Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:14:48 (4496)

1996-04-10 14:14:48# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:14]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Vegna tímatakmarkana verður ræðan sundurlausari en ella. Í 13. gr. frv. sem hér er til umræðu er kveðið skýrt á um að þegar Póstur og sími hf. tekur til starfa veitir samgrh. félaginu rekstrarleyfi skv. 1. mgr. 2. gr. laganna eins og þau verða og skal það rekstrarleyfi gilda þar til réttur til að veita einkaleyfi til almenns fjarskiptareksturs fellur niður samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Á sama tíma skal öðrum óheimilt að eiga eða reka almennt fjarskiptanet. Hér er með öðrum orðum í bráðabirgðaákvæðum skýrt kveðið á um að Póstur og sími hf. skuli fara með einkaréttinn og það sem hv. þm. sagði um þau efni er því á misskilningi byggt.

Hin rótgróna andúð hans á því að Póst- og símamálastofnun skuli breytt í hlutafélag kom hins vegar mjög skýrt fram hjá hv. þm. og er ástæða til að tíunda það sérstaklega. Hann talar um einkavæðingarsýki sem felst í þeirri formbreytingu að stofnun er breytt í hlutafélag sem þó sé í eigu ríkisins 100%. Það kallar hann einkavæðingarsýki sem sýnir glögglega að hann telur rétt að fjarskiptaþjónusta hér á landi sé áfram rekin af opinberri stofnun og að við með þeim hætti förum ekki sömu leið og grannþjóðir okkar. Það er auðvitað skoðun út af fyrir sig. Ég hef hins vegar gert grein fyrir því að ég tel að sú leið sé ekki fær og hljóti að leiða til glötunar, draga úr rekstraröryggi starfsfólks Pósts og síma og valda því að stofnunin hljóti að dragast aftur úr í samkeppni við erlend fjölþjóðafyrirtæki sem eru þegar farin að ryðja sér til rúms hér og þreifa fyrir sér um það að fá íslenska aðila til samstarfs í samkeppni við Póst og síma hf. á öllum sviðum fjarskiptaþjónustu frá ársbyrjun 1998.