Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 13:47:22 (4492)

1996-04-10 13:47:22# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[13:47]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv. er nauðsynlegt fylgifrv. með frv. um Póst og síma hf. Samkvæmt gildandi fjarskiptalögum er byggt á því meginsjónarmiði að ríkið hafi einkarétt á því að veita talsímaþjónustu hér á landi, í íslenskri landhelgi og lofthelgi og að reka almennt fjarskiptanet. Með þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að ríkið afsali sér þeim rétti. Á hinn bóginn gera núgildandi lög ráð fyrir að Póst- og símamálastofnun annist framkvæmd þessa einkaréttar.

Í frv. er miðað við að samgrh. geti falið sérstökum aðila að annast þá fjarskiptaþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á og sé hann þá rekstrarleyfishafi. Skal hann uppfylla þær almennu kröfur sem gert er ráð fyrir í 3. mgr. 2. gr. laganna.

Í gildandi lögum um fjarskipti er gert ráð fyrir að opinberir aðilar annist framkvæmdir varðandi fjarskiptakerfið, viðhald þess og annað er því viðkemur. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafinn taki að sér framangreindar framkvæmdir og hafi sömu skyldur og réttindi til að rækja það hlutverk samviskusamlega.

Þetta frv. er einfalt í sniðum. Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni þess frekar. Eins og ég sagði er þetta nauðsynlegt fylgifrv. með frv. um Póst og síma hf. sem áður hefur verið lagt fram og fékk hér rækilega umfjöllun. Þau efnisatriði sem eru í þessu frv. voru rædd í tengslum við það frv.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.