera lítið úr því að hæstv. ráðherrar eða aðrir sæki veislu forseta Íslands. Það er fyrir neðan virðingu okkar allra að gera lítið úr því. (ÖJ: En felst biðlundin í að vilja ræða málið við þingið?) Ég hef ekki orðið var við annað en hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi fengið nægan tíma til að tjá sig um þetta mál og ég ætla ekki að deila við forseta. Ég held að ... (Gripið fram í.) Það er eitt sem hv. þm. þarf að temja sér og það er að eiga orðastað við þingmenn héðan úr ræðustól en ekki úr sæti sínu. Hann á sjálfsagt eftir að læra það. Hann er nýr í þinginu eins og við vitum. (ÖJ: Ég kann ekki hirðsiði.) Hann á eftir að læra ýmislegt í þinginu eins og menn vita. En ég sé enga ástæðu til þess að gera ágreining við forsetadæmið um þessa atkvæðagreiðslu. Hún fer fram þegar forseta hentar. Það er búið að hringja út þingmenn eins og allir vita og þeir sem ekki eru nýir í þinginu vita að það er ekkert einsdæmi að hér sé atkvæðagreiðsla að næturlagi. Og ég skil ekki þennan leikaraskap í þingmönnum sem hér er hafður upp í sambandi við þessa atkvæðagreiðslu. Ég veit reyndar að þeim er ekkert sérstaklega mikil alvara með þessu.