1996-03-23 02:27:44# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[26:27]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan hefur sýnt í verki áhuga sinn á þessu máli með því að vera hér í þingsölum í allan dag og taka þátt í umræðum um málið. Stjórnarliðar hafa ekki sýnt lýðræðislegan vilja í verki, eins og hv. þm. Geir Haarde sagði áðan, vegna þess að þeir hafa ekki verið í salnum og ekki tekið þátt í þessari umræðu, (Gripið fram í: Jú, jú.) með örfáum undantekningum. Hins vegar er núna verið að draga þá út úr veislusölunum og upp úr rúminu (Gripið fram í.) til þess að koma og afgreiða þetta mál núna.

Sú krafa hefur verið sett fram af hálfu gervallrar verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi að þetta mál verði tekið út af dagskrá því að með frv. er friðurinn rofinn í landinu og það er ósvífni, það er mikil ósvífni að halda því fram að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað sýna þessu máli virðingu. Hún hefur verið að ræða þetta mál í allan dag, en það eru stjórnarliðar sem hafa sýnt málinu þá óvirðingu að hafa ekki tekið þátt í umræðunni, með örfáum undantekningum.