Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:59:24 (4505)

1996-04-10 14:59:24# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:59]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hv. þm. varð tíðrætt um það sem hann kallar einkavinavæðingu og ég veit ekki hvort ég treysti mér almennilega í þá umræðu við hann því að hann er auðvitað kunnugur þeim málum frá ráðherratíð sinni. Ég held t.d. að það hafi tekist mjög vel til um söluna á hlutabréfunum í Þormóði ramma og ég held að sú ráðstöfun að ríkið skyldi selja þau þangað norður með þeim skilmálum og með því verði sem gert var hafi treyst byggð í Siglufirði og sé ekki eftir því þó að þar hafi nokkru verið til kostað af opinberri hálfu þó að ég minnist þess að Ríkisendurskoðun hafi gagnrýnt þá sölu á sínum tíma og talið að formaður Alþb. hafi kannski gert sig sekan um það sem nú um stundir er kallað einkavinavæðing. Það er kannski rétt að hafa það svart á hvítu hvort svo hafi verið.

Hv. þm. lagði enn fram spurningar sem búið er að svara margsinnis. Fyrsta spurningin laut að því hvað mundi gerast eftir 1. jan. 1998 og hvort tryggt yrði að þjónusta á afskekktum stöðum yrði veitt eins og nú er á sama verði og annars staðar. Um það er það eitt að segja að það er ákvæði um það í frv. um Póst og síma að heimilt sé að setja slík skilyrði og auðvitað veit hv. þm. að annað kemur ekki til greina. Það kostar mikla vinnu og mikinn undirbúning að skilgreina fyrir sér hvernig rétt sé að standa að útboði á því hverjum skuli veitt heimild til þess að annast fjarskiptaþjónustu hér á landi, GSM-þjónustu eða hvað annað sem við tölum um. Því miður er sú vinna ekki komin á lokastig enda er ekki gert ráð fyrir því að samkeppni komi til sögunnar fyrr en 1. jan. 1998 en til verksins hefur verið valið danskt verktakafyrirtæki sem er kunnugt slíkum málum frá öðrum Norðurlöndum í samvinnu við íslenska aðila. Það er guðvelkomið að frekari upplýsingar séu gefnar um þá vinnu í samgn. Mér er ekki kunnugt um hvernig sú vinna stendur á þessari stundu. Það er unnið eins hratt og hægt er en út frá því er gengið að skilgreina nákvæmlega hvaða þjónusta skuli veitt hér á landi, hversu víðtæk hún skuli vera og menn munu gera sér grein fyrir því hvort rétt sé að skylda öll fyrirtæki sem koma inn á þennan vettvang til að veita sambærilega þjónustu á landinu öllu. Þetta er óhjákvæmilegt að skilgreina og eins og ég hef áður sagt er sjálfsagt að þingmenn í samgn. fái að fylgjast með þeim málum og er ekkert að fela í þeim efnum.

Hv. þm. gerði það í öðru lagi að umræðuefni hvort rétt væri að landið allt væri gert að einu gjaldsvæði. Auðvitað er álitamál hvort slíkt eigi að setja inn í fjarskiptalögin. Eins og ég hef áður rakið í ræðu er ekki sá munur á kostnaði sem menn halda hjá heimilum úti á landi og á Reykjavíkursvæðinu og raunar er símkostnaður lægstur í Norðurl. e. Ástæðan er sú að á Reykjavíkursvæðinu eru aðeins 200 skref innifalin í fastagjaldinu en 400 skref úti á landi. Ef landið yrði allt gert að einu gjaldsvæði yrði skrefafjöldinn sá sami alls staðar eða félli niður með öðrum orðum.

Um grunnnetið vil ég svo að síðustu segja því að tíminn er að hlaupa frá mér að í frv. er gert ráð fyrir því að allar eigur renni til Pósts og síma hf. Póstur og sími hf. verður ekki seldur nema atbeini Alþingis komi til. Ef Alþingi kýs síðar meir að selja hluta af Pósti og síma hf. hlýtur Alþingi að taka afstöðu til þess hvaða eignir skuli selja og þá með hvaða hætti. Eins og þessi frumvörp liggja fyrir er gert ráð fyrir því að ríkið eigi grunnnetið.