Iðnaðarlög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:15:36 (4509)

1996-04-10 15:15:36# 120. lþ. 115.4 fundur 405. mál: #A iðnaðarlög# (EES-reglur) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:15]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá verður að breyta skilyrðum byggingarfulltrúa í landinu vegna þess að skilmálar flestra byggingarfulltrúa eru þeir að þeir sem fá leyfi hjá þeim til þess að standa fyrir framkvæmdum verða að leggja með sér íslenskt meistarabréf. Ég vil aðeins benda á í þessu sambandi að það er talsvert öðruvísi fyrirkomulag í mörgum EES-landanna en í okkar landi. Hér öðlast menn ekki meistararéttindi nema fara í sérstakt meistaranám. Þar öðlast menn bæði sveins- og meistararéttindi með starfsnámi án þess að þurfa að fara í sérstaka skóla. Ég held að það sé nauðsynlegt að það liggi fyrir alveg ótvíræður skilningur á því og það tel ég mig skilja úr máli hæstv. iðnrh., að ef íslenskar kröfur um menntun stangast á við kröfur Evrópusambandsins eða þess lands í Evrópusambandinu sem viðkomandi hefur fengið sína menntun hjá, þá skuli það vera þau réttindi sem hann öðlaðist í sínu heimalandi sem ráða. Þó svo að þær kröfur kunni að vera minni og það miklu minni en gerðar eru til þeirra sem standa fyrir verkum á Íslandi, þá ræður sá réttur sem viðkomandi hefur öðlast í sínu heimalandi. Ég fæ ekki séð að hægt sé að túlka niðurstöðu af því sem ráðherra sagði áðan öðruvísi. Það er nauðsynlegt að þetta liggi fyrir frá upphafi, virðulegi forseti, svo að það komi ekki upp misskilningur um þessi efni síðar.