Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:45:49 (4516)

1996-04-10 15:45:49# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það verður ekki annað sagt en það sé farið að draga til tíðinda hjá okkur í félmn. Það var rólegt hjá okkur eftir áramót en nú stöndum við frammi fyrir því eins og reyndar flestar nefndir þingsins að stórmálin streyma frá ríkisstjórninni og það er greinilegt að það verður mjög annasamt þær vikur sem eftir eru. Það gildir að vísu ekki um þetta frv. Þetta er ekki stórt að vöxtum en kannski að mörgu leyti því merkilegra.

Fyrsta spurningin sem vaknar hjá mér varðandi þetta frv. er sú: Hvað er að verða um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga? Það er búið að færa mörg og stór verkefni yfir til sveitarfélaganna og fleiri eru á leiðinni. Hér er verið að leggja til að bæta við fleiri tilraunaverkefnum. Auðvitað á eftir að koma í ljós hvað út úr þessu kemur og hvernig þetta gengur en þetta hlýtur allt að vekja upp spurningar, eðlilegar spurningar um hver verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga á að vera. Ég held að það hljóti að koma inn í þessa umræðu og ég vil gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvort hann sjái fyrir sér hugsanlegan flutning á fleiri verkefnum yfir til sveitarfélaganna. Ég vil taka það skýrt fram að ég er alls ekki að mæla því í mót að verkefni séu flutt yfir til þeirra. Ég er þeirrar skoðunar að að mörgu leyti sé það eðlilegast að þeim verkefnum sem snerta daglegt líf fólks sé sinnt af þeim sem til þekkja en þó eru ýmis mál þannig vaxin að það þarf að gera ákveðnar kröfur af hálfu samfélagsins. Þá á ég t.d. við menntamál. Ýmis mál eru það dýr og gera svo miklar tæknilegar kröfur að við þau fær enginn ráðið nema ríkisvaldið og þá er ég ekki síst að hugsa um rekstur sjúkrahúsa, meiri háttar vegalagnir og fleira slíkt. Spurningar um þessa verkaskiptingu hljóta því að vakna.

Við í hv. félmn. brugðum okkur til Akureyrar skömmu eftir áramótin einmitt til þess að kynna okkur hvernig gengi að undirbúa Akureyri sem reynslusveitarfélag. Það var eitt sem vakti sérstaka athygli mína við þá heimsókn sem er að þróunin, reyndar alls staðar á landinu, hefur verið í þá átt að samvinna sveitarfélaga hefur verið að aukast meira og meira. Þau hafa verið að sameinast um að vinna að verkefnum. Ég nefni þar sem dæmi málefni fatlaðra. En þegar kemur að því að verið er að skipuleggja reynslusveitarfélög, eins og Akureyri í því tilviki, þá rekst þetta á, Akureyri sem skilgreint reynslusveitarfélag, kaupstaðurinn Akureyri, og svo sú sameiginlega vinna sem Akureyri og sveitarfélögin þar í kring hafa átt í og þar var sérstaklega minnst á málefni fatlaðra. Þetta vekur upp spurningar um frekari sameiningu sveitarfélaga. Ég veit það reyndar að hæstv. félmrh. er enginn sérstakur áhugamaður um að sameina sveitarfélög, ekki í þeirri merkingu sem hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, var. Það var henni mikið áhugamál að sameina sveitarfélög en hæstv. núv. félmrh. hefur sagt að íbúarnir eigi fyrst og fremst að ráða og það er auðvitað eðlilegt sjónarmið. En þegar hafður er í huga þessi tilflutningur á verkefnum, og við getum haft grunnskólann í huga í því sambandi, þá hljótum við að spyrja hvort það sé ekki eðlilegt og nauðsynlegt að vinna að frekari sameiningu sveitarfélaga. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. um hans skoðun á því og hvort einhver slík vinna eða stefnumótun eigi sér stað í hans ráðuneyti varðandi frekari sameiningu sveitarfélaganna því að þessi mikla samvinna, sem hefur sem betur fer verið að þróast, kemur ekki heim og saman við það þegar menn fara svo að skilgreina þessi sveitarfélög sem tilraunasveitarfélög vegna þess að náttúrlega eru býsna mörg stór sveitarfélög í þessu dæmi. Það kemur einmitt fram á bls. 2 hver þau eru og þar eru stórir kaupstaðir eins og Hafnarfjörður, Garðabær, Akureyri, Vestmannaeyjar og Reykjavík sem náttúrlega er langsamlega fjölmennasta sveitarfélagið. Allt þetta þarf að hafa í huga.

Varðandi þær heimildir sem hér er verið að leita eftir þá finnst mér báðar þær hugmyndir sem hér koma fram mjög athyglisverðar. Ég verð þó að segja að ég átta mig ekki alveg á þessum hugmyndum um félagslega húsnæðiskerfið. Mér finnst þetta mjög athyglisvert en ég á eftir að átta mig betur á því hvernig þetta einfaldar kerfið og hvernig það gerir það ódýrara í rekstri. Er þá skilningurinn sá, hæstv. félmrh., að menn hætti því mati sem nú á sér stað í félagslega húsnæðiskerfinu? Nú hljóta menn að meta greiðslugetu en ég átta mig ekki alveg á því, ef svona kerfi eins og hér er verið að lýsa á að ganga þá hlýtur að þurfa vera nokkurt framboð á lánum og nokkurt frelsi. Menn eiga að geta valið sér íbúð og jafnframt þá staðið í því að selja hana. Við munum að sjálfsögðu kalla eftir frekari skýringum á þessu í hv. nefnd en ég sé það ekki alveg fyrir mér að þetta verði endilega til að einfalda kerfið. En mér finnst mjög gott að gera tilraun til þess og það tengir okkur einmitt því frv. sem verður til umræðu --- það kemst nú varla á dagskrá úr þessu í dag en er frv. sem snertir félagslega húsnæðiskerfið og vekur spurningar um það hvort fram undan séu gagngerar breytingar á því kerfi. Þá vil ég í því sambandi vekja athygli á úttekt Neytendasamtakanna á húsnæðiskerfinu sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að búseturéttarkerfið reyndist vera langsamlega hagkvæmasta kerfið. Og þá vaknar sú spurning hvort sveitarfélögin eigi ekki að beina sjónum miklu meira að því kerfi.

Ég frétti það nýlega að Reykjavíkurborg hefur keypt búseturétt í líklega einum sex eða átta tilvikum og er að gera tilraun með það að færa sig inn í það kerfi. Það verður að segjast eins og er að kaupleiguíbúðirnar, sérstaklega almennu kaupleiguíbúðirnar, hafa ekki gefist vel. Þær hafa verið ákaflega dýrar. Ég veit að alla vega hefur húsnæðisnefnd Reykjavíkur gengið erfiðlega að koma þeim íbúðum upp. En þetta mál getum við rætt nánar þegar húsnæðisfrumvarpið kemst á dagskrá.

Ég vil fagna þessum tilraunum með atvinnulausa. Þarna held ég að sé einmitt dæmi um mál sem sveitarfélögin sjálf eru langsamlega best fær um að taka á. Þau þekkja þann vanda sem við þeim blasir í þeirra sveitarfélagi. En það er að sama skapi athyglisvert að lesa umsögn fjármálaskrifstofu fjmrn. um tillögurnar þar sem vikið er að því að þessi tilraun muni væntanlega valda auknum kostnaði ríkisins, valda auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það getur vel verið að það verði eitthvað tímabundið. Ef hins vegar vel til tekst og það tekst að skapa fólki möguleika til vinnu, og þá sérstaklega ungu fólki, eins og vikið er að í greinargerðinni, þá eru miklu meiri líkur á því að það fólk einmitt detti út af atvinnuleysisskrá. Ég verð að segja það eins og er að ég kann ekki við þennan tón sem er í greinargerð fjárlagaskrifstofunnar og eins þar sem þeir eru að ýja að því að tíð skráning atvinnulausra dragi úr misnotkun á kerfinu. Ég hef litið þannig á að þessar ströngu kröfur til atvinnulauss fólks um að það mæti vikulega til skráningar sé vægast sagt mikil niðurlæging og geri fólki mjög erfitt fyrir og það er hvimleið hugsun í þessu kerfi öllu saman þar sem alltaf er verið að gera að því skóna að allir séu að misnota kerfið. Auðvitað er eitthvað um misnotkun en það eru aðrar leiðir til þess að fylgjast með heldur en það að kalla fólk sífellt til skráningar. Ég held að sú tillaga sem Reykjavíkurborg er með varðandi það að aðeins verði skráð hálfsmánaðarlega ætti að duga og mun það væntanlega draga töluvert úr skriffinnsku og kostnaði. En það er svolítið sérkennilegur tónn í þessum athugasemdum.

Það hafa nú orðið hér einhver mistök alla vega hjá fjárlagaskrifstofunni því hún er að gera athugsemdir við 3. gr. frv. en af einhverjum ástæðum hefur verið hætt við það atriði sem snertir umhvrh. Ég vildi bara vekja athygli á því að hér er einhver athugasemd við grein sem er ekki að finna í frv. hvernig sem á því stendur.

Varðandi frv. í heild vil ég ítreka að mér finnst þessar tilraunir sem viðkomandi sveitarfélög ætla að framkvæma mjög merkilegar og ég fagna því að þau skuli vera svona leitandi og í þeim farvegi að finna sínar lausnir á þeim vandamálum sem við þeim blasa, hvort sem það er innan félagslega húsnæðiskerfisins eða í atvinnumálum. Og ekki skal ég láta mitt eftir liggja til að afgreiða þetta mál á þessu vori þó að við okkur blasi mikil og stór verkefni að öðru leyti.