Iðnaðarlög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:09:16 (4507)

1996-04-10 15:09:16# 120. lþ. 115.4 fundur 405. mál: #A iðnaðarlög# (EES-reglur) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:09]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. en það er þó eitt atriði sem ég vildi fá nánari skýringar á hjá hæstv. ráðherra. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt að Alþingi afgreiði þetta mál fyrir vorþingið því að praktískt talað er þetta þýðingarmeira fyrir Íslendinga vegna umsókna um störf í öðrum löndum en fyrir aðra þá sem kunna að sækja íslenskan vinnumarkað heim. En það er þó eitt atriði í þessu máli sem ég vildi fá nokkuð gleggri skýringar á hjá hæstv. ráðherra.

Hér segir m.a. að hægt sé að öðlast réttindi eftir tiltekið starf eða nám í öðrum EES-ríkjum til starfsréttinda í viðkomandi iðngreinum sem munu vera flestar þeirra iðngreina sem löggiltar eru nú á Íslandi og eru ef ég man rétt milli 68 og 72 talsins. En þó er sagt hér, með leyfi forseta, í greinargerð:

,,Ákvæði iðnaðarlaga um íslensk meistarabréf og sveinsbréf halda gildi sínu. Þær breytingar verða, ef frv. verður samþykkt, að ríkisborgarar EES-ríkja geta öðlast rétt til starfa í iðngreinum á grundvelli starfsreynslu og starfsþjálfunar. Viðkomandi geta þó ekki titlað sig sveina eða meistara.`` Með öðrum orðum geta viðkomandi ekki fengið útgefin sveinsbréf eða meistarabréf samkvæmt íslenskum lögum.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða starfsréttindi eru það þá sem til stendur að veita umræddum starfsmönnum? Ég veit ekki betur en það séu skilyrði fyrir starfsréttindum í löggiltum iðngreinum að sá sem þar starfar sé annaðhvort sveinn eða meistari. Það eru t.d. kröfur byggingarfulltrúa til þess að maður sem hefur iðnmenntun í húsbyggingum megi skrifa á teikningu hafi hann öðlast fullgilt meistarapróf. Það eru kröfur um það að til þess að einstaklingur geti unnið sjálfstætt að verki hafi hann lokið sveinsprófi. Það eru ekki til önnur starfsréttindi á Íslandi í löggiltum iðngreinum en annaðhvort starfsréttindi sveina eða starfsréttindi meistara því að aðrir hafa ekki réttindi til starfa í þeirri iðngrein á eigin ábyrgð. Þeir eru þá annaðhvort nemar sem veitir þeim ekki starfsréttindi per se eða ófaglærðir starfsmenn í iðnaði, með öðrum orðum byggingarverkamenn. Hvaða réttindi eru það þá sem við bjóðum þeim upp á sem hafa fullgilt starfsréttindi í öðrum EES-löndum í viðkomandi iðngreinum ef þeir fá hvorki útgefin sveinsbréf né meistarabréf? Hvaða starfsréttindi hefur þetta fólk þá og hvað heita þau starfsréttindi?

Ber að skilja þetta svo að t.d. maður búsettur í Portúgal, sem hefur lokið þaðan starfsnámi sem veitir honum réttindi til þess að starfa sem iðnsveinn í húsasmíðum, fái þau réttindi ekki viðurkennt hér vegna þess að hann uppfylli ekki þá skilmála að geta talist iðnsveinn samkvæmt íslenskum lögum og t.d. annar maður í húsbyggingariðnaði í Grikklandi, sem hefur þar öðlast leyfi til þess að standa fyrir sjálfstæðum verkum sem slíkur, fái slík réttindi ekki á Íslandi af því að hann hefur ekki íslenskt meistarabréf? Hvaða starfsréttindi er þá hægt að veita þeim mönnum sem koma með slík starfsréttindi frá þeim löndum sem þeir búa í innan EES-svæðisins og geta hvorki fengið sveinsbréf né meistarabréf á Íslandi? Hvað heita þá, virðulegi forseti, þau starfsréttindi, sem gera þeim kleift að starfa í löggiltum iðngreinum á Íslandi? Eða erum við að búa þarna til tvöfalt kerfi, þ.e. aðilar frá öðru EES-landi fá réttindi til starfa og taka að sér verk í löggiltum iðngreinum á Íslandi sem Íslendingum er meinað að gera nema þeir ljúki meistaraprófi svo að dæmi sé tekið, prófi frá meistaraskóla og öðlist þar með réttindi sem iðnmeistarar. Þetta vildi ég gjarnan fá að vita hjá hæstv. ráðherra.